| Sf. Gutt

Stórleikur og magnaður sigur!

Liverpool lék einn ef ekki besta leik sinn á keppnistímabilinu þegar liðið gekk frá Manchester City 3:0 á Anfield Road. Andy Carroll opnaði markareikning sinn með tveimur mörkum!

Þrír fleiri voru komnir á meiðslalistann frá því í tapinu um síðustu helgi og einn af þeim var Steven Gerrard. Ríkasta félag í heimi mótherji og Kenny Dalglish setti táninginn John Flanagan í byrjunarliðið. Þessi strákur þykir mikið efni og hann átti eftir að eiga eftirminnilega kvöldstund.

Eins og venjulega á þeim leik Liverpool, á Anfield, áður en kemur að 15. apríl var þeirra sem létust í harmleiknum á Hillsborough vottuð virðing með einnar mínútu þögn. Eins var hermannsins Mark Burgan og Jan Fairclough eiginkonu David Fairclough, fyrrum leikmanns Liverpool, minnst. Jan féll óvænt frá núna um helgina. Leikmenn beggja liða léku með sorgarbönd.

Það var alveg á hreinu frá fyrstu mínútu að leikmenn Liverpool ætluðu sér sigur í þessum mikilvægan leik. Hver einasti leikmaður liðsins var á fullu og ekki var slakað á fyrr en flautað var til leiksloka 90 mínútum seinna! Á 7. mínútu kom fyrsta færið. Andy Carroll stakk þá boltanum laglega fram á Luis Suarez sem lék upp að vítateignum. Þar skaut hann góðu skoti sem stefndi í markið en Joe Hart gerði mjög vel, varði boltann í stöngina og bjargaði málum. Rétt á eftir ógnuðu gestirnir í eina skiptið í hálfleiknum þegar Dedryk Boyata náði ekki að stýra skalla sínum á markið af stuttu færi og boltinn fór yfir.

Það var þó orðið stutt í mark Liverpool en það kom á 13. mínútu. Kröftug sókn Liverpool endaði með því að Raul Meireles reyndi skot, í mikilli bjartsýni, lengst utan af velli. Varnarmaður komst fyrir skotið en boltinn hrökk fyrir fætur Andy Carroll og hann þrykkti boltanum í markið með bylmingsskoti utan vítateigs. Allt gekk af göflunum af fögnuði og mest allra fagnaði Andy en honum fannst greinilega tími til kominn að opna markareikning sinn og þó fyrr hefði verið. Joe hafði aðeins hendi á boltanum en skotið var firnafast. Sniðugt var að markið var áþekkt því sem hann skoraði einmitt gegn Liverpool í desember og eins fyrsta landsliðsmarkinu hans á dögunum.

Liverpool réði eftir þetta fullkomlega öllu á vellinum og gestirnir áttu í vök að verjast. Það sköpuðust kannski ekki hættuleg færi en sóknir Liverpool voru kraftmiklar og beinskeyttar. Reyndar munaði ekki miklu uppi við mark Liverpool á 32. mínútu þegar Aleksander Kolarov átti skot utan af vinstri kanti sem litlu munaði að varamaðurinn Mario Balotelli næði að stýra að marki en það vantaði alla grimmd í hann og ekkert varð úr.

Á 34. mínútu skoraði Liverpool aftur. Mikil og þung sókn, sem margir tóku þátt í, endaði með því að Fabio Aurelio fékk boltann vinstra megin í vítateignum. Hann lék á varnarmann og skaut að marki. Varnarmaður komst fyrir skotið en boltinn hrökk til hægri á Dirk Kuyt og markakóngurinn stýrði boltanum innanfótar, með hárnákvæmu skoti, neðst í vinstra hornið. Fallegt mark og Dirk stefnir á markakóngstitil Liverpool. Það magnaðasta við markið var hin harða sókn Liverpool sem fylgdi á undan. Magnað!

Stuðningsmenn Liverpool voru enn brosandi út að eyrum þegar næsta mark kom rétt rúmlega sextíu sekúndum seinna. Raul fékk boltann úti til vinstri og sendi góða sendingu fyrir markið. Í miðjum teignum stökk Andy hærra en varnarmaður City og skallaði boltann glæsilega efst í  fjærhornið út við stöng. Enn stækkuðu brosin og Musterið lék á reiðiskjálfi! Ekki komu fleiri mörk fram að leikhléi og risið var úr sætum þegar Rauðliðar gengu til búningsherbergja. Magnaður hálfleikur svo ekki sé meira sagt.

