Jafnglími gegn Luton
Leikmenn Liverpool buðu ekki upp á neina flugeldasýningu á þessum þrettánda. Liverpool gerði 1:1 jafntefli við Luton og liðin þurfa að mætast í aukaleik. Heimamenn börðust eins og ljón allan leikinn og leikmenn Liverpool máttu vel við una! Að minnsta kosti verðskuldaði Luton jafntefli og aukaleikurinn kemur liðinu vel fjárhagslega. Að sjálfsögu var búist við öruggum sigri Liverpool en jafntefli var sanngjörn niðurstaða. Liverpool er enn með í keppninni og það er meira en hægt er að segja um nokkur lið Úrvalsdeildarinnar eftir bikarleiki helgarinnar.
Liverpool hefði átt að skora í fyrstu sókn leiksins. Ryan Babel náði boltanum við miðju og tók á rás inn í vítateig Luton en Dean Brill varði glæsilega. Á 5. mínútu hefðu heimamenn átt að skora. David Edwards slapp þá einn í gegnum vörn Liverpool en Charles Itandje stóð vaktina vel og varði vel. Fjórum mínútum seinna sendi Peter Crouch laglega sendingu inn fyrir vörn Luton á Dirk Kuyt. Hollendingurinn fór illa með gott færri og skaut yfir markið. Í seinni hluta hálfleiksins fékk Peter Crouch tvö færi með stuttu millibili. Fyrst varði Dean frá honum og svo skaut Peter rétt framhjá. Heimamenn áttu líka góðar sóknir undir lok hálfleiksins en náðu ekki að koma skoti á markrammann.
Það var ljóst í fyrri hálfleiknum að heimamenn, sem nú berjast í bökkum utan vallar sem innan, ætluðu að selja sig dýrt í þessum leik og það breyttist ekkert eftir leikhléið. Liverpool byrjaði þó seinni hálfleikinn vel og Dirk Kuyt átti góða fyrirgjöf á 48. mínútu en Yossi Benayoun náði ekki til boltans í upplögðu færi. Rétt á eftir átti John Arne Riise þrumuskot utan teigs sem fór í varnarmann en Dean gerði vel í að verja boltann eftir að vera kominn úr jafnvægi. Heimamenn svöruðu svo loks fyrir sig. Drew Talbot, sem átti stórleik, skallaði þá yfir úr dauðafæri fyrir miðju marki. Fátt gerðist svo markvert þangað til á 74. mínútu. Vörn Luton opnaðist þá skyndilega upp á gátt. Varamaðurinn Andriy Voronin slapp einn í gegn. Skot hans var ekki nógu nákvæmt og Dean varði vel. Hann hélt þó ekki boltanum. Peter Crouch tók frákastið og skoraði af stuttu færi. Vel gert hjá Peter sem þarna var vel vakandi. Það var varla hægt að segja að Liverpool verðskuldaði forystu en en stuðningsmenn gestanna kvörtuðu ekki! Þrettándagleðin varð á hinn bóginn skammvinn. Hinn spræki Drew Talbot lék þá á Steve Finnan og sendi fyrir markið frá vinstri. Það virtist svo sem ekki mikil hætta á ferðum en inni á markteignum kom John Arne Riise og renndi sér á boltann. Hann náði að stýra boltanum frá en ekki tókst betur en svo að boltinn, sem var á leið frá markinu, fór í hendina á Norðmanninum og þaðan í markið! Ótrúlegt mark og heimamenn gengu af göflunum af fögnuði. En hvernig John Arne kom boltanum svona í eigið mark er gersamlega ómögulegt að skilja. Rétt á eftir fékk John Arne tækifæri til að bæta fyrir sig og skora sigurmarkið. Hann fékk boltann í upplögðu skotfæri vinstra megin en skaut framhjá! Þetta atvik segir sögu Norðmannsins á þesaari leiktíð! David Edwards átti síðasta færið sem eitthvað kvað að en fast skot hans utan teig fór yfir. Jafntefli varð niðurstaðan og voru það sanngjörn úrslit. Heimamenn gátu verið stoltir af liðinu sínu og draumur Don Hutchison, fyrrum leikmanns Liverpool, rættist en hann óskaði sér þess að liðin þyrftu að leika aftur á Anfield Road. Þar leika liðin í aukaleik og þá mega leikmenn Liverpool ekki gera nein mistök!
Luton Town: Brill, Keane, Perry, Coyne, Goodall, Bell, Currie, Edwards, Spring, Talbot og Andrew. Ónotaðir varamenn: Hutchison, Jackson, Robinson, O´Leary og Furlong.
Mark Luton Town: John Arne Riise, sm (77. mín.).
Liverpool: Itandje, Finnan, Carragher, Hyypia, Riise, Benayoun (El Zhar 86. mín.), Alonso, (Mascherano 74. mín.), Lucas, Babel (Voronin 70. mín.), Crouch og Kuyt. Ónotaðir varamenn: Martin og Hobbs.
Mark Liverpool: Peter Crouch (74. mín.).
Gul spjöld: Xabi Alonso, John Arne Riise og Sami Hyypia.
Áhorfendur á Kenilwoth Road: 10.226.
Maður leiksins: Jamie Carragher. Jamie hafði í mörg horn að líta í vörninni og stóð vaktina vel. Sumir af félögum hans hefðu mátt taka hann sér til fyrirmyndar í því að berjast almennilega.
Álit Rafael Benítez: Við vissum að þetta yrði erfiður leikur og hann var það svo sannarlega. Þeir lögðu mjög hart að sér. Það gerðum við líka en þegar liðið nær forystu þarf það að nota reynslu sína og stjórna leiknum. Við fengum á hinn bóginn mark á okkur þremur mínútum seinna og það var gremjulegt. Við getum sannarlega leikið betur en að minnsta kosti fáum við tækifæri til að leika annan leik á Anfield og þá held ég að annað verði upp á teningnum."
-
| Sf. Gutt
Gleðileg jól! -
| Sf. Gutt
Úr leik! -
| Sf. Gutt
Hlýrra uppi í stúku! -
| Sf. Gutt
Dregið í Deildarbikarnum -
| Sf. Gutt
Áfram í Deildarbikarnum -
| Mummi
Miðasala á Liverpool – Ipswich og Liverpool – West Ham -
| Mummi
Seinkun á jólagjöf -
| Sf. Gutt
Af samningamálum Trent Alexander-Arnold -
| Sf. Gutt
Jafntefli manni færri! -
| Sf. Gutt
Enn nær Mohamed Salah merkum áfanga!