Kenny Dalglish


Aðdragandinn að tímabilinu 1988-89 varð sannarlega óvæntur. Peter Robinson var að baða sig í sólinni á Spáni þegar hann kom auga á tímaritsgrein þar sem stóð að Alexander Zavarov sóknarmaðurinn snjalli væri á leið til Juventus og þá yrði einum útlendingnum ofaukið. Robinson grunaði hver yrði skilinn út undan og hafði strax samband við Dalglish. 18. ágúst, tveimur dögum áður en Liverpool mætti Wimbledon í Góðgerðarskildinum, þá voru fréttamenn orðlausir, Kenny Dalglish var nýbúinn að tilkynna þeim á blaðamannafundi að Ian Rush væri kominn aftur til Liverpool. Spennan var gríðarleg fyrir tímabilið og aðdáendur liðsins néru hendur sínar í eftirvæningu en veltu jafnframt fyrir sér hvernig hann ætlaði að nýta Barnes, Beardsley, Aldridge og Rush alla í sama liði. Rush var á bekknum í fyrsta leiknum gegn Charlton en kom inná í seinni hálfleik fyrir Beardsley en Aldridge minnti rækilega á hver væri aðalmarkaskorarinn á Anfield með glæsilegri þrennu. Mikilvæga hlekki vantaði í vörnina, Hansen var meiddur, Lawrenson hættur vegna meiðsla og eftir einungis fimm leiki missti Dalglish hin snjalla Grobbelaar í 25 leiki. Í þriðja leik fékk Rush loks tækifæri í byrjunarliðinu á kostnað Beardsley. Barnes meiddist og Beardsley og Rush spiluðu báðir en Rush náði ekki enn að skora. Hann braut loks ísinn í sjöunda leiknum sínum á tímabilinu gegn Walsall í deildarbikarnum og skoraði svo 3 mörk í næstu 5 leikjum. Óánægjuraddir gerðu vart við sig eftir 1-2 tap gegn Nottm Forest 26. október. Þetta var þriðja tap liðsins í deildinni, einu fleira en allt síðasta tímabil. Ákvörðun Dalglish að fá Rush aftur á Anfield virtist hafa komið honum í koll. Enginn leikmaður Liverpool var á skotskónum fram í miðjan janúar. Aldridge hafði aðeins skorað 7 mörk miðað við 20 ári áður, Barnes 6, Rush 5 og Beardsley 4. Í kjölfar 1-3 taps gegn Man Utd 1. janúar var Dalglish búinn að fá nóg. Hann læsti búningsklefanum og lét vaða. Hann reifst og skammaðist og sagði Ray Houghton síðar að hann hefði aldrei séð Kenny svo reiðan. Á æfingu daginn eftir kallaði hann leikmennina á fund og bað þá aðstoðar. Þolinmæði hans væri gjörsamlega á þrotum og hann vildi ekki sjá aðra eins frammistöðu eins og gegn utd. Allir höfðu eitthvað til málanna að leggja og það er óhætt að segja að þetta var vendipunkturinn á tímabilinu. Liverpool vann 16 af næstu 19 deildarleikjum og gerði 3 jafntefli. Aldridge reimaði á sig skóna og skoraði 20 mörk. Tap var ekki á dagskránni.

