| Heimir Eyvindarson

Sigur á Fulham í erfiðum leik

Liverpool heimsótti Fulham á Craven Cottage í kvöld. Eftir að hafa lent undir tvisvar sinnum i leiknum uppskáru okkar menn sigur í uppbótartíma, með marki úr vítaspyrnu.

Brendan Rodgers stillti upp sama liði og gjörsigraði Arsenal á laugardaginn. Daniel Agger er kominn til baka eftir meiðsli, en varð að gera sér að góðu að setjast á bekkinn í upphafi leiks. Það sama gerði nýliðinn Joao Carlos Texeira, sem var í hópnum í fyrsta sinn. Í treyju númer 53.

Fulham var heldur kröftugra á fyrstu mínútunum og liðið mætti greinilega fullt sjálfstrausts í leikinn, eftir að hafa náð ágætu jafntefli gegn Manchester United í síðasta leik. Strax á 8. mínútu kom fyrsta mark leiksins. Það skoraði Kolo Toure í eigið mark! Kieran Richardson átti þá frekar slappa fyrirgjöf fyrir markið, eftir að hafa labbað auðveldlega framhjá Flanagan og Skrtel. Boltinn skoppaði meinleysislega eftir markteigslínunni, fyrir fætur Toure sem á ótrúlegan hátt tókst að skófla boltanum í eigið mark. Án þess að vera undir nokkurri einustu pressu. Hrikalegur klaufagangur. Staðan 1-0 fyrir heimamenn.

Fyrstu mínúturnar eftir markið var Liverpool liðið heldur óstyrkt, en liðið náði þó smám saman að komast inn í leikinn. Þrátt fyrir að liðið væri heldur meira með boltann voru færin ekkert sérstök, en Suarez var þó sæmilega duglegur að reyna. Hann átti til að mynda ágætt skot að marki Fulham á 13. mínútu, sem Stekelenburg varði í horn.

Rétt seinna hélt Kolo Toure áfram að skemmta áhorfendum í höfuðborginni, þegar hann hljóp Phil Dowd, dómara leiksins, niður af miklum krafti og klaufagangi. Dowd tók byltunni með bros á vör.  

Á 35. mínútu hljóp Kieran Richardson síðan enn eina ferðina framhjá Skrtel og Flanagan, eins og ekkert væri. Hann sendi boltann fyrir markið og fyrirgjöfina skallaði Darren Bent naumlega framhjá úr ágætu færi. Örfáum andartökum síðar átti Gerrard slæma sendingu, beint á Danann William Kvist sem þrumaði boltanum að marki, rétt utan teigs. 

En á 41. mínútu leit fyrsta mark Liverpool dagsins ljós. Það skoraði Daniel Sturridge eftir algjörlega magnaða utanfótar stungusendingu frá Steven Gerrard. Fyrirliðinn hrasaði lítillega í miðjuhringnum áður en hann þeytti boltanum um það bil 40 metra fram völlinn, beint á Sturridge sem lagði boltann laglega fyrir sig og smellti honum í fjærhornið. Stöngin inn! Staðan 1-1 á Craven Cottage. 


Þremur mínútum síðar átti Sturridge annað skot að marki, en boltinn fór yfir og augnabliki síðar átti Gerrard þrumuskot framhjá marki heimamanna. Staðan 1-1 í hálfleik á Craven Cottage, í allt of slöppum leik af hálfu okkar manna.

Liverpool byrjaði seinni hálfleikinn af meiri ákveðni en þann fyrri. Strax á fyrstu mínútum hálfleiksins átti Suarez stórkostlegan snúning hringinn í kringum Sascha Riether í vörn Fulham, sem sá þann eina kost að rífa Úrúgvæann niður. Aukaspyrna dæmd við vítateigshornið og að sjálfsögðu tók Suarez spyrnuna sjálfur, en skaut nokkuð vel framhjá marki vertanna.

Á 55. mínútu átti Sturridge frábæra sendingu inn í teig á Suarez, sem tók boltann niður og renndi honum naumlega framhjá marki Fulham. Sókn gestanna sífellt að þyngjast og allt annað að sjá til liðsins en í fyrri hálfleik.

Á 60. mínútu átti Flanagan fína sendingu á Gerrard inni i teignum, en skot fyrirliðans olli Stekelnburg engum vandræðum. Andartaki síðar komst Sturridge í fínt færi, en skot hans fór af varnarmanni Fulham og aftur fyrir. Upp úr hornspyrnunni átti Luis Suarez hörkuskot í stöng Fulham manna. Liverpool miklu betri aðilinn í leiknum fyrsta stundarfjórðung hálfleiksins og heimamenn ljónheppnir að vera ekki undir í leiknum. 

En á 63. mínútu komust heimamenn yfir, þvert gegn gangi leiksins. Markið var afar slysalegt. Sakleysisleg fyrirgjöf Fulham manna inn í teiginn hjá Liverpool varð upphafið að hálfgerðu sirkusatriði hjá Martin Skrtel, sem ákvað að tækla Flanagan liðsfélaga sinn, sem var í betri aðstöðu til þess að hreinsa frá. Eftir samstuð Flanagan og Skrtel féll boltinn fyrir fætur Kieran Richardson sem skoraði auðveldlega framhjá varnarlausum Mignolet. Staðan 2-1 fyrir heimamenn eftir enn eitt varnarklúður okkar manna í vetur. Afleit varnarvinna hjá Skrtel og eins verður að setja spurningamerki við það afhverju Mignolet steig ekki af marklínunni og hirti fyrirgjöfina, sem var eins og áður segir ósköp sakleysisleg.

