| Sf. Gutt

Ennþá í okkar höndum!


Tap Liverpool á Stamford Bridge í gær þýðir að bæði Chelsea og Tottenham Hotspur geta skákað Liverpool í baráttunni um Meistaradeildarsæti. Liverpool er ennþá í þriðja sæti en á bara einn leik eftir. Tottenham er stigi á eftir Liverpool og Chelsea þremur. Lundúnaliðin eiga tvo leiki eftir en Liverpool einn. En Liverpool heldur einu af fjórum efstu sætunum með sigri á Brighton and Hove Albion á Anfield Road í síðustu umferðinni. 

Dejan Lovren segir að Liverpool hafi ennþá allt í sínum höndum. Hann líkir stöðunni núna við þá sem var uppi fyrir síðustu umferð deildarinnar fyrir einu ári. Þá hafði Liverpool örlög sín í eigin höndum og náði settu marki með 3:0 sigri á Middlesbrough.

,,Staðan er svipuð. Við vitum hvað bíður okkar. Það er ekki vafi á því að verkefnið verður erfitt. Brighton sýndi í síðasta leik á móti Manchester United að þeir geta unnið stórliðin. En ég hef fulla trú á því að við getum lokið verkefninu."


Tapið fyrir Chelsea kom á versta tíma en Dejan sagði að Liverpool hefði spilað býsna vel þrátt fyrir að hafa tapað.

,,Ef satt skal segja þá spiluðum við býsna vel. Við spiluðum eins og við vildum og áttum von á að gera. Þeir vörðust aftarlega og það var erfitt að eiga við það. Við fengum nokkur færi en náðum ekki að skora. Þeir náðu þessum eina skalla sem reyndist eina mark leiksins. Venjulega hefði leikur okkar dugað til að ná stigi en því miður náðum við ekki að nýta færin okkar sem er óvenjulegt."

,,En þetta er allt í okkar höndum. Næsti leikur verður án nokkurs vafa erfiður en ég hef trú á að við getum náð að vinna hann."

Allt kemur í ljós næsta sunnudag þegar Liverpool mætir Brighton á Anfield. Fari allt á versta veg verður enn hægt að ná sæti í Meistaradeildinni með því að vinna hana í Kiev. En það er ekki eftir neinu að bíða með að tryggja sætið!




TIL BAKA
Nýlegar fréttir
Fleiri fréttir
Fréttageymslan