Titillinn er í seilingarfjarlægð!
Englandsmeistaratitillinn er í seilingarfjarlægð eftir að Liverpool vann Leicester City á páskum. Liverpool vann 0:1 í Leicester og þarf nú aðeins þrjú stig til að gulltryggja 20. Englandsmeistaratitilinn í sögu félagsins.
Páskasólin skein skært í Leicester. Liverpool byrjaði mjög vel og strax á 3. mínútu fékk Mohamed Salah boltann inn í vítateiginn frá Luis Díaz. Við hægra markteigshornið skaut hann út í fjærhornið. Boltinn fór í innanverða stöngina eftir marklínunni og í hina stöngina. Ótrúleg óheppni hjá Mohamed sem hefur ekki skorað í meira en mánuð!
Á 10. mínútu náði Wilfred Ndidi að snúa af sér leikmann Liverpool rétt innan vítateigs áður en hann skaut góðu skoti. En boltann hafnaði í stönginni og Liverpool slapp. Það sem eftir var hálfleiksins hafði Liverpool algjöra yfirburði. Refirnir urðu að vinna til að eiga möguleika til að bjarga sér frá falli. Á 37. mínútu átti Cody Gakpo skalla eftir sendingu frá Luis en Mads Hermansen varði. Ekki hafði tekist að skora þegar flautað var til leikhlés.
Eftir þrjár mínútur í síðari hálfleik átti Dominik Szoboszlai fast skot utan vítateigs sem Mads gerði vel í að verja neðst í vinstra horninu. Á 55. mínútu átti Luis skot yfir úr góðu færi. Tveimur mínútum seinna féll boltinn fyrir Kostas Tsmikas en enn og aftur varði Mads. Á 64. mínútu átti Liverpool snögga sókn. Dominik gaf fyrir á varamanninn Diogo Jota sem henti sér fram og skallaði framhjá.
Þremur mínútum seinna skoraði Leicester þegar Conor Coady skallaði í mark af stuttu færi eftir að varamaðurinn Patson Daka hafði komið boltanum fyrir markið við endalínuna eftir að hafa átt návígi við Alisson Becker. Dómarinn dæmdi að Patson hefði brotið á Alisson þegar þeir sóttu að boltanum. Heimamönnum þótti að sakir væru litlar.
Á 71. mínútu voru Trent Alexander-Arnold og Harvey Elliott sendir inn fyrir Conor Bradley og Dominik. Þetta var fyrsti leikur Trent frá því út spurðist að hann ætlaði sér til Real Madrid. Móttökurnar sem hann fékk voru blendnar. Einhverjir fögnuðu honum með því að kyrja lagið hans en baul heyrðist líka.
Skiptingin skilaði sér eftir fimm mínútur. Kostas tók horn frá hægri. Mikill atgangur fylgdi. Mohamed skallaði í stöng af örstuttu færi. Luis tók frákastið og skaut í slá og af henni barst boltinn frá markinu til vinstri. Tveir leikmenn Leicester reyndu að skalla frá en boltinn féll fyrir Trent. Hann náði skoti með vinstri. Boltinn fór milli varnarmanna og þó Mads næði að snerta boltann hafnaði hann í markinu. Allt varð gersamlega brjálað innan vallar sem utan. Trent reif sig úr treyjunni, sem var hengd á hornfánann, og æddi í átt að stuðningsmönnum Liverpool sem fögnuðu tryllingslega. Magnað augnabik sem lengi verður í minnum haft!
Liverpool gekk vel að verja markið til leiksloka. Stuðningsmenn Rauða hersins fögnuðu vel og lengi í leikslok. Það var ekki amalegt að gleðjast í páskasólinni!
Liverpool spilaði býsna vel og hafði algjöra yfirburði í leiknum. Sigurinn hefði átt að vera stærri en sem fyrr voru stigin þrjú fyrir öllu. Englandsmeistaratitillinn er nú í seilingafjarlægð. Liverpool þarf aðeins þrjú stig úr fimm síðustu leikjum sínum. Þetta er alveg að hafast!
Gult spjald: Wilfred Ndidi
Mark Liverpool: Trent Alexander-Arnold (76. mín.).
Gul spjöld: Conor Bradley og Trent Alexander-Arnold.
Maður leiksins: Alexis Mac Allister. Heimsmeistarinn var mjög sterkur á miðjunni. Það er hann að öllu jöfnu.
Fróðleikur
- Trent Alexander-Arnold skoraði fjórða mark sitt á leiktíðinni.
- Þetta var 350. leikur Trent fyrir Liverpool. Hann er búinn að skora 23 mörk og leggja upp 86.
- Þetta var 50. deildarsigur Liverpool á Leicester City.
-
| Sf. Gutt
Þrjú stig duga! -
| Sf. Gutt
Með stærri stundum! -
| Sf. Gutt
Gleðilega páska! -
| Sf. Gutt
Sex stig duga! -
| Sf. Gutt
Trent að verða leikfær -
| Heimir Eyvindarson
Ættleiddur Scouser búinn að skrifa undir! -
| Sf. Gutt
Einbeitum okkur bara að næsta leik! -
| Sf. Gutt
Í minningu -
| Sf. Gutt
Úr leik! -
| Mummi
Mikið fjör á árshátíð Liverpoolklúbbsins!