| Sf. Gutt

Þrenna frá Mohamed kom Liverpool á toppinn






Mohamed Salah gerði sér lítið fyrir og skoraði þrennu þegar Liverpool vann stórsigur 0:4 á útivelli á Bournemouth um hádegisbilið í dag. Liverpool situr nú í efsta sæti deildarinnar. 

Líkt og fyrir leikinn við Burnley þá breytti Jürgen Klopp liði sínu nokkuð. Joe Gomez er auðvitað kominn á meiðslalistann og verður þar næstu vikurnar. Joël Matip kom inn í vörnina og þar var líka að finna James Milner í stórum tímamótaleik. hann átti stórleik á miðjunni í síðasta leik og en nú var hann kominn í stöðu hægri bakvarðar! Þeir Mohamed Salah og Roberto Firmino voru í byrjunarliðinu á nýjan leik. Fleiri breytingar og tilfæringar voru gerðar.

Bournemouth hefur verið í efri hluta deildarinnar og leikið stórvel á leiktíðinni. Segja mátti fyrir leikinn að liðið væri í baráttu um sæti í Meistaradeildinni. Að minnsta kosti ekki langt frá þeirri baráttu. Liverpool var frá fyrstu mínútu sterkara liðið og liðið hélt boltanum mjög vel. Það var þó fátt um færi og reyndar voru það heimamenn sem fengu það fyrsta. Á 23. mínútu komst David Brooks í færi í teignum en Allisson Becker varði í horn. Nokkrum andartökum seinna komst Liverpool yfir. Roberto Firmino átti fast skot utan vítateigs sem Asmir Begovic varði en hann hélt ekki boltanum sem hrökk fyrir fætur Mohamed Salah sem skilaði frákastinu af öryggi í markið við markteignn. Egyptinn vel vakandi og Liverpool komið yfir. Markið hefði þó ekki átt að standa því Mohamed var rangstæður þegar Roberto skaut en markið skildi liðin í leikhléi. 

Liverpool byrjaði síðari hálfleikinn eins og best varð á kosið því eftir þrjár mínútur lá boltann aftur í marki Bournemouth. Roberto vann boltann af mótherja á miðlínunni og sendi hann samstundis fram á Mohamed Salah. Varnarmaður reyndi að fella hann en Mohamed stóð atlöguna af sér, lék inn í vítateiginn vinstra megin og skoraði svo með nákvæmu skoti neðst í fjærhornið. Asmir átti ekki möguleika í markinu og staðan orðin vænleg. Á 68. mínútu voru svo úrslitin ráðin. Andrew Robertson fékk boltann vinstra megin og sendi fyrir. Steve Cook hugðist hreinsa frá en það tókst ekki betur en svo að hann stýrði boltanum í eigið mark og það með hælnum!

Sigurinn var í höfn en Mohamed Salah gulltryggði toppsætið á 77. mínútu með frábæru marki. Varamaðurinn Adam Lallana sendi háa sendingu fram völlinn. Mohamed vann kapphlaup við varnarmann og lék á Asmir í markinu. Færið sem hann var þá kominn í var heldur þröngt þannig að hann lék til baka og aftur lék hann á Asmir. Hann sýndi svo mikla yfirvegun þegar hann sendi boltann framhjá varnarmanni á línunni. Algjörlega snilldarlega gert hjá Egyptanum!

Stórsigur Liverpool og fullt hús úr tveimur erfiðum útileikjum núna í vikunni. Mchester City tapaði í London fyrir Chelsea seinni partinn þannig að Liverpool heldur efsta sætinu eftir þessa helgi. Það gerist ekki betra en að vera í efsta sæti. Erfiðir leikir bíða en síðustu leikir hafa líka verið það og þeir hafa farið eins og best hefur verið á kosið!

Maður leiksins: Mohamed Salah. Egyptinn var frábær eins og reyndar oft á leiktíðinni þó sumum hafi hann ekki spilað jafn vel og á þeirri síðustu. Hann afgreiddi mörkin sín með glæsibrag og sýndi að hann er í hæsta gæðaflokki hafi einhver efast um það. 

Jürgen Klopp: Það fer ekki á milli mála að allir vita hversu gott lið Bournemouth er. Við urðum að halda boltanum og vinna hann eins fljótt aftur og kostur væri á. Við náðum að gera þetta býsna oft en ekki alltaf því þeir áttu auðvitað sín tækifæri.

Gul spjöld: Nathan Aké og Jefferson Lerma

Mörk Liverpool: Mohamed Salah (24., 48. og 77. mínútu) og Steve Cook, sm, (68. mín.).

Gult spjald: Fabinho Tavarez.

Áhorfendur á Dean Court: 10.752.

Fróðleikur

- Liverpool er í efsta sæti deildarinnar.  

- Mohamed Salah er nú búinn að skora 12 mörk á leiktíðinni. 

- Þetta var önnur þrenna hans fyrir Liverpool. 

- James Milner lék sinn 500. deildarleik á ferlinum. 

- Af þessum 500 hefur James spilað 111 fyrir Liverpool.

- Alisson Becker hefur ekki tapað í sínum fyrstu 16 deildarleikjum með Liverpool. Það er félagsmet. 

- Liverpool er með 42 stig í 16 leikjum sem er besta byrjun liðsins í efstu deild.  

Hér má sjá viðtal sem tekið var við Jürgen Klopp eftir leikinn. 


TIL BAKA
Nýlegar fréttir
Fleiri fréttir
Fréttageymslan