Á 69. mínútu skaut Suarez í hönd varnarmanns Fulham inni í vítateig heimamanna en Phil Dowd dómari leiksins sleppti því að flauta. Á 72. mínútu jafnaði Liverpool loks metin. Daniel Sturridge sendi boltann þá á Philippe Coutinho sem hljóp meðfram vítateigsboganum og smellti boltanum síðan með vinstri í fjærhornið. Með örlítilli viðkomu í William Kvist. Staðan orðin 2-2.

Tveimur mínútum síðar slasaði Luis Suarez markvörð Fulham, Hollendinginn Maarten Stekelenburg. Suarez og Sterling áttu þá góðan samleik sem endaði með því að Sterling vippaði boltanum innfyrir vörn Fulham, fyrir fætur Suarez. Stekelenburg var hinsvegar á undan Suarez í boltann, en fékk takkaskó Úrúgvæans beint í andlitið fyrir vikið. Eftir að stumrað hafði verið yfir Hollendingnum í dágóða stund var honum skipt út af fyrir David Stockdale, enda kominn með vænt glóðarauga.

Á 83. mínútu síðar skaut Coutinho rétt framhjá eftir góðan undirbúning Suarez. Illa farið með gott færi. Í uppbótartíma braut Sascha Riether á Daniel Sturridge inni í teig heimamanna og Phil Dowd benti umsvifalaust á vítapunktinn. Steven Gerrard fór að sjálfsögðu í málið og skoraði af þó nokkru öryggi framhjá Stockdale, sem fór þó í rétt horn. Staðan orðin 2-3 á Craven Cottage og sigurinn að öllum líkindum í höfn. 


Á síðustu andartökunum fékk Joao Carlos Texeira, sem kom inn á fyrir Sterling, mjög gott færi en sópaði boltanum lengst upp í stúku. 

Niðurstaðan á Craven Cottage 2-3 fyrir Liverpool. Ánægjulegur, en erfiður útisigur. Eftir leiki kvöldsins er Liverpool í 4. sæti deildarinnar með 53 stig, fjórum stigum á eftir toppliði Chelsea.

Liverpool: Mignolet, Flanagan, Skrtel, Toure, Cissokho, Henderson, Gerrard, Coutinho (Agger á 90. mín.), Sterling (Texeira á 82. mín.), Suarez og Sturridge. Ónotaðir varamenn: Jones, Kelly, Aspas, Alberto, Allen og Moses.

Mörk Liverpool: Daniel Sturridge (41. mín.), Philippe Coutinho (72. mín.) og Steven Gerrard,víti, (90. mín.). 

Gul spjöld: Philippe Coutinho, Jordan Henderson og Steven Gerrard.

Fulham: Stekelenburg (Stockdale á 76. mín.), Riether, Heitinga, Burn, Riise, Tunnicliffe, Sidwell, Holtby, Kvist, Richardson (Kakaniclik á 71. mín.) og Bent. Ónotaðir varamenn: Stockdale, Hangeland, Duff, Kasami, Parker, Cole.

Mörk Fulham: Kolo Toure, sm., (8. mín.) og Kieran Richardson (63. mín.).

Gul spjöld: Willaim Kvist, Sascha Riether, Johnny Heitinga og Kieran Richardson

Áhorfendur á Craven Cottage: 25.375.

Maður leiksins: Steven Gerrard fær heiðurinn að þessu sinni. Fyrirliðinn var skásti maður liðsins í heldur döprum fyrri hálfleik og átti þá gullsendingu á Daniel Sturridge sem gaf fyrra jöfnunarmark okkar manna. Í síðari hálfleik sló gamli maðurinn síðan eignarhaldi á miðjuna og átti gullsendingar í allar áttir. Hann kórónaði svo góðan síðari hálfleik með því að skora sigurmarkið á síðustu andartökum leiksins. Luis Suarez fær líka hrós fyrir vinnusemi og góð tilþrif. Úrúgvæinn óheppinn að skora ekki í kvöld. 

Brendan Rodgers: Þetta var erfiður leikur. Við vorum ekki nægilega góðir í fyrri hálfleiknum, en frábær sending Gerrard og góð afgreiðsla Sturridge gaf okkur von. Í seinni hálfleiknum vorum við mjög góðir og fengum mörg færi til þess að klára leikinn. Það var síðan gulls í gildi að hafa mann með stáltaugar til að taka vítið í lokin og tryggja ánægjuleg 3 stig.  

Fróðleikur

- Þetta var fjórði leikurinn í röð sem Liverpool teflir fram sama byrjunarliðinu.

- Daniel Sturridge skoraði sitt 19. mark á sparktíðinni. 

- Þetta var 30. mark hans fyrir Liverpool í aðeins 37 leikjum.  

- Philippe Coutinho skoraði sitt þriðja mark. 

- Steven Gerrard skoraði í sjöunda sinn á leikíðinni.

- Luis Suarez lék sinn 120. leik með Liverpool. Hann er búinn að skora 74 mörk.

- Joao Carlos Teixeira lék sinn fyrsta leik með Liverpool.

- Kolo Toure lék sinn 450. leik með félagsliði á ferli sínum.

- Þetta var fjórði sigur Liverpool í röð á Fulham. Eftir að hafa tapað báðum leikjunum gegn Fulham á þarsíðustu leiktíð, án þess að skora eitt einasta mark hefur Liverpool nú unnið báðar viðureignir liðanna tvær leiktíðir í röð og skorað samanlagt 14 mörk í leikjunum fjórum. Það er skemmtileg framför. 

Hér eru myndir úr leiknum, af Liverpoolfc.com.

Hér má sjá viðtal við Brendan Rodgers sem tekið var eftir leik.

Hér er viðtal við Steven Gerrard.



TIL BAKA
Nýlegar fréttir
Fleiri fréttir
Fréttageymslan