Kenny Dalglish
Dalglish hóf tímabilið 1971-72 með því að leika gegn Rangers í deildarbikarnum. Á 70. mínútu fékk Celtic vítaspyrnu. Boltanum var fleygt til Dalglish og strákurinn labbaði í rólegheitunum að vítapunktinum, rölti tilbaka… og hóf svo tilhlaupið en stoppaði á miðri leið og batt skóreimarnar, hann fór svo tilbaka.. og hóf tilhlaupið öðru sinni og skoraði með öruggu skoti í öfugt horn við markvörðinn. Dagblöðin voru bergnumin daginn eftir: "Hann var svo rólegur. Það virtist bara eins og hann væri að spila æfingaleik." Ísinn var brotinn. Dalglish skoraði í fyrstu tveim leikjunum á tímabilinu og 23 mörk í 49 leikjum er yfir lauk. Meistaratitill og bikarinn í höfn. Stjarna var fædd.
Dalglish var orðinn einn af lykilmönnum liðsins á sínu fyrsta tímabili. Hann var valinn besti leikmaðurinn á tímabilinu í einu af stærstu dagblöðum í Skotlandi og lék sinn fyrsta A-landsleik 10. nóvember í 1-0 sigri á Belgum í undankeppni Evrópukeppni landsliða. Hann var hetja í augum aðdáenda Celtic en kappinn lét almennt lítið á sér bera utan fótboltans. Hann brá sér út á lífið einstaka sinnum en tók jafnan framyfir félagsskap kærustu sinnar Marinu en félagsskap samherja sinna. Hann bjó ennþá heima hjá foreldrum sínum og ók ekki um á neinni glæsibifreið. Hann gerðist þó sekur um að gefa út plötu með samherja sínum Sandy Jardine. Lög af plötunni komust ekki á topp tíu listann en hún seldist vel en þeir félagar voru vinsamlegast beðnir um að gefa ekki út aðra plötu. En ekkert lát var á velgengni Dalglish á sviði knattspyrnunnar. Celtic vann aftur meistaratitillinn og Dalglish var markahæstur í liðinu með hvorki meira né minna en 41 mark í 53 leikjum.
Tímabilið 73/74 var farið á örla á alvarlegum vandamálum hjá liðinu. Launin voru frekar lág hjá Celtic og leikmennirnir farnir að ókyrrast enda freistuðu gyllitilboð ensku liðanna en engu að síður vannst titillinn enn einu sinni og bikarinn. Ástandið versnaði 74/75 og eins og á síðasta tímabili gekk Dalglish ekki eins vel fyrir framan markið og áður og var færður á miðjuna eins og iðulega þegar hann var ekki á markaskónum. Hann var nú orðinn fyrirliði Celtic og bætti um betur tímabili síðar þegar hann var valinn fyrirliði landsliðsins. Dalglish var orðinn 24 ára gamall og framtíðin ekki sérstaklega björt hjá Celtic. Rangers vann titillinn og draumurinn um þátttöku í Evrópukeppni Meistaraliða úr sögunni í bili. Tímabilið 75/76 varð ástandið enn erfiðara hjá Celtic er stjórinn Jock Stein slasaðist alvarlega í bílslysi og þurfti að hvíla þetta tímabil. Titillinn var aftur úr augsýn en Dalglish hlotnaðist sá heiður að vera valinn besti leikmaðurinn í Skotlandi af samtökum leikmanna. Dalglish var orðinn órólegur hjá Celtic en féllst á að dvelja enn um sinn en tímabilið 76/77 yrði hans síðasta hjá Celtic. Jock Stein tók aftur við stjórnartaumunum og blásið var til sóknar. Celtic endurheimti titillinn og bikarinn í kaupbæti. Samherjar Dalglish voru ekki undrandi á að Dalglish vildi fara. Hann var búinn að bera liðið á herðum sér undanfarin 3 ár og ef hann vildi ná lengra sem knattspyrnumaður yrði hann að yfirgefa Celtic. Kenny hafði leikið 321 leik fyrir Celtic og skorað 167 mörk. Hann skorti ekki aðdáendur í Englandi og voru öll stórliðin á eftir honum en á endanum stóð valið aðeins um tvö lið: Man Utd og Liverpool.