| Sf. Gutt

Joe Gomez úr leik


Enn bætist við meiðslalista Liverpool. Í dag var staðfest að Joe Gomez spili ekki meira með á leiktíðinni. Hann varð fyrir ökklameiðslum í mars en kom til baka og spilaði á móti West Bromwich Albion og Stoke City. Hann náði sér ekki á strik í leikjunum og trúlega hafa meiðslin verið að angra hann. Joe spilaði 31 leik á leiktíðinni. 

Joe sagðist í dag vera miður sín út af því að missa af því sem eftir er af leiktíðinni. Hann sagði að aðgerð sem hann fór í á ökklanum hefði gengið að óskum. Eins sagðist hann ætla að einbeita sér að því að styðja liðið sitt í tveimur stærstu leikjunum á leiktíðinni!


Það er ekki nóg með að Joe Gomez missi af tveimur síðustu leikjum Liverpool því hann getur heldur ekki tekið þátt í Heimsmeistarakeppninni í Rússlandi. Joe lék fyrstu landsleiki sína á leiktíðinni og líklegt var talið að hann ætti góða möguleika á að komast í enska landsliðshópinn. Svo verður ekki en vonast er til að Joe nái að vera tilbúinn til æfinga þegar undirbúningstímabilið hefst í sumar. 



TIL BAKA
Nýlegar fréttir
Fleiri fréttir
Fréttageymslan