Hundraðasti sigur Liverpool á Everton!
Liverpool náði í kvöld aftur 12 stiga forystu á toppi deildarinnar eftir spennuþrunginn leik gegn Everton á Anfield Road. Liverpool vann 1:0. Þetta var 100. sigur Liverpool á Everton og hann kom á besta tíma!
Alisson Becker fékk ekki grænt ljós á að spila leikinn þar sem hann hefur ekki fyllilega náð sér af höfuðhögg sem hann varð fyrir í landsleik á dögunum. Írinn Caoimhin Kelleher tók því markmannsstöðuna. Curtis Jones var valinn sem hægri bakvörður.
Það heyrðust ekki mannsins mál fyrir leik þegar þjóðsögnurinn var sunginn fyrir leik. Krafturinn í Musterinu var næstum því áþreifanlegur!
Það var jafnræði með liðunum til að byrja með. Á 12. mínútu dró til tíðinda þegar James Tarkowski gersamlega sparkaði Alexis Mc Allister niður rétt utan vítateigs með villimannslegri atlögu. Hann náði reyndar boltanum fyrst en svo small svo á Alexis með sólann á undan sér. Dómarinn gaf gult sem er rannsóknarefni. Sjónvarpsdómgæslan svaf gersamlega á verðinum og lét dómarann ekki leiðrétta mistök sín. Lygileg vanhæfni!
Fyrsta færið kom á 28. mínútu. Luis Díaz sem var mjög ógnandi á vinstri kantinum gaf fyrir og hitti beint á Mohamed Salah sem var á fjærstöng en skalli hans var laus og fór beint á Jordan Pickford. Fimm mínútum seinna fékk Everton dauðafæri. Virgil van Dijk missti Beto inn fyrir sig eftir mislukkaða hreinsun. Beto komst einn í gegn. Caoimhin kom út á móti honum. Beto skaut boltanum framhjá honum en sem betur fer small boltinn í stönginni og hættan leið hjá.
Fátt meira markvert gerðist fram að hálfleik en ekkert vantaði upp á baráttu. Hver einast leikmaður í grannliðunum barðist eins og ljón hvar sem boltinn fyrirfannst. Ekta grannaslagur! Ekkert mark í hálfleik.
Liverpool hafði ekki spilað sinn besta leik í fyrri háfleik en leikmenn liðsins náðu mun betur saman eftir hlé. Spilið gekk betur og leikur liðsins batnaði í samræmi við það. Á 53. mínútu átti Ryan Gravenberch fast skot sem Jordan varði og svo var bjargað í horn.
Á 57. mínútu gekk allt af göflunum af fögnuði hjá Rauðliðum. Ryan sendi fram að vítateignum í átt að Luis. Sendingin rataði ekki rétta leið. Í framhaldinu barst boltinn til og frá þar til hann kom til Luis. Hann sendi boltann með hælnum fyrir fætur Diogo Jota sem fékk boltann rétt við vítateiginn. Hann lék framhjá einum varnarmanni og inn í teig. Þar fór hann framhjá öðum áður en hann sendi boltann framhjá Jordan og í markið úr miðjum teig. Snilldarlega gert og fögnuðurinn var engu líkur!. Diogo hefur átt erfitt uppdráttar síðstu vikur en nú náði hann loksins marki og það á besta tíma!
Baráttan hélt áfram en nú hafði Liverpool öll ráð og Everton komst ekkert áleiðis. Átta mínútum fyrir leikslok komst Luis í skotfæri í vítateignum en varnarmaður komst fyrir skotið. Þremur mínútum fyrir leikslok elti varamaðurinn Darwin Núnez boltann inn í vítateiginn. Jordan kom æðandi út á móti honum og sparkaði hann niður. Ekki í fyrsta sinn sem hann svo til ræðst á leikmenn. Áður en þetta gerðist var dómarinn búinn að dæma aukaspyrnu úti á vellinum þannig að Jordan slapp með skrekkinn.
Liverpool sigldi stigunum þremur í örugga höfn og sanngjarn sigur var innsiglaður með þegar dómarinn flautaði til leiksloka. Gersamlega magnaður sigur!
Liverpool sýndi styrk sinn með því að leggja Everton að velli. Eftir erfiðan fyrri hálfleik tók Liverpool völdin og sýndi góðan leiks. Hundraðasti sigur Liverpool á Everton í sögunni kom á allra besta tíma!
Liverpool: Kelleher; Jones, Konaté, Van Dijk, Robertson; Gravenberch, Mac Allister; Salah (Endo 90.mín.), Szoboszlai, Diaz (Gakpo 86. mín.) og Jota (Nunez 75. mín.). Ónotaðir varamenn: Jaros, McConnell, Quansah, Tsimikas, Chiesa og Elliott.
Mark Liverpool: Diogo Jota (57. mín.).
Gul spjöld: Diogo Jota og Darwin Núnez.
Everton: Pickford; O’Brien, Tarkowski, Branthwaite, Mykolenko; Garner (Iroegbunam 78. mín.), Gueye; Harrison (Ndiaye 69. mín.), Doucoure (Chermiti 86. mín.), Alcaraz (Young 78. mín.) og Beto (Broja 79. mín.). Ónotaðir varamenn: Joao Virginia, Patterson, Keane og Coleman.
Gul spjöld: James Tarkowski og Beto.
Áhorfendur á Anfield Road: 60.331
Maður leiksins: Diogo Jota. Ðortúgalinn var kannski ekki besti maður vallarins. En sigurmarkið hans var eins dýrmætt eins og nokkurt mark gat verið!
Arne Slot: ,,Það var ekki spurning um að við þurftum að berjast af harðfylgi fyrir sigrinum. Það kom ekki á óvart að sú yrði raunin."
Fróðleikur
- Þetta var 100. sigur Liverpool á Everton!
- Þetta var 246. leikur liðanna í öllum keppnum. Liverpool hefur unnið 100 leiki, Everton hefur 68 sinnum unnið og jafnteflin eru 78.
- Þetta var níunda mark Diogo Jota á leiktíðinni.
- Liverpool lagði Everton að velli í fjórða sinn í röð á Anfield.
-
| Mummi
Aðalfundur Liverpoolklúbbsins -
| Heimir Eyvindarson
Hvernig leggst hvíldin í okkar menn -
| Sf. Gutt
Lokaspretturinn hefst annað kvöld! -
| Sf. Gutt
Skipt um gír í síðari hálfleik! -
| Sf. Gutt
Fyrsti apríl! -
| Sf. Gutt
Asíuferð í sumar -
| Sf. Gutt
Leikjatilfærslur -
| Sf. Gutt
Mohamed Salah Leikmaður mánaðarins! -
| Sf. Gutt
Tveir komu fyrr heim -
| Sf. Gutt
Í minningu