| Heimir Eyvindarson

Spáð í spilin


Liverpool leikur hreinan úrslitaleik um áframhaldandi þátttöku í Meistaradeild Evrópu annað kvöld, þegar Napoli mætir á Anfield. Ekkert annað en sigur dugar og helst þarf hann að vera tveggja marka. 

Liverpool dugar að vísu 1-0 sigur, en ef Napoli tekur upp á þeim óskunda að skora mark þá verðum við að vinna með tveggja marka mun. Það er reyndar þannig að ef PSG nær ekki að vinna Rauðu Stjörnuna þá nægir okkur eins marks sigur, óháð fjölda marka í leiknum. Það hefur oft verið einfaldara lífið kæru félagar. En nú er ekkert annað í boði en að sýna allar sparihliðarnar annað kvöld. 

Það er deginum ljósara að það verður ekki létt verk að leggja Napoli að velli, hvað þá að halda hreinu eða sigra liðið með tveimur mörkum eða meira. Ítalirnir eru mjög þéttir og þolinmóðir og beita eitruðum skyndisóknum. 
Napoli er vissulega ekki komið á þann stað sem Diego Maradona kom liðinu á fyrir löngu síðan, en liðið er samt sem áður þrælsterkt og hefur verið á miklu skriði undanfarið. Liðið hefur ekki tapað leik síðan í lok september og er í öðru sæti ítölsku deildarinnar á eftir Juventus. Það er kunnugleg staða, því síðustu þrjú tímabil hefur liðið einmitt tvisvar endað í þeim sporum. 

Carlo Ancelotti tók við stjórastöðunni af Maurizio Sarri í sumar og hann er enginn aukvisi þegar kemur að Meistaradeildinni, eins og við þekkjum. Hann hefur unnið Meistaradeildina þrisvar og hefur þar að auki gengið óþægilega vel að stýra liðum sínum gegn Liverpool. Lið undir stjórn Ancelotti hafa mætti Liverpool 9 sinnum og í 6 skipti hefur Ancelotti hrósað sigri, sem er náttúrlega bæði fáheyrt og ferlegt.   
Jürgen Klopp og Virgil Van Dijk sátu báðir fyrir svörum á blaðamannafundi í Napoli í dag. Svörin voru svosem fyrirsjáanleg, en engu að síður heiðarleg og góð; Liðið er sjálft búið að koma sér í erfiða stöðu og nú er ekkert annað í boði en að koma sér út úr henni og áfram í keppninni. 

,,Okkur hefur ekki gengið nógu vel á útivelli, en hingað til höfum við verið góðir á Anfield. Á morgun þurfum við að vera ennþá betri", sagði Klopp. 

Klopp sagði að Mané, Lovren og Lallana væru allir tilbúnir í leikinn þannig að hann ætti að geta stillt upp sterku liði. Meiðsli Joe Gomez eru auðvitað töluverður skellur, það hefði verið gott að hafa hann öskufljótan í miðverðinum til að verjast skyndisóknum Napoli. En það er ekkert við því að gera, svona er þetta bara. 

Þrír af fjórum í vörninni eru sjálfvaldir, eina spurningin held ég að sé hvort Klopp velur Lovren eða Matip við hlið Van Dijk. 

Miðjan er meira spurningarmerki, þar eru Fabinho og Keita loksins að koma sterkir inn - og auðvitað Shaqiri. Henderson, Wijnaldum og Milner hafa síðan hver á sinn hátt verið fínir. Ég væri mest til í að sjá Keita í byrjunarliðinu, ég held að það veiti ekki af sköpunarkraftinum sem hann býr yfir, því væntanlega mun Napoli liggja mjög aftarlega, enda dugar þeim jafntefli til að komast áfram.

Sóknin verður svo væntanlega klassísk, Mané, Firmino og Salah, en Shaqiri og Sturridge gætu svosem dúkkað upp á blaðinu hjá Klopp. Annar hvor eða báðir, hvað veit maður?

Ég veit ekki með þennan leik. Manni finnst Liverpool vera sterkara lið og Evrópukvöld á Anfield eru alvöru stöff. En Ancelotti er líka refur og Napoli er alveg þrælseigt lið. Vonandi náum við bara að skora snemma þannig að Napoli þurfi að færa sig aðeins framar á völlinn. Þá getur allt gerst. Ég held að það sem ég er að reyna að segja sé að annaðhvort fari leikurinn 0-0 eða 4-0. 

YNWA! 
  



TIL BAKA
Nýlegar fréttir
Fleiri fréttir
Fréttageymslan