Rétt í byrjun síðari hálfleiks skapaðist hætta eftir horn frá Raul en skalli Dirk fór rétt framhjá. Lengi vel gerist svo sem ekki mikið hvað færi snertir en leikmenn Liverpool léku áfram frábærlega og gáfu gestunum ekki neina kosti. Næsta hættulega færi Liverpool kom ekki fyrr en þegar ellefu mínútur voru eftir. Jose Reina hóf þá eldsnögga skyndisókn. Luis og Dirk léku saman og það endaði með því að Hollendingurinn fékk boltann inni á vítateignum en skot hans fór framhjá. 

Á 82. mínútu vann Dirk boltann og ekki í fyrsta sinn í leiknum. Hann lék upp að vítateig og sendi á Raul en Joe varði skot hans. Rétt á eftir þurfti Jose loksins að verja. Yaya Toure átti þá þrumufleyg af um þrjátíu metra færi en sem betur fer var skotið beint á Jose sem sló boltann yfir. Liverpool átti svo síðasta færið þegar tvær mínútur voru eftir. Luis lék laglega upp að endamörkum hægra megin og sendi fyrir markið. Boltinn fór á Andy en skalli hans endaði ofan á þaknetinu. 

Stuðningsmenn Liverpool fögnuðu innilega þegar leiknum lauk. Rauðliðar fengu verðskuldaða hyllingu og átti hver einasti þeirra hana skilið. Trúlega var þetta besti leikur Liverpool á keppnistímabilinu. Kannski lofar hann meiru fyrir næsta keppnistímabil en það sem eftir er af þessu. Frábær kvöldstund í alla staði!

Liverpool: Reina, Flanagan, Carragher, Skrtel, Aurelio, Kuyt, Leiva, Spearing, Meireles, Suarez og Carroll (Ngog 90. mín). Ónotaðir varamenn: Gulacsi, Cole, Rodriguez, Wilson, Shelvey og Robinson. 

Mörk Liverpool: Andy Carroll (13. og 35. mín.) og Dirk Kuyt (34. mín.).

Gult spjald: Fabio Aurelio. 

Manchester City: Hart, Boyata, Kompany, Lescott, Kolarov, Barry,Y. Toure, Milner (Silva 59. mín.), Tevez (Balotelli 16. mín), (De Jong 83. mín.), Johnson og Dzeko. Ónotaðir varamenn: Taylor, Zabaleta, Wright-Phillips og McGivern.
 
Áhorfendur á Anfield Road:
 44.776.
 
Maður leiksins: Andy Carroll. Það hefði næstum því verið hægt að velja hvaða leikmann Liverpool sem er sem besta mann en Andy var harðduglegur og svo opnaði hann auðvitað markareikning sinn með tveimur glæsilegum mörkum. Víst er að þau eru aðeins fyrstu af mörgum! 

Kenny Dalglish: Þetta var frábær leikur og mér finnst að leikmennirnir fyllilega verðskuldi þriggja marka sigur. Við skoruðum þrjú mörk í fyrri hálfliek og í þeim seinni vorum við ákveðnir í að hleypa þeim ekki inn í leikinn. Það er ánægjulegt fyrir alla að við skyldum skora þrjú mörk. Við verðskulduðum sannarlega að vinna og spiluðum mjög góða knattspyrnu á köflum. 

 
                                                                               Fróðleikur.

- Andy Carroll skoraði sín fyrstu mörk fyrir Liverpool.
 
- Hann hafði áður skorað ellefu mörk fyrir Newcastle og það síðasta kom í lok desember gegn Manchester City.

- Dirk Kuyt skoraði ellefta mark sitt á keppnistímabilinu.

- John Flanagan lék sinn fyrsta leik með Liverpool.

- Liverpool vann Manchester City í fyrsta sinn eftir fjóra leiki í röð án sigurs.

- Liverpool hefur ekki tapað á Anfield á þessu ári.
 
- Manchester City hefur ekki unnið leik á útivelli á árinu.

Hér eru myndir úr leiknum af Liverpoolfc.tv.

Hér má sjá minningarathöfnina fyrir leikinn.

TIL BAKA
Nýlegar fréttir
Fleiri fréttir
Fréttageymslan