| Sf. Gutt

Liverpool leikur aftur í Adidas!

Liverpool Football Club og þýski íþróttavöruframleiðandinn Adidas tilkynntu í dag um samning þess efnis að Liverpool noti vörur fyrirtækisins næstu árin. Adidas tekur við af Nike sem búningaframleiðandi fyrir Liverpool 1. ágúst í sumar.

Hermt er að Liverpool fái um 60 milljónir sterlingspunda fyrir samninginn. Það er eitthvað hærri upphæð en Liverpool hefur fengið frá Nike en bandaríski íþróttavöruframleiðandinn hefur framleitt búninga fyrir Liverpool síðustu fimm leiktíðir. Nike og Puma tóku, ásamt Adidas, þátt í útboði um að framleiða búninga fyrir Liverpool. 

Adidas hefur tvívegis áður framleitt búninga fyrir Liverpool. Fyrst frá árinu 1985 til 1996 og svo aftur frá 2006 til ársins 2012. Margir stuðningsmenn Liverpool hafa þá skoðun að Adidas hafi tekist sérlega vel upp við að hanna fallega búninga fyrir Liverpool á þeim árum sem fyrirtækið sá um búningaframleiðslu fyrir félagið.

 

TIL BAKA
Nýlegar fréttir
Fleiri fréttir
Fréttageymslan