| Heimir Eyvindarson

Spáð í spilin

Liverpool tekur á móti Crystal Palace í hádeginu á laugardaginn. Fyrrum stjóri Liverpool, Roy Hodgson stýrir Palace og þrír fyrrum leikmenn Liverpool gætu komið við sögu. 
Roy Hodgsons stjórnaði Liverpool í 31 leik frá júlí 2010 til janúar 2011. Enginn stjóri hefur stoppað jafn stutt hjá Liverpool og enginn stuðningsmaður Liverpool saknar hans. Þótt hann sé auðvitað vænsti kall.

Þrír fyrrum leikmenn Liverpool, Christian Benteke, Mamadou Sakho og Martin Kelly eru allir á mála hjá Crystal Palace. Þeir hafa allir verið í hálfgerðu basli í vetur, Kelly komst ekkert í liðið fram í desember en hefur meira og minna verið fastamaður síðan. Sakho hefur verið mikið frá vegna meiðsla, en var í byrjunarliðinu í síðasta leik og stóð sig vel. Benteke hefur spilað mest af þremenningunum en hann hefur ekki verið á skotskónum, hefur einungis skorað 2 mörk í 25 leikjum. Hversu týpískt væri það að hann fyndi taktinn á laugardaginn?  

Palace er í bullandi fallbaráttu, er í 16. sæti með 30 stig, tveimur stigum frá fallsæti. Frammistaða liðsins að undanförnu hefur þó gefið stuðningsmönnum liðsins von því liðið hefur leikið nokkuð vel í síðustu fjórum umferðum, en verið óheppið - bæði með andstæðinga og úrslit. 

Fyrir fjórum umferðum mætti Palace Tottenham á Selhurst Park. Harry Kane tryggði Tottenham 1-0 sigur þegar tvær mínútur voru til leiksloka. Grátlegt fyrir bæði Palace og okkur, en reyndar voru yfirburðir Tottenham í leiknum töluvert meiri en eins marks sigur segir til um.

Í næstu umferð fylgdust svo margir stuðningsmenn Liverpool grannt með Woy og co þegar liðið var komið með 2-0 forystu gegn Manchester United. United jafnaði í seinni hálfleik og allt stefndi í skiptan hlut þegar Nemanja Matic skoraði magnað sigurmark í uppbótartíma. Hrikalega svekkjandi - fyrir mannkynið. 

Erfitt prógramm Palace hélt áfram og næst á dagskrá var Chelsea á Stamford Bridge. Þar tapaði Palace þriðja leiknum í röð gegn stórliði með minnsta mögulega mun. 

Í síðustu umferð fyrir landsleikjahlé voru loks jafningjar á dagskrá, þegar Palace mætti Huddersfield í sex stiga leik í fallslagnum. Þann leik vann Palace býsna örugglega. 2-0 urðu lokatölurnar og sigurinn síst of lítill. 

Crystal Palace hefur semsagt þrátt fyrir slakt gengi í vetur alla burði til að gera stóru liðunum skráveifu, þetta þekkjum við mæta vel. Það hefur ekki hjálpað Hodgson að liðið hefur verið óheppið með meiðsli, mér sýnist að það séu 9 leikmenn á sjúkralistanum núna, þ.á.m. menn eins og Scott Dann, Jason Puncheon, Conor Wickham og Bakary Sako. Þá meiddist Wilfried Zaha, sem er líklega hættulegasti leikmaður Palace, í landsleikjahléinu, en hann verður þó líklega klár á laugardaginn. 

En þá að Liverpool. Meiðslastaðan er óvenju góð og það er gott skrið á liðinu. Joe Gomez kom meiddur heim úr landsleikjahléinu, en verður ekki lengi frá. Robertson lenti í ansi harðri tæklingu í landsleik með Skotum og var tekinn útaf, en hann á að vera leikfær. Emre Can er hugsanlega ennþá tæpur, en aðrir eru að ég held í fínu standi. Stóru fréttirnar í meiðslapakkanum eru að Clyne er að koma til baka, sem er afskaplega ánægjulegt. 

Ég var svo hundheppinn að vera á Anfield í síðasta leik þegar Salah valtaði yfir Watford, það var hrein unun að fylgjast með liðinu í kuldanum og snjókomunni og svoleiðis frammistaða fær mann til að halda að "litlu liðin" eigi bara ekki sjéns. En við þekkjum söguna of vel til að vera kokhraust þegar lið í fallbaráttu kemur í heimsókn á Anfield, maður má víst aldrei tapa sér í bjartsýninni. 

Það sem maður ætti kannski helst að hafa áhyggjur af er að menn verði komnir um of með hugann við leikina gegn City í Meistaradeildinni, en mér hefur samt fundist Klopp ganga ágætlega að mótivera menn við slíkar aðstæður. Enda er samkeppnin um stöður í liðinu óvenju mikil í vetur. 

Það er engin leið að segja til um hvernig Klopp stillir upp liðinu, nema það að Karius verður örugglega í markinu. Líkleg varnarlína er TAA-Matip, Van Dijk, Moreno, að því gefnu að Robertson sé enn að jafna sig. Ég gæti trúað að Mané yrði hvíldur, hann spilaði næstum heilan landsleik fyrir Senegal í vikunni og kemur ekki til baka fyrr en í dag. Salah og Firmino koma reyndar heldur ekki til baka fyrr en í dag, en þeir voru báðir hvíldir í sínum landsleikjum í vikunni þannig að þeir eiga að vera í toppstandi.

Hádegisleikur á laugardegi er einhvernveginn ekkert voðalega hressandi alltaf og ég er aukinheldur pínu hræddur um að sumir leikmenn séu komnir með hausinn hálfa leið í Meistaradeildarslaginn við City - rétt eins og við stuðningsmennirnir. Það er samt þannig að það er einfaldlega ekki hægt að bjóða upp á að Woy taki stig á Anfield, ekki tók hann mikið af stigum þar þegar hann stjórnaði Liverpool. Svo mikið er víst. 

Ég spái 2-1 sigri eftir bölvað basl. Firmino og Milner skora. 

YNWA!  
  
TIL BAKA
Nýlegar fréttir
Fleiri fréttir
Fréttageymslan