Kenny Dalglish
1983-84 var Liverpool á tímamótum, Paisley var hættur og Joe Fagan tekinn við. Dalglish missti 14 leiki úr eftir að Kevin Moran kinnbeinsbraut hann í leik gegn Man Utd 2. janúar. Dalglish kom aftur inn í liðið í átta liða úrslitum Evrópukeppninnar gegn Benfica. Hann var farinn að draga sig tilbaka á miðjuna enda orðinn 33 ára. Liverpool vann þriðja sigur sinn í röð í deildinni, fjórða árið í röð í deildarbikarnum og varð Evrópumeistari í fjórða sinn á síðustu sjö árum. AS Roma var lagt af velli á þeirra eigin heimavelli. Það var vægast sagt umdeilt að leyfa leiknum að fara þar fram en leikvangurinn hafði verið ákveðinn í upphafi tímabils og þrátt fyrir mótmæli Liverpool var knattspyrnusambandi Evrópu ekki haggað. Leikurinn fór í vítaspyrnukeppni en Dalglish var þá kominn útaf eftir að hann náði sér ekki á strik í hitanum á Ítalíu. Alan Kennedy reynist aftur örlagavaldur Liverpool í Evrópu eins og þrem árum áður í Róm og skoraði úr úrslitavítinu. 1984-85 var Dalglish í fyrsta skipti á ferli sínum með Liverpool tekinn úr byrjunarliðinu. Fagan sagði að Dalglish hafði ekki verið upp á sitt besta en viðurkenndi seinna að það hefðu verið mistök að taka hann úr liðinu. Dalglish komst fljótlega í liðið aftur og lék vel. Hann æfði aðeins á fimmtudögum og fékk að því leyti sérmeðferð enda vöðvarnir orðnir aumir hjá gamla manninum. Dalglish var farinn að huga að framtíðinni. Hann átti kannski eitt tímabil eftir sem leikmaður og ef til vill myndi hann verða framkvæmdastjóri einhvers staðar hjá einhverju neðrideildarliði. Símtal sem honum barst einum degi fyrir úrslitaleikinn á móti á Juventus á Heysel-leikvanginum kom honum heldur betur á óvart. John Smith formaður Liverpool var í símanum.
Smith spurði hvort að hann og Peter Robinson stjórnarformaður Liverpool mættu kíkja í heimsókn til hans. "Auðvitað", svaraði Dalglish. "Fagan er að hætta og okkur vantar nýjan framkvæmdastjóra, hefurðu áhuga?" Dalglish var þrumu lostinn, eina sem hann gat stunið upp úr sér var "þið megið samt sem áður koma í heimsókn." "Þá komum við til þín og ræðum málin", svaraði Smith. Dalglish tók tilboðinu með því skilyrði að Bob Paisley yrði við hlið hans fyrstu tvö árin og var það samþykkt. Tilkynningin um ráðningu hans var fyrirhuguð eftir úrslitaleikinn við Juventus. Blöðin höfðu komist á snoðir um fyrirætlanir Liverpool og að morgni úrslitaleiksins voru baksíður blaðanna þaktar fyrirsögnum um að Fagan væri að hætta og Dalglish myndi líklega taka við. Leikmennirnir voru þrumu lostnir. Fagan var öskureiður að blöðin hefðu komist að þessu á þessum mikilvæga degi þegar Liverpool þurfti á öllum sínum kröftum á að halda er þeir gerðu atlögu að Evrópumeistaratitilinum í fimmta sinn. Fagan kallaði leikmennina á fund en gaf ekkert upp annað en að leik loknum þá nægði þeim að kalla hann bara Joe. Átökin á Heysel-leikvangnum gerðu leikinn að aukaatriði er 39 manns féllu í valinn. Lið Liverpool sneri aftur til Englands í sviðsljós fjölmiðlanna. Liverpool tilkynnti blaðamannafund síðar um daginn. Paisley, Smith og Dalglish settust niður og greindu umheiminum frá að Dalglish væri tekinn við. Smith sagði að þeir bæru fullt traust til Kenny að standa sig vel á þessum nýja starfsvettvangi. Hann væri ungur að árum en byggi yfir mikilli reynslu og visku sem myndi vel sæma eldri manni.
Þetta var ekki beint auðveldasti tíminn til þess að taka við liðinu ef raunar einhver tími getur talist heppilegur eða auðveldur til þess að taka við stórliði eins og Liverpool. Eitt sigursælasta lið Evrópu var útilokað frá þátttöku í Evrópukeppninni um ófyrirsjáanlegan tíma.
Dalglish var fyrsti leikmaður/framkvæmdastjóri í sögu ensku knattspyrnunnar og efsemdaraddirnar voru margar og háværar. En einn besti vinur hans bar fullt traust til hans og hafði reyndar sagt í viðtali við skoska blaðamanninn Gerry McNee ári áður að næsti framkvæmdastjóri Liverpool yrði Kenny Dalglish. Graeme Souness sagðist ekki hafa heyrt neitt frá formanni Liverpool eða öðrum tengdum félaginu. Hann fann þetta bara á sér: "Fólk hræðist Dalglish dálítið, hann á það til að vera dálítið þurr á manninn og fólk hrekkur við þegar hann talar við það. Þetta eru góðir eiginleikar fyrir framkvæmdastjóra", sagði hann nokkru síðar. Dalglish var hæverskur: "Maður getur aðeins gert sitt besta. Ef þú ert ekki nógu góður þá ertu ekki nógu góður. Ég yrði sá fyrsti sem myndi átta sig á því ef ég væri ekki nógu góður og þá myndi ég horfast í augu við það. Ég tekst á við þetta starf með sama hugarfari og þegar ég var leikmaður. Ég mun gera mitt besta. Gefa af mér það sem ég hef að gefa af mér og vona að það sé nóg til þess að ná árangri."