| Sf. Gutt

Minnti piltana á Istanbúl!


Sumir segja að Liverpool hafi unnið kraftaverk í kvöld þegar liðið vann ævintýralegan sigur á Borussia Dortmund. Jürgen Klopp sagði eftir leikinn að hann hefði minnt leikmenn sína á það sem gerist í Istanbúl þegar hann talaði við þá í hálfleikshléinu en þá var útlitið svart. Þjóðverjinn sagði þó að hann hefði alltaf haft trú á að Liverpool gæti komist aftur inn í leikinn. Það gerðist þegar Divock Origi skoraði snemma í síðari hálfleik en það átti mikið eftir að gerst eftir það! 

,,Ef satt skal segja þá var býsna gott andrúmsloft í hálfleik. Ég var nokkuð ánægður með leikinn en þó ekki með mörkin sem voru komin en leikurinn sem slíkur var í lagi. Ég sagði strákunum, ég var reyndar ekki þar, að nokkrir leikmenn sem eru aðeins eldri en þeir og vinna núna sem sparkspekingar í sjónvarpi hafi upplifað að vera 3:0 undir í hálfleik og samt ná að vinna úrslitaleik um Meistaradeildina. Þó svo að það hafi ekki verið líklegt þá var sannarlega von til staðar og við ættum að reyna allt sem við gætum!"


,,Það koma augnablik í knattspyrnunni, og í lífinu sjálfu, þegar maður þarf að sýna skapstyrk. Strákarnir sýndu sannarlega skapstyrk og það var býsna flott að horfa á þetta allt. Það þarf auðvitað svolitla heppni til að ná að snúa leik við á móti mótherjum sem eru í hæsta gæðaflokki. En ég held að allir sem komu við sögu í leiknum og sáu hann geti verið sammála um að þegar upp er staðið þá hafi niðurstaðan verið sanngjörn. Kvöldið var algjörlega magnað, framúrskarandi, dásamlegt og tilfinningaþrungið. Eiginlega bara allt sem hægt er að hugsa sér! Ég mun ekki gleyma því af því þetta var allt svo einstakt. En núna verðum við að halda áfram og reyna að gera svona oftar!"


Þessi ótrúlegir leikur fór beinustu leið í annála Liverpool Football Club og þetta kyngimagnaða kvöld verður öllum ógleymanlegt sem upplifðu það hvar svo sem þeir voru staddir!
TIL BAKA
Nýlegar fréttir
Fleiri fréttir
Fréttageymslan