| Heimir Eyvindarson

Hvað sem hver segir

Liverpool hefur ekki sýnt neina sérstaka takta í undanförnum leikjum. Sjaldséð röð mistaka í vörninni kostaði 3 mörk gegn Fulham á sunnudaginn. En, við erum á góðri leið með að vinna deildina.

Klárum mótið með stæl

Það hefur komið fram talsverð gagnrýni á liðið á hinum ýmsu miðlum að undanförnu. Og hún á að mörgu leyti rétt á sér, en við megum ekki missa sjónar á því að heilt yfir hefur tímabilið verið virkilega flott og ég hef nákvæmlega enga trú á öðru en að liðið rífi sig í gang og klári mótið með stæl.

Merkilega margir stuðningsmenn annarra liða leggja sig í líma við að gera sem minnst úr árangri liðsins. Liverpool sé bara að vinna deildina af því að City sé í lægð, liðið komist ekki í hálfkvisti við bestu lið Guardiola og svo framvegis...

Og já, það er margt til í þessu tuði. Liverpool liðið í dag er til dæmis ekki jafn gott og liðið sem vann deildina með 99 stigum vorið 2020. Það lið náði þrisvar sinnum að landa meira en 90 stigum (2019/97 stig, 2020/99 stig, 2022/92 stig) en landaði samt bara einum sigri í deildinni. Já lífið er vissulega auðveldara þegar City er í basli. 

Ef og hefði

Sennilega hefðum við unnið deildina oftar undir stjórn Klopp, ef City hefði ekki verið með svona gott lið - akkúrat á sama tíma. En svona er þetta bara, stundum spilast deildin þannig að 1-2 lið stinga af og stundum er hún jafnari. Það gerir afrek þess liðs sem vinnur hana hverju sinni engu minna. (Svo ég tali nú samt í smá hring þá er ekki hægt að líta fram hjá því að það að vinna deildina með 100 stigum 2018 og 98 stigum árið eftir, eins og City gerði, er með hreinum ólíkindum. Magnað afrek. Svo það sé nú sagt). Líklega munum við sem dýrkum og dáum Klopp alltaf fá smá óbragð í munninn þegar við hugsum til olíurisanna í Manchester, Financial Fair Play o.s.frv... 

Klopp sagði einmitt, í gríni að sjálfsögðu, að hann hefði óskað þess að Guardiola hefði tekið sér fjögurra ára frí frá boltanum í stað þess að koma til Englands. 

Er „Leicester tímabil" í gangi?

Eðlilega er sérfræðingum tíðrætt um slakt gengi Manchester City í vetur. Það er augljóst að það hefur gefið öðrum liðum tækifæri á að stíga upp. Liverpool er í raun eina liðið sem hefur gert það. Hingað til a.m.k. Eins og staðan er núna getur Liverpool mest endað með 94 stig og Arsenal með 83 stig. Síðast þegar svo lágt stigaskor dugði til að vinna deildina var vorið 2016, þegar Leicester vann með 81 stigi. Sumum hefur einmitt verið tíðrætt um að nú sé einhverskonar „Leicester tímabil" í gangi. Svona til þess að gera sem minnst úr því afreki Arne Slot að vinna (vonandi) deildina á sínu fyrsta tímabili.

 

En stenst það skoðun? Já kannski, ef Liverpool eða Arsenal vinna deildina með rétt rúmlega 80 stigum. Þá má tala um „Leicester tímabil". En ef tímabilið fer ekki algjörlega í skrúfuna hjá Liverpool þá er líklegra að stigasöfnunin verði nálægt 90 stigum. Það er prýðisgott í öllu samhengi.

Leicester vann deildina 2016 með 81 stigi, eins og áður segir. Einungis fimm sinnum hefur deildin unnist á færri stigum. Í öll þau skipti stóð annað hvort Arsenal eða Manchester United uppi sem sigurvegari.  

Leikjum fækkað úr 42 í 38

Tímabilið 1995-1996 var liðum í Úrvalsdeildinni fækkað úr 22 í 20, þannig að leikirnir urðu 38 í stað 42. Frá því að þessi breyting var gerð hefur deildin 9 sinnum unnist með meira en 90 stigum. Þau lið sem hafa náð því eru Manchester City (2018/100 stig, 2019/98 stig, 2022/93 stig, 2024/91 stig), Chelsea (2005/95 stig, 2006/91 sig, 2017/93 stig), Manchester United (2000/91 stig) og Liverpool (2020/99 stig). Sú staðreynd að Liverpool hafi þrisvar náð meira en 90 stigum, en aðeins unnið deildina einu sinni er því í raun ótrúlega svekkjandi tölfræði.  

Til gamans er hér lokastaðan í deildinni vorið 1997. (Mynd fyrir athygli)

Hvað sem hver segir

Það er óumdeilt að Liverpool hefur komið á óvart í vetur. Liðið hefur verið nokkuð stöðugt í sínum leik og kannski sýnt aðeins meiri aga á köflum undir stjórn Slot, en á Klopp tímanum. Að einhverju leyti á kostnað skemmtanagildisins. Síðustu vikur hafa verið örlítið erfiðar og kannski er Slot í fyrsta skipti núna að finna fyrir einhverri alvöru pressu. En það er staða sem liðið hefur sjálft komið sér í, með góðum leik. Gleymum því ekki. 

7 leikir eftir

Nú eru 7 leikir eftir af tímabilinu og það eru verulegar líkur á að við vinnum deildina. Það er stórkostlegur árangur, hvað sem öllum stiga útreikningum líður. Ef Liverpool heldur sínu striki hvað stigasöfnun varðar mun liðið enda með 89-90 stig. Það er vel yfir meðaltali. Ef liðið dettur í algjört stuð þá endum við með 94 stig, sem yrði 5. besti árangur í sögu Úrvalsdeildarinnar. Hvorki meira né minna. Nú og svo getur auðvitað vel verið að sérfræðingarnir hafi rétt fyrir sér og liðið sé sprungið. Þá er það bara þannig. Svona er nú fótboltinn einföld íþrótt. 

YNWA

 

TIL BAKA
Nýlegar fréttir
Fleiri fréttir
Fréttageymslan