Kenny Dalglish


Allir fjölmiðlar beindu sviðsljósinu að leiknum gegn Arsenal fyrsta leikdag tímabilið 1985-86. Fyrsta byrjunarlið Liverpool undir stjórn Kenny Dalglish var reiðubúið að taka á andstæðingum sínum. Grobbelaar var í marki, Neal og Kennedy bakverðir, Hansen og Lawrenson í hjarta varnarinnar, Nicol, Whelan, Molby og Beglin á miðjunni með Dalglish fyrir framan og Rush fremstan. En lið Liverpool virtist ekki vera undir nokkurri pressu. Liðið vann öruggan 2-0 sigur á Arsenal. Liðið gerði síðan 2-2 jafntefli við Aston Villa og tapaði 0-1 fyrir Newcastle og efasemdaraddirnir létu aftur hátt í sér heyra en þögnuðu þegar Liverpool valtaði yfir Ipswich 5-0 og vann 6 af næstu 8 leikjum. Dalglish tók við góðu búi en strax á fyrstu mánuðum tímabilsins þurfti hann að skipta út bakvarðarparinu sigursæla frá dögum Paisley.

Alan Kennedy ákvað að hans tími á toppnum væri lokið og aðeins mánuði síðar tók Neal við stjórn Bolton Wanderers. Nicol og Beglin voru nýja bakvarðarparið. Alan Hansen tók við fyrirliðastöðunni af Neal. Daninn Jan Molby sem var keyptur tímabilið áður frá Ajax hafði spilað um 20 leiki undir stjórn Fagans en var kominn aftur í varaliðið en Dalglish treysti Dananum og hann fékk það traust margfalt endurgoldið. En vera Molby í liðinu var uppspretta helstu vangaveltna fjölmiðla og knattspyrnusérfræðinga um lið Dalglish. Það var ekki það að hann væri ekki nógu góður heldur að einn daginn lék hann í miðju varnarinnar og var þar með fimmti maður í vörn og annan daginn stjórnaði hann leiknum á miðjunni. Þetta var mjög frábrugðið leikkerfi því sem menn áttu að venjast hjá Liverpool og ljóst var að Dalglish var óhræddur við að taka áhættu og reiddi sig ekki einungis á gamlar og góðar aðferðir sem höfðu tryggt liðinu velgengni í gegnum árin.

Dalglish ákvað að taka upp veskið í fyrsta skipti og var Steve McMahon keyptur á 350.000 pund frá Aston Villa í september. Dalglish ákvað að leyfa Johnston og síðar Walsh að spreyta sig í sinn stað. En þrátt fyrir ágætis árangur var liðið í lok október níu stigum á eftir Man Utd sem hafði unnið alla tíu leiki sína. Liverpool tók á sprett frá lok október til loka nóvember og minnkaði muninn niður í tvö stig. En lélegur desember og febrúarmánuður þar sem liðið gerði 3 jafntefli og tapaði 4 leikjum í deildinni hélt þeim frá efsta sætinu. Fjölmiðlar og aðdáendur liðsins söknuðu Dalglish og töldu að Liverpool myndi vera sterkara með hann í liðinu 35 ára gamlan eins og síðar varð raunin en hann þráaðist við að sinni að velja sig í byrjunarliðið. Meistarar Everton voru orðnir skeinuhættir og á endanum yfirtóku þeir Man Utd og Liverpool og náðu 5 stiga forskoti. En 0-2 tap gegn Everton reyndist vendipunkturinn og Liverpool vann 5 af 6 leikjum sínum í mars og þegar Steve McMahon skoraði bæði mörk liðsins í 2-0 sigri á Man City 31. mars var liðið loksins komið í hið langþráða efsta sæti. Dalglish var nýbyrjaður að leika aftur með liðinu og lék síðustu 9 leiki liðsins í deildinni og skoraði tvö mörk. Nærvera Dalglish hafði greinilega góð áhrif því að í þessum 9 leikjum fékk liðið aðeins á sig 1 mark og skoraði 24 mörk. Þegar komið var að síðasta leik tímabilsins gegn Chelsea á Stamford Bridge var Liverpool með 85 stig gegn 83 stigum Everton. Á 23. mínútu réðust úrslit leiksins, Beglin átti frábæra sendingu á hvern annan en Kenny Dalglish og hann tók við boltanum og skaut honum glæsilega í fjærhornið.

En tímabilinu var ekki lokið, nú var stóra spurningin hvort Liverpool gæti leikið afrek Arsenal eftir og orðið annað liðið á öldinni til þess að vinna deild og bikar á sama tímabilinu. Erkifjendurnir í Everton hugðust launa þeim lambið gráa en réðu ekki við Jan Molby og Ian Rush sem fóru á kostum eins og oft á leiktíðinni og tvennan var í höfn í frábærum leik. Það kom engum á óvart að Dalglish var valinn framkvæmdastjóri ársins.

Dalglish varð einnig þess heiðurs aðnjótandi að leika hundraðasta landsleik sinn fyrir Skotland í leik gegn Rúmeníu 26. mars en meiðsli komu í veg fyrir að hann léki í sinni fjórðu heimsmeistarakeppni en aðeins 8 leikmönnum í sögu knattspyrnunnar hefur tekist það. Alex Ferguson landsliðsþjálfari var að vonum svekktur enda sagði hann að Dalglish átti að vera potturinn og pannan í leik liðsins í HM. Dalglish lék alls 102 leiki fyrir Skotland og skoraði 30 mörk. Dalglish jafnaði met Denis Law er hann skoraði frábært mark í 3-1 sigri gegn Spánverjum 14. nóvember 1984 og lét þar við sitja en leikjametið á hann einn og langt í næsta mann.

TIL BAKA