| Sf. Gutt

Annað jafnteflið í röð á Anfield

Liverpool gerði sitt annað jafnteflið í röð í vikunni á Anfield Road þegar West Bromwich Albion om í heimsókn. Liðið hefur nú gert jafntefli í þremur síðustu deilarleikjum sínum á heimavelli. 

Enn var liði Liverpool breytt og mest kom á óvart að sjá Loris Karius í markinu í stað Simon Mignolet en Belginn var hálf stirður og varla leikfær. Nú voru þeir Philippe Coutinho, Roberto Firmino, Sadio Mané og Mohamed Salah allir saman í sókninni. En það virtist ekkert hafa að segja í að sóknin væri beittari. W.B.A. lék reyndar vörnina mjög vel og allir leikmenn liðsins börðust eins og ljón. Besta færi Liverpool í fyrri hálfleik fékk Roberto. Eftir gott spil komst hann í fínt færi en skot hans fór rétt framhjá fjárstönginni. Gestirnir ógnuðu lítt. 

Seinni hálfleikur var líkur þeim fyrri. Hvorki gekk né rak og það var ekki nægur kraftur í leikmönnum Liverpool. Þeir Alex Oxlade-Chamberlainat og Dominic Solanke komu inn þegar tæpur stundarfjórðungur var eftir. Dominic lék mikið að sér kveða og átta mínútum fyrir leikslok skoraði hann. Joe Gomez sendi fyrir frá hægri og Dominic stýrði boltanum í markið af stuttu færi. Leikmenn Liverpool fögnuðu nokkur andartök en svo flautaði dómarinn og gaf til kynna að Dominic hefði snert boltann með handleggnum. Var það rétt þegar betur var að gáð. Fyrst fór boltinn í brjóstkassann og svo strauk hann handlegginn. Litlu síðar lék Dominic framhjá varnarmanni og svo markmanninum en skoti hans var bjargað á marklínu. Þar við sat og Liverpool mátti sætta sig við eitt stig sem var alls ekki nógu gott gegn einu af botnliðunum. 

Maður leiksins: Dominic Solanke. Þó ungliðinn spilaði stutt þá var hann kraftmeiri en margir aðrir og var óheppinn að skora ekki þegar skoti hans var bjargað á línu.

Jürgen Klopp:
Við vorum ekki upp á okkar besta í kvöld. Mér fannst samt að við hefðum fengið nógu mörg færi til að vinna. Við færðum okkur þau ekki í nyt og verðum að sætta okkur við úrslitin.

Fróðleikur

- Liverpool hefur nú gert jafntefli í þremur síðustu deildarleikjum sínum á Anfield Road. 

- Þetta var aðeins í fimmta sinn sem Liverpool skorar ekki á Anfield í deildinni á valdatíð  Jürgen Klopp.

- Liverpool hefur aðeins fengið á sig þrjú mörk á heimavelli í deildinni á þessari leiktíð. 

Hér eru myndir úr leiknum af Liverpoolfc.com.

Hér er viðtal sem tekið var við  Jürgen Klopp eftir leikinn.    



TIL BAKA
Nýlegar fréttir
Fleiri fréttir
Fréttageymslan