| Grétar Magnússon

Spáð í spilin

Síðasti leikur liðsins fyrir næsta landsleikjahlé er stærsti leikur 8. umferðar þegar Manchester City koma í heimsókn á Anfield. Leikurinn hefst kl. 15:30 sunnudaginn 7. október.

Þeir leikir sem liðið hefur spilað síðan síðasta landsleikjaléi lauk hafa verið hver öðrum stærri og margir höfðu einmitt auga á þeim síðasta í þessari hrinu. Meistarar Manchester City mæta til leiks, eru ósigraðir í deildinni eins og okkar menn og tróna á toppnum með betri markatölu. Tímabilið hefur verið ansi svipað hjá liðunum til þessa, bæði lið eru ósigruð í deildinni og hafa gert eitt jafntefli en unnið sex leiki. Liðin hafa einnig tapað einum leik (af þessum tveimur sem liðin hafa spilað) í Meistaradeildinni en Manchester City eru þó komnir áfram í deildarbikarnum enda fengu þeir mun léttari leik en Liverpool.

Það er þó vert að benda á að City menn hafa fengið léttara prógram í deildinni til þessa ef hægt er að segja svo. Enginn leikur er auðvitað léttur í þessari deild eins og við höfum margoft séð en þetta eru mótherjar City til þessa: Arsenal (ú), Huddersfield (h), Wolves (ú), Newcastle (h), Fulham (h), Cardiff (ú), Brighton (h). Þarna má kannski segja að eini erfiði leikurinn hafi verið Arsenal á útivelli en sá leikur var í fyrstu umferð, Arsenal með nýjan stjóra og byrja jafnan deildina illa. Það er því kannski ekkert skrýtið að City séu með betri markatölu en okkar menn en þeir hafa unnið tvo stórsigra til þessa (6-1 á móti Huddersfield og 0-5 á móti Cardiff). Á móti kemur hefur Liverpool mætt Tottenham og Chelsea á útivelli en þessi lið verða klárlega í kringum toppbaráttuna í vetur og svo er aldrei auðvelt að fara á útivelli eins og Selhurst Park og King Power leikvanginn til að mæta Crystal Palace og Leicester.

En það er endalaust hægt að velta þessum hlutum fyrir sér og næsta víst er að Jürgen Klopp er ekki að horfa í baksýnisspegilinn núna. Eftir hroðalega frammistöðu gegn Napoli á miðvikudagskvöldið vill hann klárlega sjá sína menn mæta brjálaða til leiks og taka öll stigin gegn City. Mörgum fannst Klopp stilla upp of sterku liði gegn Napoli en því verður ekki breytt og ég býst við sömu uppstillingu á sunnudaginn. Eina sem gæti breyst er að Jordan Henderson komi inn fyrir Naby Keita sem fór meiddur af velli snemma leiks á Ítalíu. Klopp sagði á blaðamannafundi fyrr í dag að hann vissi ekki nákvæmlega stöðuna á Keita en ástand hans verður skoðað og ákvörðun tekin í framhaldinu. Margir velta því fyrir sér hvort að leikmenn eins og Daniel Sturridge og Xerdan Shaqiri eigi ekki skilið að fá tækifæri til að byrja eftir góðar frammistöður undanfarið. Þeir Sadio Mané, Roberto Firmino og Mohamed Salah hafa nú ekki beint verið á skotskónum í síðustu leikjum og einhver þreyta virðist vera í þeim. En ég held að Klopp setji áfram sitt traust á þessa þrjá og ef það gengur illa mætti hann þá prófa einu sinni að skipta Sturridge eða Shaqiri nógu snemma inná til að breyta leiknum. Adam Lallana er byrjaður að æfa á fullu með liðinu og Alex Oxlade-Chamberlain er sem fyrr á meiðslalistanum.

City menn glíma við fleiri meiðsli en okkar menn. Fréttir herma að Ilkay Gündogan og Benjamin Mendy séu nýjustu nöfnin á meiðslalistanum. City eiga haug af miðjumönnum sem geta leyst Gündogan af en hann hefur þó verið að spila frábærlega uppá síðkastið og þeir gætu saknað hans í leiknum nái hann ekki að jafna sig í tæka tíð. Mendy var svo ekki kallaður í landsliðshóp Frakka fyrr í vikunni sem bendir til þess að hann geti ekki náð leiknum um helgina. Aðrir leikmenn á meiðslalistanum eru Fabian Delph, Claudio Bravo, Phillipe Sandler og Eliaquim Mangala. Kevin De Bruyne sem hefur verið meiddur gæti, samkvæmt nýjustu fréttum, verið klár í þennan leik en við skulum vona að hann komi aðeins of fljótt fyrir þennan frábæra leikmann.  Meiðsli Delph og Mendy koma sér illa fyrir Pep Guardiola því vinstri bakvarðastaðan er þunnskipuð með þessa tvo meidda og líklega verður Zinchenko í bakvarðastöðunni á sunnudaginn, það gæti þó verið að Aymeric Laporte spili sem vinstri bakvörður.



Það muna allir eftir leikjum liðanna á síðasta tímabili og óþarfi að rifja þá upp ítarlega hér en það er auðvitað vert að minnast á að City tapaði sínum fyrsta leik í deildinni á Anfield þann 14. janúar, lokatölur voru 4-3. Vonandi gerist það sama núna að þeirra fyrsti tapleikur komi á Anfield. Síðasti sigurleikur City á Anfield í deildinni kom í maí árið 2003 þegar Nicolas Anelka skoraði bæði mörk gestanna í 1-2 sigri. Síðan þá hafa liðin spilað 15 deildarleiki á Anfield, Liverpool sigrað 11 og 4 endað með jafntefli. Það styttist því kannski í að City nái sigurleik á Anfield á ný en það má alveg bíða aðeins lengur með það. Liverpool hefur ekki unnið í síðustu þrem leikjum (1-2 tap gegn Chelsea í deildarbikar, 1-1 jafntefli við Chelsea í deild og 1-0 tap gegn Napoli í Meistaradeild) og það er augljóslega kominn tími á sigur. Jürgen Klopp hefur oftar en ekki tekist að láta leikmenn sína mæta vel stemmda til leiks eftir að hafa spilað illa og þar sem frammistaðan hefði varla getað verið verri á miðvikudaginn var þá býst ég við því að allir verði meira en klárir þegar dómarinn flautar til leiks.

Spáin að þessu sinni er sú að markaleikur verður í boði á Anfield eins og flestir búast við. Liverpool sigrar leikinn 3-2. Mikil spenna verður undir lokin þegar City menn minnka muninn en Liverpool nær að halda forystunni til loka og knýja fram gríðarlega mikilvægan sigur.

Fróðleikur:

- Sadio Mané og Daniel Sturridge eru markahæstir leikmanna Liverpool það sem af er með fjögur mörk hvor á tímabilinu.

- Mörkin hjá Mané hafa öll komið í deildinni og hann er því markahæstur þar, Mohamed Salah kemur næstur með þrjú mörk.

- Joe Gomez hefur spilað 50 leiki í öllum keppnum fyrir félagið.

- Andy Robertson spilar að öllum líkindum sinn 30. deildarleik fyrir félagið og sinn 40. leik í öllum keppnum.

- Sergio Aguero er markahæstur City manna á tímabilinu með átta mörk í öllum keppnum, þar af fimm í deildinni.


TIL BAKA
Nýlegar fréttir
Fleiri fréttir
Fréttageymslan