| Grétar Magnússon

Frábær sigur á Watford

Pressan í toppbaráttunni sagði lítið til sín þegar Liverpool gjörsigraði Watford 5-0 í 28. umferð ensku úrvalsdeildarinnar á miðvikudagskvöldið var.

Það kom nokkuð á óvart að Divock Origi byrjaði en Roberto Firmino hafði ekki náð að jafna sig af meiðslum sem hann hlaut gegn Manchester United. Að öðru leyti var byrjunarliðið sett upp eins og flestir bjuggust við, reyndar byrjaði James Milner og fyrirliðinn Jordan Henderson settist á bekkinn. Á miðjunni með Milner voru þeir Gini Wjnaldum og Fabinho. Þegar leikurinn hófst mátti svo sjá að Mané var fremstur í sóknarlínunni og Origi á vinstri kanti.

James Milner setti tóninn fyrir það sem koma skyldi snemma leiks þegar hann elti sendingu til baka á markvörð Watford, Ben Foster. Foster tók sér tíma til að sparka frá marki og Milner renndi sér fyrir boltann og náði til hans. Boltinn hoppaði upp í loft og Foster greip hann nokkuð auðveldlega. En þarna mátti strax sjá að Milner var mættur til að berjast um alla bolta og samherjar hans létu ekki sitt eftir liggja heldur. Ekki þurftu stuðningsmenn að bíða lengi eftir fyrsta markinu en það kom á 9. mínútu. Sókn upp hægri kantinn endaði með því að Milner lagði boltann til Alexander-Arnold sem fékk tíma til að leggja boltann fyrir sig og senda fyrir markið. Sendingin var frábær og Sadio Mané stökk manna hæst í markteignum og skallaði í markið. Skömmu síðar var aftur sótt upp hægri kantinn þar sem Salah tók á rás í átt að marki. Alexander-Arnold fylgdi hlaupinu eftir og fékk sendingu innfyrir á teiginn, hann náði að koma boltanum fyrir markið þar sem Origi beið en varnarmenn Watford komust fyrir og björguðu í horn. Salah hélt áfram að nýta hraða sinn á kantinum og skapaði trekk í trekk hættu. Hann fékk sendingu upp kantinn og vann kapphlaup við bakvörð Watford, komst inní teiginn en missti boltann, Wijnaldum náði boltanum, kom honum út á Alexander-Arnold sem sendi innfyrir, beint á Mané sem var einn á miðjum vítateig. Fyrsta snerting Mané var slök og hann þurfti að snúa baki í markið til að ná boltanum. En það sem gerðist næst var hreint út sagt stórkostlegt. Mané hikaði ekki og skaut boltanum með hælnum, lyfti honum yfir Foster sem kom út á móti og í markið. Staðan orðin 2-0 eftir aðeins 20 mínútur. Afskaplega snyrtilega gert hjá Mané.



Áfram hélt Salah að fara illa með varnarmenn Watford þegar enn ein sendingin kom upp hægri kantinn, Salah náði að leika inní teig og var aðþrengdur. Hann náði samt að koma skoti á markið sem Foster náði að slæma hendinni í og boltinn fór í stöngina. Varnarmenn Watford hreinsuðu í innkast og sóknin hélt áfram. Milner sólaði sig inní teiginn þar sem hann var kominn í ágætis færi en þó umkringdur varnarmönnum og Foster náði að koma út á móti. Sóknin endaði svo með þrumuskoti frá Fabinho sem hitti ekki á markið. Eina færi gestanna í hálfleiknum kom þegar Deulofeu fékk boltann úti hægra megin og sendi inná markteig þar sem Deeney var mættur en hann skaut framhjá. Yfirburðir heimamanna voru töluverðir eins og sjá má en staðan í hálfleik 2-0.