Liðinu gekk einnig vel í bikarkeppninni en þegar kom að undanúrslitaleik Nottm For og Liverpool fékk fótboltinn aðra merkingu í huga framkvæmdastjórans Kenny Dalglish. Það voru sex mínútur liðnar af leiknum þegar sorgaratburðir urðu að raunveruleika á áhorfendastæðum aðdáenda Liverpool. Þetta var í þriðja skipti sem Dalglish varð vitni að harmleik á knattspyrnuvelli. Þegar hann var nítján ára í leikmannahópi Celtic létust 66 manns á Ibrox, 39 manns á Heysel ’84 og hér létust alls 96 Liverpoolaðdáendur. Fjölmiðlar og aðdáendur Liverpool sáu aðra hlið á Dalglish. Hann steig fram í sviðsljós fjölmiðlanna og gaf þeim nægan tíma. Hann huggaði aðstandendur jafnt sem leikmenn. Þegar Liverpoolborg þarfnaðist leiðtoga til þess að leiða borgina í gegnum erfiða tíma var Dalglish reiðubúinn. Rúmlega hálfum mánuði síðar reyndu leikmenn Liverpool að einbeita sér að boltanum aftur þótt erfitt væri. Liverpool vann Forest 3-1 í öðrum leik og var ljóst að Everton yrðu andstæðingar þeirra í úrslitaleiknum og burtséð frá því að dagur úrslitaleiks F.A. Cup sé jafnan stærsti dagurinn á hverju tímabili þá fékk þessi dagur aukna merkingu vegna þeirrar staðreyndar að bæði liðin voru frá Liverpool. Rush var á bekknum og Aldridge kom Liverpool yfir en Stuart McCall jafnaði tæpri hálfri mínútu fyrir leikslok og varð þess valdandi að leikurinn fór í framlengingu. Ian Rush var settur inná og það reyndist afskaplega heppileg skipting. Rush skoraði tvö og bikarinn var Liverpool. Nú var stefnan sett á titillinn. Liðið vann West Ham 5-1 og síðasti deildarleikurinn var á milli toppliðanna á Highbury. Liverpool var með 76 stig en Arsenal 73. Markatala Liverpool var 65-26 (+39) en Arsenal 71-36 (+35). Liverpool gat meira að segja tapað en ekki með tveggja marka mun annars myndi Arsenal vinna titillinn vegna þess að þeir höfðu skorað fleiri mörk. Staðan í hálfleik var 0-0 og Liverpool í ágætis málum. En á 52. mínútu skoraði Arsenal að því er virtist ólöglegt mark en Alan Smith fagnaði þótt erfitt væri að sjá að hann hefði snert óbeina aukaspyrnu Nigel Winterburn í netið. Klukkan tifaði og á lokamínútu leiksins brunaði Arsenal upp völlinn og viti menn boltinn lá aftur í netinu og Arsenal fagnaði. 45 sekúndur liðu eftir að Liverpool tók miðju og svo flautaði dómarinn til leiksloka. Leikmenn Liverpool lögðust á völlinn og tárin streymdu fram. Dalglish horfði örvæntingarfullur á Moran og Evans. Níu mánaða vinna í súginn er tæp mínúta var eftir af tímabilinu.

Dalglish styrkti vörnina með Svíanum Glen Hysen og ákvað að láta Aldridge byrja á bekknum í upphafi tímabilsins 1989-90 í staðinn fyrir Ian Rush sem þótti heldur dularfull ákvörðun með tilliti til þess að Aldridge hafði skorað 20 mörk í síðustu 22 leikjum liðsins. Liverpool tók upp þráðinn þar sem frá var horfið á síðasta tímabili. Liðið vann 7 af fyrstu 10 leikjum sínum og gerði 3 jafntefli og lá Crystal Palace m.a. 9-0 er Liverpool setti markamet í sögu félagsins í efstu deild. Liverpool hafði tapað einum leik frá 3. janúar til 14. október í 35 leikjum. En liðið tapaði 4 af næstu 5 leikjum. Aldridge var búinn að fá nóg af setunni á bekknum og var farinn til Real Sociedad á Spáni og Rush hafði skorað 6 mörk í 14 leikjum. Aðdáendur Liverpool gátu ekki skilið hvernig Dalglish gat látið þvílíkan markaskorara eins og John Aldridge yfirgefa Anfield. En Liverpool komst aftur á beinu brautina og um miðjan apríl var ljóst að Aston Villa eða Liverpool yrði meistari. Liverpool var með eins stigs forskot þegar Ísraelinn Ronny Rosenthal sem Dalglish fékk lánaðan frá Standard Liege í Belgíu gerði gæfumuninn á lokasprettinum. Hann skoraði 7 mörk í 7 leikjum og Liverpool varð meistari í 18. sinn og Dalglish framkvæmdastjóri ársins í þriðja sinn á síðastliðnum fimm tímabilum. Dalglish hafði ekki valið sjálfan sig í liðið reglulega síðan í október 1986. Leikmaðurinn Kenny Dalglish lék loks sinn síðasta leik fyrir Liverpool er hann kom inná sem varamaður gegn Derby í næstsíðasta leik tímabilsins. Einn stórkostlegasti leikmaður í sögu knattspyrnunnar hafði endanlega lagt skóna á hilluna með alls um 835 leiki að baki sem sigursælasti leikmaður í sögu Bretlandseyja.

TIL BAKA