| Grétar Magnússon

Baráttusigur á Burnley

Liverpool hélt í við Manchester City í toppbaráttunni með 4-2 sigri á Burnley á Anfield. Gestirnir skoruðu fyrsta markið en heimamenn létu það ekki á sig fá og tryggðu sér sigur þó reyndar hafi það staðið tæpt í lokin.

Byrjunarlið Jürgen Klopp kom kannski á óvart en eins og oft áður er erfitt að segja hvaða miðjumenn fá tækifærið hverju sinni. Nú var það Adam Lallana sem fékk tækifæri frá byrjun ásamt Fabinho og Gini Wijnaldum, að öðru leyti var liðið skipað eins og menn bjuggust við. Það sama má segja um gestina þó einhverjir hafa nú búist við því að Jóhann Berg Guðmundsson myndi byrja en hann sat á bekknum.

Eftir rétt um fimm mínútna leik fengu Burnley fyrstu hornspyrnu leiksins, lítil hætta var á ferðum þegar Matip skallaði boltann aftur fyrir endamörk. Ashley Westwood tók hornspyrnuna og hún endaði í markinu við mikinn fögnuð gestanna. Markið hefði þó aldrei átt að standa þar sem augljóslega var brotið á Alisson á markteignum, þar hoppaði James Tarkowski upp og hafði hendur á öxlum Alisson sem hindraði hann í að slá til boltans. Ótrúlegt að sjá að dómarinn hafi ekki dæmt á þetta en leikmenn Liverpool létu óréttlætið ekki á sig fá. Alisson fékk reyndar gult spjald fyrir kröftug mótmæli sem höfðu jú fullan rétt á sér. Þeir sóttu í sig veðrið kannski í orðsins fyllstu merkingu því mikill vindur var á vellinum. Firmino og Mané fengu færi til að jafna metin en skot frá þeim fyrrnefnda og skalli frá þeim síðarnefnda hittu ekki á markið.

En það tókst að jafna metin á 19. mínútu þegar Salah og Wijnaldum léku vel saman úti hægra megin. Salah fékk boltann frá Hollendingnum þegar hann tók hlaup í átt að endamörkum og náði að senda boltann fyrir. Þar náðu markvörður og varnarmaður Burnley einhvernveginn að þvælast hvor fyrir öðrum og boltinn rann á milli þeirra til Firmino sem gat ekki annað en skorað. Fínt að fá jöfnunarmarkið svona nokkuð fljótt eftir þetta rugl snemma leiks. Tíu mínútum síðar var staðan svo orðin 2-1 og það var öllu leyti Adam Lallana að þakka. Liverpool menn misstu boltann fyrir utan teiginn og varnarmaður Burnley hugðist hreinsa frá marki. Lallana renndi sér fyrir boltann sem hrökk inná teiginn til Salah en varnarmaður var fyrri til í boltann, þaðan fór hann til Mané sem gerði sér lítið fyrir og þrumaði boltanum í hægra markhornið. Glæsilegt mark. Fátt markvert gerðist eftir þetta og staðan 2-1 þegar flautað var til hálfleiks.



Seinni hálfleikur var ekki ósvipaður þeim fyrri og ljóst að Liverpool menn vildu bæta við mörkum. Salah þrumaði boltanum rétt yfir markið og skot eða sending fyrir markið frá Firmino fór rétt framhjá fjærstönginni. Á 67. mínútu kom svo gjöf frá Burnley sem heimamenn nýttu sér. Tom Heaton tók markspyrnu og hún var hreint ekki góð, dreif ekki lengra en til Salah sem tók á rás í átt að marki. Varnarmaður náði góðri tæklingu á Salah en boltinn barst inná miðjan teiginn til Firmino sem skoraði í autt markið. Sadio Mané hefði svo átt að bæta við fjórða markinu þegar Alexander-Arnold átti góða sendingu fyrir markið, Mané renndi sér í boltann en lyfti honum í þverslána. Í blálokin fór svo aðeins um stuðningsmenn Liverpool þegar Burnley minnkaði muninn í 3-2. Eftir klafs í teignum þar sem boltinn skoppaði á milli manna náði einn Burnley leikmaður að koma boltanum til Jóhanns Berg sem skoraði framhjá Alisson. En heimamenn voru ekki hættir því Daniel Sturridge átti frábæra sendingu innfyrir á Mané sem lék framhjá Heaton á vítateigslínunni og setti svo boltann í autt markið. Niðurstaðan 4-2 sigur sem var jú gríðarlega mikilvægur í toppbaráttunni.

Liverpool: Alisson, Alexander-Arnold (Sturridge, 86. mín.), Matip, van Dijk, Robertson, Fabinho, Wijnaldum (Henderson, 68. mín.), Lallana (Keita, 77. mín.), Salah, Mané, Firmino. Ónotaðir varamenn: Mignolet, Lovren, Shaqiri, Origi.

Mörk Liverpool: Roberto Firmino (19. og 67. mín.) og Sadio Mané (29. og 90+3 mín.).

Gul spjöld: Alisson og Fabinho.

Burnley: Heaton, Bardsley, Tarkowski, Mee, Taylor, Hendrick (Jóhann Berg Guðmundsson, 79. mín.), Westwood, Cork, McNeil, Barnes (Vydra, 86. mín.), Wood (Crouch, 79. mín.). Ónotaðir varamenn: Hart, Lowton, Brady, Gibson.

Mörk Burnley: Ashley Westwood (6. mín.) og Jóhann Berg Guðmundsson (90+1 mín.).

Áhorfendur á Anfield: 53.310.


Maður leiksins: Sadio Mané heldur áfram að skora mörk sem er vel og þó svo að Firmino hafi skorað tvö í dag einnig þá fannst mér Mané standa sig ívið betur. Adam Lallana mætti svo sannarlega fá nafnbótina einnig fyrir virkilega góða frammistöðu á miðjunni.

Jürgen Klopp: ,,Má ég tala um aðstæðurnar í leiknum? Við spiluðum okkar leik. Fyrsta mark Burnley var sennilega svolítið vindinum að kenna en í flestum löndum hefði þetta mark ekki fengið að standa, það er ekki leyfilegt að fara svona með markvörðinn í markteignum. Adam Lallana skoraði ekki en hann var einn besti leikmaðurinn á vellinum í dag. Hann átti frábæran leik. Ég er virkilega ánægður með frammistöðu minna manna, sérstaklega þegar mótherjinn er Burnley."

Fróðleikur:

- Liverpool jafnaði félagsmet frá tímabilinu 1987-88 með því að hafa 73 stig eftir 30 leiki.

- Á Anfield hefur Liverpool ekki tapað nú í síðustu 36 leikjum (30 sigrar, 6 jafntefli).

- Roberto Firmino hefur nú skorað 10 eða fleiri deildarmörk öll þau tímabil sem hann hefur spilað fyrir félagið.

- Firmino hefur átt þátt í 100 mörkum undir stjórn Jürgen Klopp (63 mörk, 37 stoðsendingar), hann hefur spilað 175 leiki undir stjórn Þjóðverjans.

- Sadio Mané hefur skorað í sex heimaleikjum í röð og varð þar með fimmti leikmaðurinn í sögu félagsins sem gerir það.

- Mané hefur skorað 50 mörk í 109 leikjum fyrir félagið.




TIL BAKA
Nýlegar fréttir
Fleiri fréttir
Fréttageymslan