| Mummi

Mikið fjör á árshátíð Liverpoolklúbbsins!

Árshátíð Liverpool klúbbsins á Íslandi var haldin með pomp og prakt þann 22. mars 2025 í Sjónarhóli en það er salur í eigu Fimleikafélags Hafnarfjarðar. Það verður að segjast að öll þjónusta og umgjörð í kringum þann sal er til mikillar fyrirmyndar. Salurinn var að sjálfsögðu skreyttur hátt og lágt eins og okkar er von og vísa. Telja má líklegt að hann hafi verið með allra fallegasta móti þetta árið, svo fínn og flottur að starfsfólk FH hafði sérstaklega orð á því. Allt í fallega rauðu og hvítu hvort sem það voru dúkar, ljós eða hvað annað.

Eins og á síðasta ári fengum við Minigarðinn og Grillvagninn til liðs við okkur þegar kom að matarföngum og urðum aldeilis ekki fyrir vonbrigðum. Maturinn var algjörlega geggjaður. Ekki ólíklegt að það verði gerð tilraun til að fá þá til samstarfs enn að ári.

Veislustjórn þessa árs var í höndum þess mikla meistara og stórsnillings Bolla Más Bjarnasonar. Það þarf ekki mikið að fjölyrða um hæfni þess drengs til að halda gleðinni í hámarki á svona viðburðum, algjörlega frábær. Fangaði alla í salnum um leið og hann steig á svið með sinni snilli. Það þarf vart að taka það fram að Bolli er eldrauður í gegn þegar kemur að enska boltanum, gallharður Liverpool stuðningsmaður.

Happdrættið var að sjálfsögðu á sínum stað þar sem vinningar voru ekki af verri endanum frekar en undanfarin ár, ferðavinningur, hótelgistingar, Liverpool treyja, gjafabréf á viðburð á Hotel Tia í Liverpool og ýmislegt fleira.

Útnefndur var nýr heiðursmeðlimur í Liverpool klúbbnum á Íslandi, þar er heiðraður maður sem hefur gefið líf og sál fyrir klúbbinn okkar í mörg undanfarin ár. Sá aðili heitir Sverrir Jón Gylfason og er hann afar vel að þessari viðurkenningu kominn. Enda stóðu allir í salnum upp og uppskar Sverrir mikið lófaklapp og húrra hróp þegar hann var tilkynntur og fékk viðurkenninguna afhenda.

Aðalgestur þessarar hátíðar var hinn mjög svo skotfasti fyrrum vinstri bakvörður Liverpool FC, John Arne Riise. Við höfum í gegnum tíðina fengið marga góða og skemmtilega fyrrum leikmenn liðsins okkar í heimsókn til okkar, en það er óhætt að segja að fáir hafi náð að kalla fram jafn margar tilfinningar og fengið jafn mikinn hlátur frá gestum árshátíðanna eins og þessi meistari náði. Hann hefur afar mikla og sérstaka sögu að segja frá sínum uppvaxtar árum og frá sínum ferli og mátti á stundum heyra saumnál detta í salnum þegar hann var að lýsa uppvextinum t.a.m. En þess á milli sló hann á mjög svo létta strengi þannig að allir gestir görguðu af hlátri. Riise spilaði með Liverpool á árunum 2001 – 2008, spilaði 348 leiki og skoraði 31 mark af öllum stærðum og gerðum. Hann var í því stórkostlega liði sem vann Meistaradeildina í Istanbul 25.05.2005 og er mjög stoltur af því afreki. Riise þótti mikið til lands okkar og þjóðar koma, segist hafa farið víða í slíkum erindagjörðum, en aldrei fengið viðlíka móttökur og hér hjá okkur þar sem hann fékk að sjá heilmikið af umhverfinu okkar hér á suðurlandinu og næstu byggðarlögum við borgina, ásamt því að fara í útvarpsviðtal hjá Bolla á K100. Við upplifðum þennan meistara mjög svo alúðlegan, ljúfan og afskaplega skemmtilegan mann.

Ragnhild Lund Ansnes vinkona okkar kom að venju, tók þetta stórskemmtilega viðtal við Riise. Hún hafði einmitt orð á því að þetta væri einhver flottasta og skemmtilegasta árshátíð sem hún hafi upplifað hér á landi. Vill ólm fá að koma enn og aftur að ári. Með henni kom svo hann Kieo vinur okkar með gítarinn í farteskinu. Hann tók að sjálfsögðu nokkur mjög svo vel valin Liverpool lög, bæði sem hann valdi og sem að gestir okkar fengu að velja. Hann kveikti í gestum hátíðarinnar og endaði sitt atriði að sjálfsögðu á You´ll never walk alone þar sem ALLIR stóðu upp og sungu með af öllum lífs og sálar kröftum. 

Það var svo hann Bragi Guðmundsson, Poolari, útvarpsmaður og DJ með meiru sem að steig síðastur á svið og þeytti skífum fram eftir kvöldi með sínu einstaka lagi. Fékk fólk til að syngja og dansa eins og enginn væri morgundagurinn.

Við erum þegar farin að huga að næstu árshátíð Liverpool klúbbsins, 2026 enda ekki seinna vænna. Verður spennandi að sjá hver vill heimsækja okkur næst, en við getum ekki beðið eftir að gleðjast með ykkur að ári kæru klúbbfélagar. 

YNWA
Kveðja frá stjórn Liverpoolklúbbsins á Íslandi.

 
TIL BAKA
Nýlegar fréttir
Fleiri fréttir
Fréttageymslan