| Heimir Eyvindarson

Risaleikur í París í kvöld

Í kvöld mætir Liverpool PSG á Parc des Princes í fyrri leik liðanna í 16 liða úrslitum Meistaradeildarinnar. Stuðningsfólk Liverpool á ekkert sérstakar minningar frá þessum annars glæsilega leikvangi.

Liverpool mætti síðast á Parc des Princes í lok maí 2022, í úrslitaleik Meistaradeildarinnar gegn Real Madrid. Það er óhætt að segja að það hafi ekki verið sérlega létt stemning yfir Frökkunum það leiðinlega kvöld. Myndin hér að ofan er ágæt upprifjun á viðhorfi öryggisvarða og lögreglu gagnvart „lýðnum frá Liverpool“

En þetta er allt búið og gert og engin ástæða til að velta sér frekar upp úr því. Vonandi eiga stuðningsmenn Liverpool ánægjulegt kvöld í vændum í borg ástar og osta.

Áður en reynsla komst á hið nýja fyrirkomulag Meistaradeildarinnar hefðu líklega fæstir reiknað með að PSG og Real Madrid myndu rétt sleppa inn í 16 liða úrslitin. Enn færri hefðu getað ímyndað sér að Liverpool án Jürgen Klopp myndi sigra deildakeppnina. En svona er boltinn stundum og oft hefur sú tilfinning læðst að mér að það sé smá „Þjóðverjabragur“ á PSG og Real, rétt slefa upp úr riðlinum og fara svo alla leið.

Ef þessi ónotatilfinning reynist rétt þá er ekki hægt að hugsa sér betri tímapunkt til að mæta PSG. Ef við ætlum að vinna þessa keppni þurfum við hvort eð er að geta unnið öll lið - og ef okkur tekst það ekki þá er best að ljúka því af og einbeita sér að öðru.

Það er góð stemning í Liverpool liðinu þessa dagana. Liðið hefur alla burði til að vinna þrefalt, en í hugum okkar flestra skiptir öllu máli að vinna ensku deildina. Hitt er bónus.

Að því sögðu þá er alveg 100% klárt í mínum huga að Liverpool er sterkara lið en PSG í augnablikinu, en þeir líta þó miklu betur út núna en fyrir áramót. Dembele er sjóðheitur og liðið er stútfullt af góðum leikmönnum, þótt það sé kannski ekki eins fáránlega vel mannað og þegar Messi, Neymar og Mbappé voru þar.

Eiginlega er ekkert meira um þennan leik að segja í bili. Vonandi tekst okkur að komast yfir þessa frönsku hindrun, þá bíður Aston Villa að öllum líkindum í 8 liða úrslitunum. Það væri að mörgu leyti þægilegt, þó ekki væri nema bara fyrir stuttan ferðatíma. 

YNWA

 

 

TIL BAKA
Nýlegar fréttir
Fleiri fréttir
Fréttageymslan