| Grétar Magnússon

Benítez varar Everton við Torres

Fernando Torres hefur skorað 3 mörk gegn Everton í síðustu þrem leikjum.  Honum mistókst að skora á síðast en Rafa Benítez varar Everton við því að Torres muni koma sterkur til leiks á sunnudaginn.

Torres misnotaði mjög gott færi í síðasta leik gegn Everton þegar hann skaut í stöng.  Þetta var í fyrsta sinn síðan í nóvember sem Torres var í byrjunarliðinu og býst Benítez við því að sinn aðalsóknarmaður verði betur tilbúinn í slaginn á sunnudaginn.

,,Ég var ánægður með hann á mánudaginn.  Það er ekki auðvelt að spila í nágrannaslag þegar svo mikið er undir.  Hann var gjörsamlega búinn á því í lokin en hann gerði vel," sagði stjórinn í viðtali við opinbera heimasíðu félagsins.

,,Hann er mjög nálægt því að vera orðinn 100% - nú snýst þetta bara um að ná góðu leikformi.  Hann þarf að spila leiki.  Maður veit að sóknarmenn þurfa að spila og komast í færi öðru hverju.  Það er lykillinn til að ná upp sjálfstrausti.  Því fleiri tækifæri sem menn fá því líklegri eru þeir til að skora mörk.  Vonandi skorar hann um helgina."

Benítez sagði einnig frá því að hann hefði ítrekað það við leikmenn sína að brjóta ekki af sér rétt fyrir utan vítateiginn til að koma í veg fyrir hættulegar fyrirgjafir frá Mikel Arteta.

,,Við höfum talað um þetta.  Við þurftum að gæta okkar og brjóta ekki klaufalega af okkur, en samt þurftum við að verjast aukaspyrnu fyrir utan teig tvisvar með stuttu millibili í leiknum á mánudaginn.  En allt í lagi, við gerðum mistök og vonandi getum við lært af þeim fyrir framtíðina."

,,Leikmennirnir gera sér grein fyrir þessu og við þurfum að bæta okkur.  En við erum ekki að fá á okkur mjög mörg mörk og það lítur alltaf mjög illa út þegar maður fær á sig mark undir lok leiks í nágrannaslag.  Við vinnum í þessum hlutum í hverri viku, æfum okkur í föstum leikatriðum, bæði í vörn og sókn."

Leikurinn á sunnudaginn er sá fyrsti á einni viku, leikið er við Wigan á miðvikudaginn næsta og helgina þar á eftir koma Chelsea í heimsókn.  Benítez var spurður að því hvort hann myndi breyta liðinu mikið fyrir leikinn á sunnudaginn og svaraði hann:  ,,Við sjáum til.  Við höfum nægan tíma fyrir þennan leik en við þurfum að hugsa um Wigan og Chelsea.  Ég held hinsvegar að við höfum nógu sterkan hóp."

TIL BAKA
Nýlegar fréttir
Fleiri fréttir
Fréttageymslan