Jordan tryggði langþráðan sigur
Liverpool náði að vinna sinn fyrsta deildarsigur frá því á síðasta degi ágústmánaðar. Liverpool lagði West Bromwich Albion að velli 2:1 á Anfield í haustsólinni og stuðningsmennirnir gátu farið glaðir heim. Það var sannarlega kominn tími á deildarsigur og gott að fá þrjú stig áður en landsleikjahlé gengur í garð.
Brendan Rodgers gerði nokkrar breytingar á liði sínu frá Evrópuleiknum í Sviss. Sú breyting sem hlaut mesta athylgi var sú að Mario Balotelli var settur á bekkinn en Rickie Lambert fékk að leiða sóknina. Hvorugur hefur komist í gang það sem af er leiktíðar og eiga aðeins eitt mark samtals með Liverpool hingað til. Það breyttist ekki í dag! Glen Johnson kom á varamannabekkinn eftir að hafa verið frá vegna meiðsla frá í ágúst.
Liverpool hóf leikinn skiljanlega af ákveðni en það gerðist heldur lítið þar til á 14. mínútu. Raheem Sterling einlék þá inn í vítateiginn en það var bjargað í horn áður en hann náði skoti á markið. Fjórum mínútum seinna átti Martin Skrtel langa sendingu fram á Rickie Lambert sem fékk boltann frír við vítateiginn. Hann hefði kannski getað lyfti boltanum yfir Ben Foster sem var kominn nokkuð langt úr en þess í stað skaut hann föstu skoti sem Ben náði að verja.
Eftir þetta náðu gestirnir betri fótfestu og á 34. mínútu náði hinn eldfljóti Saido Berahino rispu fram völlinn og þrumaði að marki en Simon Mignolet varði vel. Fimm mínútum fyrir leikhlé kom snögg sókn Liverpool. Raheem lék fram vinstra megin og sendi fyrir markið á Rickie en hann náði ekki valdi á boltanum í góðri stöðu. Það fellur ekkert með honum!
Hinu megin ógnaði Saido aftur. Nú kom sending fyrir frá vinstri en hann skallaði yfir úr góðu færi. Vörn Liverpool var sem fyrr heldur óörugg og á þeim vettvangi er enn verk að vinna.
Allt leit út fyrir markaleysi í hálfleik en ísinn var brotinn á síðustu stundu. Adam Lallana og Jordan Henderson léku glæsilegan þríhyrning rétt utan við vinstra vítateigshornið. Hann endaði með meitlaðri hælsendingu frá Jordan og Adam var þar með sloppinn í gegn og hann sendi boltann með hnitmiðuðu neðst í fjærhornið. Mikill fögnuður hans sýndi vel hversu mikla þýðingu markið hafði fyrir henn. Gott nesti komið þegar dómarinn flautaði til leikhlés nokkrum andartökum seinna.
Eins og allt gengur um þessar mundir kom ef til vill ekki á óvart að gestirnir skyldu jafna og það kom kannski ekki heldur á óvart að markið skyldi vera skorað úr víti sem var út í hött. Dejan Lovren felldi vissulega Saido en brotið var fyrir utan vítateiginn! Saido var nákvæmlega sama og skoraði örugglega út vítinu. Ellefu mínútur búnar af síðari hálfleik og jafnt á nýjan leik.
Ranglega dæmt víti var auðvitað kjaftshögg en Liverpool sýndi styrk og komst aftur yfir á 61. mínútu. Javier Manquillo sendi frá hægri á Raheem sem fékk boltann í vítateignum. Þar féll hann við eftir viðskipti við varnarmann en spratt á fætur og lagði boltann út á Jordan Henderson sem skoraði með hárnákvæmu skoti neðst í hornið fjær. Ekki var þessu marki fangað af minni krafti en því fyrra. Frábært hjá Jordan sem var stórgóður eins og hans er von og vísa.
Gestirnir lögðu ekki árar í bát og þegar stundarfjórðungur var eftir var Saido enn á ferðinni. Nú fékk hann gott skallafæri eftir sendingu frá vinstri en skallinn var sem betur fer laus og beint á Simon. Liverpool sneri vörn í sókn og Mario Balotelli, sem kominn var til leiks, sendi góða sendingu fram á Raheem. Hann var kominn inn í vítateiginn þegar boltinn rakst í hnéð á honum og skaust í burtu. Ekki ósvipað því sem gerðist gegn Basel þegar hann komst í dauðafæri og missti boltann frá sér. Mario reyndi fyrir sér litlu síðar eftir gott samspil við Steven Gerrard en skot hans utan teigs fór beint á Ben. Mario var ákveðinn eftir að hann kom inn á enda settur á bekinn.
