| Grétar Magnússon

Spáð í spilin

Næsti leikur okkar manna er jafnframt fyrsti heimaleikur ársins. Mótherjarnir eru Crystal Palace undir stjórn Roy Hodgson, leikurinn fer fram laugardaginn 19. janúar og hefst klukkan 15:00.

Eins og venjulega rennum við yfir stöðuna á leikmönnum liðsins en Jürgen Klopp sagði á blaðamannafundi fyrir leikinn í dag að Trent Alexander-Arnold gætu spilað á morgun en það kemur töluvert á óvart þar sem allt leit út fyrir að hann yrði frá næstu vikurnar. Gini Wijnaldum er tæpur og ákvörðun um hvort hann og Alexander-Arnold spili verður tekin á síðustu stundu. Adam Lallana byrjaði svo æfingar að nýju í vikunni og þá ætti Joel Matip að vera orðinn heill heilsu eftir að hafa verið á bekknum í síðustu viku. Dejan Lovren er enn meiddur en gæti náð leiknum gegn Leicester í þar næstu viku en ekki er vitað nákvæmlega hvenær Joe Gomez verður klár.

Klopp talaði einnig um þá Rhian Brewster og Alex Oxlade-Chamberlain en báðir hafa verið meiddir allt tímabilið. Ekki verður búist við því að Brewster spili neitt en Klopp sagði að Oxlade-Chamberlain myndi líklega koma við sögu á tímabilinu sem eru góðar fréttir.

Hjá gestunum eru líka meiðslavandræði þó aðallega hvað markverðina varðar en þriðji markvörður þeirra Julian Speroni, sem er 39 ára gamall, mun spila á laugardaginn kemur. Sá leikmaður hefur ekki spilað síðan í desember árið 2017 en hann var lengi vel aðalmarkvörður Palace. Í gegnum tíðina höfum við nú oft séð markmenn sem enginn býst við að spili meir komi inn í lið og eigi stórleik. Vonum að það gerist ekki á Anfield á morgun. Að öðru leyti eru Palace menn með sinn sterkasta hóp.

Lundúnaliðið hefur undanfarin ár náð góðum úrslitum á Anfield og af síðustu fimm viðureignum liðanna þar hafa Palace menn unnið þrjá leiki. Síðasta viðureign liðanna á Anfield endaði þó með sigri Liverpool 1-0 þar sem Sadio Mané skoraði markið. Liðin hafa svo auðvitað mæst áður á tímabilinu, þá á heimavelli Palace þar sem okkar menn unnu góðan vinnusigur 0-2. Liverpool má illa við því að tapa stigum í baráttunni á toppnum en Palace menn hafa hingað til náð fínum úrslitum gegn hinum svokölluðu topp sex liðum og ber þar hæst frábær sigur á Manchester City á útivelli í desember. Leikmenn Liverpool þurfa heldur betur að vera klárir í slaginn og hafa þolinmæði til að brjóta þéttan varnarmúr Palace á bak aftur. Gestirnir munu svo auðvitað freista þess að beita skyndisóknum með Wilfried Zaha fremstan í flokki.

Spáin að þessu sinni er sú að okkar menn ná nú að herja fram sigur 2-0. Þetta verður erfiður leikur gegn vel skipulögðum andstæðingum en það tekst að róa mannskapinn á Anfield með marki í fyrri hálfleik og seinna markið kemur um miðjan síðari hálfleik.

Fróðleikur:

- Mohamed Salah er markahæstur leikmanna Liverpool í deildinni með 14 mörk.

- Luka Milivojevic er markahæstur Palace manna með 6 mörk.

- Okkar menn eru á toppnum fyrir þennan leik með 57 stig.

- Palace sitja í 14. sæti með 22 stig.


TIL BAKA
Nýlegar fréttir
Fleiri fréttir
Fréttageymslan