| Grétar Magnússon

Spáð í spilin

Seinni leikur Liverpool og Hoffenheim fer fram í kvöld.  Okkar menn eru í fínni stöðu eftir fyrri leikinn en það má lítið útaf bregða og menn þurfa að mæta tilbúnir í baráttuna.

Eftir fínan sigur á Crystal Palace um helgina með nokkuð breytt lið er búist við að Klopp breyti byrjunarliðinu aftur í það sem það var í fyrri leiknum.  Reyndar var innkoma Andy Robertson um helgina þrusugóð og það kæmi því ekki á óvart ef hann myndi halda sæti sínu í vinstri bakvarðastöðunni.  Dejan Lovren kemur svo líklega inn fyrir Ragnar Klavan í miðverðinum og Mohamed Salah hlýtur að byrja þennan leik, líklega kemur svo Trent Alexander-Arnold inn í hægri bakvarðar stöðuna í stað Joe Gomez.  Daniel Sturridge hafði frekar hægt um sig gegn Palace og því er ekki ólíklegt að Roberto Firmino fari uppá topp og Mané og Salah verði á köntunum eins og við þekkjum svo vel.

Hoffenheim hófu leik í þýsku deildinni um helgina og sigruðu Werder Bremen á heimavelli 1-0 en markið kom seint í leiknum.  Þeir hvíldu leikmenn eins og Kramaric, Gnabry og Wagner fyrir átökin á Anfield og ljóst er að þeir ætla sér svo sannarlega að gefa Liverpool alvöru leik.  Þjálfari þeirra hefur svo barið sínum mönnum baráttuanda í brjóst og sagt að sitt lið geti alveg skorað tvö mörk á Anfield.  Spurningin á móti er því bara sú hversu mörg Liverpool nær að skora !

Eins og áður sagði má lítið útaf bregða í þessum leik og ég hef áður nefnt það í upphitun hér að Liverpool eiga það til að gera sér erfitt fyrir þegar um útsláttarkeppni er að ræða.  Það kæmi því svo sannarlega ekki á óvart ef þýska liðið nær að skora fyrst í þessum leik.  En sóknarleikur Liverpool er það öflugur um þessar mundir að það kæmi verulega á óvart ef liðið nær ekki að skora.  Spáin að þessu sinni er sú að sömu tölur verði á töflunni að leik loknum, 2-1 sigur vinnst og við fögnum sæti í Meistaradeild Evrópu að leik loknum.

Fróðleikur:

- Sadio Mané er markahæstur leikmanna á tímabilinu með tvö mörk í þrem leikjum.

- Simon Mignolet spilar væntanlega sinn 25. Evrópuleik fyrir félagið.

- Emre Can spilar væntanlega sinn 20. Evrópuleik fyrir félagið.


TIL BAKA
Nýlegar fréttir
Fleiri fréttir
Fréttageymslan