Glen Johnson var líka skipt inn á. Hann hefur ekki spilað frá því í ágúst. Þó Glen sé mistækur er gott að fá hann aftur til leiks því hann er þrautreyndur og hann sýndi reynslu sína oft á lokakafla leiksins.
Það var spenna í loftinu síðustu mínúturnar enda mátti ekkert út af bera. Á lokamínútunni sendi Steven laglega hælsendingu á Mario sem komst í gott færi hægra megin í vítateignum. Færið var þröngt en hann náði föstu skoti sem Ben varði naumlega með fótunum.
Öllum Rauðliðum var létt þegar dómarinn flautaði til leiksloka. Þrátt fyrir að Liverpool hafi gengið flest í móti síðustu vikurnar er liðið ekki langt frá sætunum fjórum sem öllu skipta. Sigurinn var algjölega nauðsynlegur því nú hefst lansleikjahlé og það er miklu betra að fara í það með sigri. Kannski veit regnboginn sem birtist yfir Anfield eftir leikinn á gott:)
Liverpool: Mignolet, Manquillo (Johnson 63. mín.), Skrtel, Lovren, Moreno, Gerrard, Henderson, Lallana, Coutinho (Leiva 75. mín.), Sterling og Lambert (Balotelli 63. mín.). Ónotaðir varamenn: Jones, Toure, Borini og Markovic.
Mörk Liverpool: Adam Lallana (45. mín.) og Jordan Henderson (61. mín.).
Gult spjald: Martin Skrtel.
West Bromwich Albion: Foster, Gamboa, Dawson, Lescott, Pocognoli, Dorran (Mulumbu 71. mín.), Morrison (Blanco 80. mín.), Gardner, Brunt (Samaras 87. mín.), Sessegngnon og Berahino. Ónotaðir varamenn: Baird, Yacob, Myhill og McAuley.
Mark W.B.A.: Saido Berahino, víti, (56. mín.).
Gult spjald: Craig Dawson
Áhorfendur á Anfield Road: 44.708.
Maður leiksins: Adam Lallana. Enski landsliðsmaðurinn meiddist í sumar og missti af stærstum hluta undirbúningstímabilsins. Hann var ryðgaður í fyrstu leikjum sínum eftir meiðslin en eftir að hafa komis í gegnum maraþonið í Deildarbikarnum á móti Middlesborough hefur hann náð sér á strik. Hann barðist eins og ljón og skoraði frábært mark sem var honum greinilega mikill léttir.
Brendan Rodgers: Maður verður að finna leið til sigurs og okkur tókst það í dag. Við vorum að spila við lið sem kom hingað fullt af sjálfstrausti eftir að hafa unnið öruggan 4:0 sigur í síðustu viku og unnu svo 1:0 í síðsta útileik sínum á móti Tottenham. Liðshópurinn hérna er fullur af heiðarlegum leikmönnum sem búa yfir miklum skapstyrk. Það gefur mér sem framkvæmdastjóra von þó svo að við séum ekki, á þessum tímapunkti, að spila eins góða knattspyrnu eins og við getum ennþá sem komið er. En ég veit allt um skapstyrk og heiðarleika þessa liðs. Eftir því sem við vinnum meira smaan þá eigum við eftir að bæta leik okkar.
Fróðleikur.
- Adam Lallana skoraði sitt fyrsta mark fyrir Liverpool.
- Það hentar Adam greinilega vel að spila á móti W.B.A. því hann skoraði líka sitt fyrsta mark á ferlinum fyrir Southampton á móti þeim.
- Jordan Henderson opnaði markareikning sinn á leiktíðinni.
- Simon Mignolet lék sinn 50. leik með Liverpool.
- Þetta var fyrsti deildarsigur Liverpool frá því liðið lagði Tottenham 0:3 í London 31. ágúst.
Hér eru myndir úr leiknum af Liverpoolfc.com.
Hér eru myndir úr leiknum af vefsíðu Liverpool Echo.
Hér má lesa um gang leiksins á vefsíðu Liverpool Echo.
Hér er viðtal, af vefsíðu BBC, sem tekið var við Brendan Rodgers eftir leikinn.
-
| Heimir Eyvindarson
Ofurhetja í uppbótartíma -
| Heimir Eyvindarson
Nunez tryggði mikilvægan sigur á Brentford -
| Heimir Eyvindarson
Brentford-Liverpool -
| Sf. Gutt
Áfram með smjörið! -
| Sf. Gutt
Jafnglími! -
| Heimir Eyvindarson
Af hverju er okkur illa við Nottingham Forest? -
| Sf. Gutt
Fyrsta tapið! -
| Sf. Gutt
Darwin í banni -
| Sf. Gutt
Dregið í FA bikarnum -
| Sf. Gutt
Auðvelt áframhald!