| Grétar Magnússon

Torsóttur sigur

Liverpool vann 0-1 sigur á Huddersfield í lokaleik úrvalsdeildarinnar í dag. Mohamed Salah skoraði eina mark leiksins í fyrri hálfleik.

Eins og við var að búast var byrjunarlið Jürgen Klopp töluvert breytt frá leikjunum fyrir landsleikjahléið. Vörnin var þó skipuð sömu leikmönnum og í síðasta leik gegn Mancester City þar sem Joe Gomez var í hægri bakverði. Á miðjunni voru þeir Jordan Henderson, James Milner sem hafði náð ótrúlega góðum bata eftir meiðsli aftan í læri og Adam Lallana byrjaði loks á ný. Fremstu þrír voru Xerdan Shaqiri, Mohamed Salah og Daniel Sturridge. Á bekknum sátu þeir Mignolet, Matip, Alexander-Arnold, Fabinho, Wijnaldum, Firmino og Origi.

Leikurinn var nánast frá upphafi til enda frekar tíðindalítill en okkar menn voru oftar en ekki hálf værukærir í sóknarleiknum. Það var þó sem betur fer ekki raunin á 24. mínútu þegar Gomez sendi langan bolta fram á Shaqiri sem sneri í átt að marki og sendi innfyrir á teiginn þar sem Salah tók gott hlaup. Salah hikaði ekki og skaut hnitmiðuðu skoti neðst í fjærhornið og staðan orði 0-1. Salah þar með kominn á blað eftir að hafa verið fjarverandi í markaskorun í síðustu fjórum leikjum.

Eftir þetta vöknuðu heimamenn og skömmu síðar skaut fyrirliði þeirra, Hogg, í stöngina þegar hann þrumaði að marki fyrir utan teiginn. Philipp Billing átti svo mjög gott skot beint úr aukaspyrnu af löngu færi sem fór ekki svo langt framhjá. Pressan jókst og meðal annars vildu Huddersfield menn fá vítaspyrnu þegar boltinn skoppaði létt í hendina á Milner inní teignum en það hefði verið strangur dómur, boltinn skoppaði frá lærinu á honum og hann gat lítið í því gert. Mark var svo dæmt af heimamönnum vegna rangstöðu sem mörgum fannst tæpur dómur en sennilega var hann réttur. Staðan hélst því 0-1 þegar dómarinn flautaði til hálfleiks.


Klopp þurfti að gera breytingu í hálfleik þegar Jordan Henderson kvartaði undan eymslum aftaní læri og Gini Wijnaldum kom inná í hans stað. Seinni hálfleikur var ekki ósvipaður þeim fyrri eins og áður sagði, um miðjan hálfleikinn hefði Salah átt að gera út um leikinn þegar hann fékk langa sendingu innfyrir og þrumaði boltanum rétt framhjá. Leikur gestanna einkenndist af slæmum ákvarðanatökum á síðasta þriðjungi vallarins þar sem leikmenn gerðu sig ítrekað seka um að eiga slaka sendingu sem hefði getað skapað færi. Eða þá að þeir tóku hreinlega ranga ákvörðun og sendu boltann ekki á réttum tíma. Þetta var afskaplega pirrandi til lengdar og heimamenn vissu sem var að þeir þyrftu bara eitt færi til að jafna. Sem betur fer náðu þeir ekki að gera það en besta færi þeirra fékk Mounie þegar van Dijk og Lovren misstu báðir af boltanum í teignum en skot sóknarmannsins var hátt yfir markið. Leikurinn fjaraði hægt og rólega út og við stuðningsmenn gátum andað léttar þegar lokaflaut dómarans gall.

Huddersfield: Lössl, M Jorgensen, Schindler, Löwe, Hadergonaj (Mbenza, 69. mín.), Mooy, Hogg (Diakhaby 90+2. mín.), Billing (Mounie, 70. mín.), Durm, Pritchard, Depoitre. Ónotaðir varamenn: Stankovic, Bacuna, Hamer, van La Parra.

Liverpool: Alisson, Gomez, Lovren, van Dijk, Robertson, Henderson (Wijnaldum, 45. mín.), Milner (Firmino, 77. mín.), Lallana (Fabinho, 69. mín.), Shaqiri, Sturridge, Salah. Ónotaðir varamenn: Mignolet, Matip, Alexander-Arnold, Origi.

Mark Liverpool: Mohamed Salah, 24. mín.

Gul spjöld: Daniel Sturridge og Adam Lallana.

Áhorfendur á Kirklees Stadium: 24.263.

Maður leiksins: Mohamed Salah spilaði kannski ekki manna best að þessu sinni en hann komst á blað á ný sem var mikilvægt. Hann er því maður leiksins að þessu sinni og vonandi heldur hann áfram að bæta við mörkum í næstu leikjum.

Jürgen Klopp: ,,Þetta er kannski í fyrsta sinn í mínu lífi sem við erum að vinna leiki ósannfærandi. Ég viðurkenni að stundum vill ég vinna á stórkostlegan hátt en ég sætti mig við þessi úrslit og hef fullan skilning á því af hverju leikurinn spilaðist svona. Ég lít yfir búningsherbergið núna og gerði það einnig fyrir leik, þegar menn koma til baka úr landsleikjahléi og þurfa að venjast tímamismuninum og fullt af öðrum hlutum sem fólk ekki sér. Þess vegna var ég svona æstur á hliðarlínunni í leiknum, vegna þess að þó svo að þú sért þreyttur sem leikmaður þá þarftu alltaf að óttast stjórann þinn."

Fróðleikur:

- Mohamed Salah skoraði sitt 50. mark í enskri knattspyrnu, 48 hafa komið fyrir Liverpool og tvö fyrir Chelsea.

- Þessum áfanga náði hann í leik númer 83 sem verður að teljast ansi gott.

- Þetta var fjórða mark Salah á leiktíðinni og hafa þau öll komið í deildinni.

- Alisson Becker hélt markinu hreinu í sjötta sinn á leiktíðinni í deildinni. Aðeins Petr Cech hefur náð betri árangri í sínum fyrstu níu leikjum í deildinni en hann hélt markinu hreinu sjö sinnum.

- Liverpool er í öðru sæti deildarinnar eftir leiki dagsins með 23 stig. Jafnmörg og Manchester City en mun lakari markatölu.


TIL BAKA
Nýlegar fréttir
Fleiri fréttir
Fréttageymslan