| Heimir Eyvindarson

Spáð í spilin

Liverpool mætir Wolverhampton Wanderers á útivelli í FA bikarnum annað kvöld. Liverpool á harma að hefna gegn Úlfunum í keppninni frá því fyrir tæpum tveimur árum síðan.

Það hefur hreint ekki verið neinn glansbragur á gengi Liverpool í FA bikarnum frá því að Jürgen Klopp kom til starfa í október 2015. Öll árin hefur liðið fallið úr leik í fjórðu umferð keppninnar og alltaf gegn liðum sem byrja á W; West Ham, WBA - og einmitt Wolves, en Úlfarnir unnu Liverpool í lok janúar 2015 1-2 í hörmungarleik. 

Liðin mættust á Moulineux vellinum í Wolverhampton rétt fyrir jól og þá vann Liverpool 0-2 með mörkum frá Salah og Van Dijk. Í þeim leik stillti Klopp upp nokkurn veginn sínu sterkasta liði en það er klárt mál að það verður ekki uppá teningnum annað kvöld. 

Á blaðamannafundi í gær tilkynnti Klopp að Simon Mignolet yrði í markinu og eins staðfesti hann nokkurn veginn að Alberto Moreno fengi að byrja leikinn. Hann sagðist vera tilneyddur að rótera liðinu verulega, það væri heljarinnar prógramm framundan í Úrvalsdeildinni og Meistaradeildinni og það væri hreinlega ekki hægt að láta sömu mennina spila leik eftir leik eftir leik. 

Þetta er vissulega allt satt og rétt hjá Klopp, en það er alveg viðbúið að það heyrist einhverjar óánægjuraddir í bresku blöðunum ef hann stillir upp algeru varaliði. Óvirðing við elstu bikarkeppni í heimi o.s.frv....við þekkjum þennan söng. 

Það hefur sérstaklega verið rætt um nokkra unga og efnilega leikmenn í tengslum við þennan leik, hollenska miðvörðinn Ki-Jana Hoever sem er rétt tæplega 17 ára, heimamanninn Curtis Jones sem verður 18 ára í lok mánaðarins og portúgalska Rafa Camacho, sem verður 19 ára í maí. Liverpool Echo tekur Camacho sérstaklega fram í sinni umfjöllun um ungviðið og bendir á að hann geti spilað hægri bakvörð, en Camacho þykir mjög fjölhæfur og efnilegur þótt hann hafi ekki enn staðið undir væntingum. 
Eitthvað segir mér að Klopp sé að vinna með væntinga vísitöluna með tali sínu um róteringar. Það er vissulega stór breyting að hvíla Alisson og Robertson en ég er ekkert allt of viss um að liðið verði fullt af algjörum varamönnum eða kjúklingum. Væntanlega fá Keita, Lallana, Sturridge og kannski Origi að byrja leikinn og þeir eru nú engir aukvisar. Síðan á ég alveg eins von á því að einhverjar kanónur byrji leikinn. Það kæmi mér t.d. ekkert alltof mikið á óvart að sjá Van Dijk í byrjunarliðinu. Einhver verður að stjórna vörninni, tala nú ekki um þegar Migno er kominn í markið. 

Við hefðum alveg getað fengið léttari andstæðing, en leikir Liverpool og Wolves og Bournemouth og Brighton eru einu viðureignirnar í 3. umferð þar sem Úrvalsdeildarlið mætast. Það er hinsvegar sjaldan hægt að tala um létta andstæðinga í enska bikarnum, eins og dæmin sanna. 

Það verður fróðlegt að sjá hvernig þessi leikur þróast. Ég held að stemningin í liðinu sé það góð og sjálfstraustið það mikið að Úlfarnir eigi engan sjéns á morgun. Nýju mennirnir verða hungraðir í að sanna sig og Mignolet ver víti, sanniði til.

Ég er semsagt bjartsýnn, sem er reyndar ekki góðs viti, og spái 0-3 sigri. Sturridge með þrennu. 

YNWA! 

   
TIL BAKA
Nýlegar fréttir
Fleiri fréttir
Fréttageymslan