Það sama var uppá teningnum í seinni hálfleik og heilt yfir spiluðu allir leikmenn Liverpool mjög vel í leiknum. Fabinho vann hvern boltann á fætur öðrum á miðjunni og Salah fór oft illa með vinstri bakvörð gestanna. Þriðja markið kom svo á 66. mínútu þegar Origi fékk boltann úti á vinstri kanti. Hann fékk að leika inní teiginn og var ekki pressaður almennilega af varnarmönnum. Þetta endaði með því að Origi þrumaði að marki og boltinn söng í netinu út við nærstöngina. Vel gert hjá Origi sem hafði spilað vel í leiknum, sinnt varnarvinnunni vel og verið ógnandi á kantinum. Watford lifnuðu aðeins eftir þriðja markið, næsta færi var þeirra og það var hættulegt. Robertson braut klaufalega á Hughes út við vítateigslínu á hægri kanti. Sendingin kom fyrir markið en boltinn var skallaður frá í fætur Watford leikmanns. Hann sendi inná teiginn þar sem boltinn var skallaður á miðjan teiginn til Andre Gray. Hann var gersamlega óvaldaður og þrumaði að marki en boltinn fór yfir. Hornspyrna var dæmd sem sýndi að Alisson varði skotið og verður það að teljast ótrúleg varsla.

Á 78. mínútu kom Adam Lallana inná fyrir Mané og skömmu síðar vann hann aukaspyrnu á hægri kanti. Alexander-Arnold tók spyrnuna og hitti beint á kollinn á van Dijk sem skallaði í markið. Frábært mark og þarna var Alexander-Arnold kominn með þrjár stoðsendingar ! Leikmenn Liverpool voru ekki hættir og á 82. mínútu skoraði van Dijk aftur með skalla úr teignum. Í þetta sinn eftir sendingu frá Andy Robertson. Niðurstaðan 5-0 jafntefli og eins og áður sagði mátti ekki sjá að taugar leikmanna Liverpool hafi verið þandar í toppbaráttunni. Vonandi er þetta það sem koma skal !

Liverpool: Alisson, Alexander-Arnold, Matip, van Dijk, Robertson, Fabinho, Wijnaldum (Keita, 84. mín.), Milner (Henderson, 70. mín.), Salah, Origi, Mané (Lallana, 78. mín.). Ónotaðir varamenn: Mignolet, Camacho, Shaqiri, Sturridge.

Mörk Liverpool: Sadio Mané (9. og 20. mín.), Divock Origi (66. mín.) og Virgil van Dijk (79. mín og 82. mín.).

Watford: Foster, Janmaat, Mariappa, Cathcart, Masina, Doucouré, Capoue, Hughes, Pereyra (Sema, 84. mín.), Deeney (Gray, 73. mín.), Deulofeu (Cleverley, 73. mín.). Ónotaðir varamenn: Gomes, Quina, Navarro, Kabasele.

Gul spjöld: Cathcart og Masina.

Áhorfendur á Anfield: 53.316.

Maður leiksins: Allir leikmenn Liverpool áttu góðan dag en maður leiksins hlýtur að vera Trent Alexander-Arnold sem lagði upp þrjú mörk í leiknum. Það er auðvitað erfitt að horfa framhjá Mané og van Dijk sem skoruðu tvö mörk hvor en hægri bakvörðurinn ungi hlýtur nafnbótina að þessu sinni.

Jürgen Klopp: ,,Ég er auðvitað ánægður með framlag liðsins í heild. Leikurinn spilaðist ákkúrat eins og við vildum. Strákarnir voru flottir í öllum aðgerðum sínum og sóknarlega vorum við mjög hreyfanlegir. Þetta er gott dæmi um það hvernig á að spila knattspyrnu og við skulum reyna að halda því áfram."

Fróðleikur:

- Sadio Mané hefur nú skorað 14 mörk í úrvalsdeildinni.

- Divock Origi skoraði sitt annað deildarmark.

- Alisson hélt markinu hreinu í 16. deildarleiknum á leiktíðinni og hefur hann aðeins fengið á sig 15 mörk í heild.

- Liverpool hefur ekki tapað á Anfield í síðustu 35 leikjum.

- Jordan Henderson hefur nú spilað 230 deildarleiki fyrir félagið.
TIL BAKA
Nýlegar fréttir
Fleiri fréttir
Fréttageymslan