| Sf. Gutt

Fyrsta deildartapið frá í haust!

Liverpool tapaði sínum fyrsta deildarleik frá því í haust þegar liðið mátti lúta í gras 3:2 fyrir Fulham í London. Forysta Liverpool er enn góð á toppnum en það var hið versta mál að tapa þessum leik.

Fulham byrjaði betur en það var Liverpool sem náði forystunni. Á 14. mínútu náði Alexis Mac Allister boltanum á miðjum vallarhelmingi Fulham. Hann lék fram að vítateignum og þrykkti boltanum svo út í hliðarnetið vinstra megin. Glæsilegt skot hjá Argentínumanninum!

Níu mínútum síðar jöfnuðu heimamenn. Það kom fyrirgjöf frá hægri. Ibrahima Konaté náði ekki að skalla frá. Þess í stað fór boltinn af honum og yfir til vinstri. Þar hrökk hann í Curtis Jones og féll fyrir fætur Ryan Sessegnon sem skoraði viðstöðulaust. Óhepppni hjá Curtis að fá boltann svona í sig og af honum beint á mótherja.

Aftur liðu níu mínútur. Andrew Robertson átti þá glórulausa þversendingu á Alex Iwobi. Færi gafst á að hreinsa en það mistókst. Það endaði með að Alex fékk boltann aftur. Skot hans í vítateignum fór af Andrew, sem var kominn til að bæta fyrir, og í markið framhjá Caoimhin Kelleher. Aftur óheppni en varnarleikurinn hjá Liverpool hroðalegur!

Fulham herjaði nú á mark Liverpool og litlu síðar átti Alex skot sem Caoimhin gerði vel í að verja. Á 37. mínútu versnaði staðan enn frekar. Eftir hornspyrnu náði Liverpool ekki að hreinsa. Rodrigo Muniz lék á Virgil van Dijk með því að lyfta boltanum yfir hann. Hann komst þar með inn í teiginn og skoraði. Aftur hroðalegur varnarleikur og Liverpool tveimur mörkum undir eftir að hafa verið yfir. Slæm staða í hálfleik. 

Liverpool lék mun betur eftir hlé enda varla annað hægt. Eftir þrjár mínútur náði Mohamed Salah sendingu á Diogo Jota sem komst í gegn en Bernd Leno varði frá honum. Upplagt færi og Diogo hefði átt að skora. Á 65. mínútu gaf varamaðurinn Luis Díaz inn í vítateig á Mohamed sem var í góðu færi en hann mokaði boltanum hátt upp í stúku! 

Luis færði mikið líf í sóknarleikinn og Liverpool tók öll völd. Liverpool komst loks inn í leikinn á 72. mínútu. Conor Bradley, sem kom inn sem varamaður, braust fram og kom boltanum inn í vítateiginn á Luis sem skoraði með því að skjóta sér fram. Nú sótti Liverpool án afláts. Á 79. mínútu fékk Harvey Elliott, sem kom inn á, boltann hægra megin lék sig í skotstöðu í teignum og náði góðu bogaskoti en því miður fór boltinn í þverslána. Tveimur mínútum fyrir leikslok ógnaði Fulham eiginlega í fyrsta sinn í hálfleiknum. Harrison Reed átti þá gott skot við vítateiginn, eftir hraða sókn, en Caoimhin varði vel. 

Í viðbótartíma varði Bernd frá varamanninum Federico Chiesa. Skotið var ekki nógu fast. Litlu síðar náði Harvey skoti en Bernd varði aftur. Fyrsta tap Liverpool í deildinni frá því um miðjan september varð staðreynd!

Segja má að Liverpool hafi tapað leiknum í fyrri hálfleik. Einbeitingarleysi og slæm varnarmistök urðu til þess að sigurstaða breyttist í tap. Liverpool hefði vel getað jafnað í síðari hálfleik en skaðinn var skeður. Staða Liverpool á toppnum er mjög góð en það má ekkert slaka á!

Mörk Fulham: Ryan Sessegnon (23. mín.), Alex Iwobi (32. mín.) og Rodrigo Muniz (37. mín.). 

Mörk Liverpool: Alexis Mac Allister (14. mín.) og Luis Días (72. mín.). 

Áhorfendur á Craven Cottage: 27.770.

Maður leiksins: Luis Díaz. Kólumbíumaðurinn kom mjög stekur til leiks í síðari hálfleik og kom Liverpool inn í leikinn. Hann átti stórleik á móti Everton og hann hefði eiginlega átt að byrja þennan leik. 

Arne Slot: ,,Við fengum þrjú mörk á okkur. En þessi mörk voru þannig að það var ekki boðlegt fyrir Liverpool að fá svona mörk á sig."

Fróðleikur

- Alexis Mac Allister skoraði í sjötta sinn á leiktíðinni. 

- Luis Días skoraði 14. mark sitt á keppnistímabilinu. 

- Hann hefur aldrei skorað fleiri mörk frá því hann kom til Liverpool. Á síðustu sparktíð skoraði hann 13 mörk. 

- Þetta var fyrsta tap Liverpool í deildinni frá því 14. september. 

- Þaðan í frá hafði Liverpool leikið 26 deildarleiki án taps. 

- Liverpool hafði fyrir þennan leik ekki tapað útileik í deildinni frá því 24. apríl í fyrravor. 

 

TIL BAKA
Nýlegar fréttir
Fleiri fréttir
Fréttageymslan