| Grétar Magnússon
TIL BAKA
Spáð í spilin
Gríðarlega mikilvægur leikur er í kvöld gegn Hoffenheim í undankeppni Meistaradeildar. Leikið er á Rhein-Neckar-Arena kl. 18:45.
Það er ekki hægt að segja að bjart sé yfir félaginu þessa stundina. Gamlir og ekki svo góðir varnarbrestir litu dagsins ljós í fyrsta leik ensku úrvalsdeildarinnar á laugardaginn var. Allir þekkja svo stöðu Philippe Coutinho hjá félaginu en hann hefur óskað eftir því að vera seldur en félagið vill alls ekki selja. Eltingaleikur við hollenska varnarmanninn Virgil Van Dijk er engu nær því að klárast og Southampton vilja víst alls ekki eiga nein frekari viðskipti við Liverpool og vilja frekar selja til annara enskra liða. Nýjustu fréttir herma svo að samningaviðræður við Emre Can eru enn í gangi sem er áhyggjuefni þar sem hann á bara eitt ár eftir af samningi sínum. Það kæmi nú ekki á óvart ef Can hugsi sína stöðu vel hvað nýjan samning varðar ef félagið selur Coutinho og nær ekki að fjárfesta í nýjum leikmönnum í svipuðum gæðaflokki.
En þessi staða breytir ekki því að gríðarlega mikilvægur leikur er í kvöld eins og áður sagði. Þýska félagið Hoffenheim eru erfiðir heim að sækja og fyrri leikur liðanna í kvöld má hreinlega ekki tapast illa því þá verður verkefnið erfitt á Anfield eftir rúma viku. En ef það er eitthvað sem við stuðningsmenn þekkjum vel frá okkar ástkæra félagi þá er það einmitt sú staðreynd að ávallt skal fara fjallabaksleiðina að því að ná árangri. Það er einhvernveginn þannig að maður man varla eftir því að liðið hafi komið sér í þægilega stöðu þegar um útsláttarkeppni er að ræða. En hvað sem því líður þá veit Jürgen Klopp hvað þarf til þess að ná árangri og er ábyggilega búinn að hamra vel á því hvað þarf að gera í kvöld til ná ágætum úrslitum. Það vekur vissulega áhyggjur að Hoffenheim voru mjög sterkir í föstum leikatriðum á síðustu leiktíð og að þeir voru taplausir á heimavelli einnig.
En ef við lítum á björtu hliðarnar þá má segja að sóknarleikur Liverpool hlýtur að vekja einhverjar áhyggjur hjá þýska liðinu. Þeir Sadio Mané og Mohamed Salah búa yfir gríðarlegum hraða og fyrrum liðsmaður Hoffenheim, Roberto Firmino er virkilega öflugur sem fremsti maður. Þetta þríeyki sýndi það svo sannarlega gegn Watford á laugardaginn var. Takist varnar- og miðjumönnum að þétta sínar raðir almennilega er liðið vissulega ekki árennilegt. Hvað byrjunarliðið varðar finnst mér líklegt að fáar breytingar verði gerðar fyrir þennan leik, það er þó aldrei að vita nema að James Milner komi inn í vinstri bakvarðastöðuna en það kemur auðvitað í ljós.
Þýska deildin hefst um næstu helgi og því er ekki hægt að skoða gengi heimamanna að neinu ráði það sem af er en reyndar er liðið búið að leika einn leik í þýsku bikarkeppninni. Þar mætti liðið Rot-Weiß Erfurt á útivelli og sigruðu 0-1. Á undirbúningstímabilinu mættu þeir Bologna, Derby County og Standard Liege og unnust allir þessir leikir einnig.
Miðað við stöðuna heilt yfir þá er hún ekki mjög björt en það er nú oft einmitt þá sem okkar menn sýna sitt rétta andlit. Spáin að þessu sinni er sú að jafntefli náist í þessum mikilvæga leik. Lokatölur verða 2-2 og Liverpool fer því aftur heim á Anfield í ágætri stöðu.
Nýlegar fréttir
-
| Sf. Gutt
Hlýrra uppi í stúku! -
| Sf. Gutt
Dregið í Deildarbikarnum -
| Sf. Gutt
Áfram í Deildarbikarnum -
| Mummi
Miðasala á Liverpool – Ipswich og Liverpool – West Ham -
| Mummi
Seinkun á jólagjöf -
| Sf. Gutt
Af samningamálum Trent Alexander-Arnold -
| Sf. Gutt
Jafntefli manni færri! -
| Sf. Gutt
Enn nær Mohamed Salah merkum áfanga! -
| Sf. Gutt
Sögulegur sigur! -
| Sf. Gutt
Sigur á Spáni
Fréttageymslan