| Heimir Eyvindarson

Úr leik í FA bikarnum


Liverpool er úr leik í FA bikarnum eftir háðuglegt tap gegn WBA á Anfield í gærkvöldi. Þriðja árið í röð föllum við úr leik í 4. umferð fyrir liði sem byrjar á W. 

Ofboðsleg vandræði sem það virðist annars hafa í för með sér að skella Manchester City. Eftir 4-3 sigurinn á dögunum hafa tvö neðstu lið deildarinnar skellt okkur, annað í deild og hitt í bikar. Enn eitt botnliðið bíður okkar svo strax á þriðjudaginn og það er ekki hægt að segja að maður hlakki til þeirrar viðureignar.

Eftir sigurinn gegn City á gamlársdag fyrir rúmu ári síðan fylgdi mesta þurrkatímabil Liverpool undir stjórn Klopp í kjölfarið. Vonandi verður ekki sami viðbjóðurinn upp á teningnum núna, en til að afstýra því verða menn aldeilis að girða sig í brók. 

Klopp stillti upp sterku liði í gær, enda hefur hann fengið harða gagnrýni undangengin 2 ár fyrir að sýna FA bikarnum vanvirðingu með því að stiila upp hálfgerðum varaliðum - og farið flatt á því. Nú átti greinilega að passa að sagan endurtæki sig ekki.

En hvað er sterkasta lið Liverpool í dag? Það er ekki gott að átta sig á því eftir tvo síðustu leiki. Ég hef svosem lítið út á liðsval Klopp að segja, það er ekki mikið til af skapandi miðjuleikmönnum eftir að Coutinho fór og Lallana meiddist, en hvort að miðjan á að vera jafn ævintýralega lin og hún var í gær skal ég ekki segja.

Emre Can var fyrirliði í gær og hann hefur oft verið slappur, en Guð minn almáttugur hvað maðurinn var glataður í gær. Ég verð svo að fá að setja út á Klopp fyrir að taka Oxlade-Chamberlain útaf fyrstan, hann var eini miðjumaðurinn sem var þó að reyna að búa eitthvað til.

Hitt atriðið sem ég verð að gagnrýna Klopp fyrir er þetta markmannsrugl. Ég get vel skilið að hann ætli að nota tímann fram á vorið til að sjá í eitt skipti fyrir öll hvort Karius er tilbúinn, það er hvort eð er löngu fullreynt með Mignolet, en afhverju hann setur Belgann þá ekki bara alveg út í kuldann skil ég ekki. Það voru tveir augljósir kostir í stöðunni í gær, annaðhvort að halda áfram að koma Karius í gagnið eða þá að gefa Ward sjénsinn. Afhverju í ósköpunum að gefa Mignolet sjénsinn? Það er búið að setja hann af.

En nóg af tuði, í bili a.m.k. Liverpool byrjaði leikinn af miklum krafti og strax eftir 6 mínútna leik var Firmino búinn að skora gullfallegt mark. Salah hljóp klaufalegan Evans uppi og hirti af honum boltann og skaut að marki í góðu færi. Foster varði vel en Firmino vippaði frákastinu glæsilega í fjærstöngina og inn. 
Liverpool var enn að fagna þegar Jay Rodriguez var allt í einu kominn upp á vítateigshornið hinum megin og smellti boltanum í samskeytin. Óverjandi fyrir Mignolet, en vörnin hefði mátt vera meira á tánum. Hvað segirðu? Staðan 1-1 eftir 7 mínútur. 

Fjórum mínútum síðar var WBA komið yfir. Aftur var Jay Rodriguez á ferðinni og aftur var varnarvinna Liverpool slök. 

Á 19. mínútu skoraði WBA mark sem dómarinn dæmdi af eftir að hafa ráðfært sig við myndbandsdómarann sem notaður er í FA cup. Á 26. mínútu kom videodómarinn Liverpool aftur til bjargar þegar við fengum víti eftir peysutog á Mo Salah. 
   
Firmino fór á punktinn en smellti boltanum í slána, ég nenni ekki að taka saman tölfræði um víti hjá Firmino en hún er ekkert sérstök. 

Undir lok fyrri hálfleiksins gerði Matip svo ansi merkilegt sjálfsmark, með hjálp Dawson. Boltinn kom rúllandi inn í miðjan markteig fram hjá illa áttuðum Mignolet og í gegnum alla vörnina og þar ætlaði Dawson að pota honum inn. Matip hélt nú ekki og ákvað að hreinsa með hælnum, eins og maður gerir??. Það vildi ekki betur til en boltinn lenti í netinu. Staðan 1-3 í hálfleik. Þvílík tilþrif hjá Matip.  

Ings, Milner og Henderson komu inn á 65. mínútu og við það skánaði leikur Liverpool aðeins. Milner komst í gott færi á 75. mín. og þremur mínútum síðar minnkaði Salah muninn eftir assist frá Firmino. Staðan 2-3 og smá von ennþá.

Liverpool pressaði stíft undir lokin, en Foster og félagar héldu út og fögnuðu sigri. Liverpool úr leik í fjórðu umferð FA bikarsins þriðja árið í röð. 

Liverpool: Mignolet, TAA, Matip, Van Dijk, Moreno, Can (Henderson á 65. mín.), Wijnaldum, Oxlade-Chamberlain (Milner á 65. mín.), Firmino, Mané (Ings á 65. mín.), Salah. Ónotaðir varamenn: Ward, Lovren, Gomez, Solanke.

Maður leiksins: Ég hafði það ekki í mér að velja mann leiksins eftir Swansea tapið og ég get eiginlega ekki fundið neina glætu eftir þennan leik, en það verður þó ekki af Firmino tekið að hann skoraði laglegt mark og lagði upp annað. Sömuleiðis reyndi hann að berjast, þannig að hann fær nafnbótina að þessu sinni. Hann og Salah voru einu mennirnir sem fá ekki algjöra falleinkunn. 

Jürgen Klopp: ,,Við vorum sjálfum okkur verstir. Þetta var ótrúlegt, hvernig er hægt að fá á sig mark eins og annað markið? Það var mjög undarleg varnarvinna, Wow!"

YNWA!
 
TIL BAKA
Nýlegar fréttir
Fleiri fréttir
Fréttageymslan