| Grétar Magnússon

Spáð í spilin

Nú hefst lokabaráttan í deildinni og loksins er síðasta landsleikjahlé tímabilsins er búið. Okkar menn eiga stórleik fyrir höndum gegn Tottenham og hefst hann klukkan 15:30 sunnudaginn 31. mars.

Liverpool eiga  sjö leiki eftir í deildinni og eru tveim stigum á eftir Manchester City sem sigruðu Fulham í fyrsta leik umferðarinnar. Það verður hart barist allt til loka, hvorugt liðið má við því að misstíga sig og það væri virkilega sterkt hjá okkar mönnum að vinna sigur á sterku liði Tottenham.

Jürgen Klopp var nokkuð ánægður á blaðamannafundi fyrir leik helgarinnar í gær og sagði að allir hefðu snúið til baka úr landsliðsverkefnum óskaddaðir og er það sennilega í fyrsta sinn sem það gerist síðan hann tók við. Það eru þó engu að síður meiðsli í leikmannahópnum en þeir sem kenna sér meins eru Trent Alexander-Arnold, Xerdan Shaqiri, Naby Keita og Alex Oxlade-Chamberlain. Joe Gomez er svo nýbyrjaður að æfa aftur eftir langvarandi meiðsli og er auðvitað ekki klár fyrir þennan leik. Það kemur svo í ljós hvort að Alexander-Arnold nái sér í tæka tíð en að mínu mati er lang mikilvægast að hann spili þennan leik, það hefur yfirleitt boðað vandræði ef hann er ekki með og James Milner eða Jordan Henderson þurft að spila í hægri bakverði. Hjá gestunum eru þrír leikmenn meiddir, Serge Aurier, Eric Dier og Harry Winks og aðeins talið að Aurier eigi einhvern séns á að taka þátt í leiknum.

Eins og oft áður er erfitt að spá fyrir um hvernig Klopp stillir upp miðjunni í leiknum en ég ætla að tippa á að Wijnaldum, Henderson og Fabinho byrji leikinn. Það gæti þó auðvitað allt eins verið að Klopp vilji nota Adam Lallana eða James Milner sem fengu frí í landsleikjahléinu. Vörnin verður vonandi skipuð Alexander-Arnold eins og áður sagði ásamt Alisson, Joel Matip, Virgil van Dijk og Andy Robertson. Fremstu þrír velja sig svo sjálfir.

Lundúnaliðið hefur ekki verið sigursælt á Anfield í gegnum tíðina. Þeir hafa aðeins unnið tvo leiki þar frá stofnun úrvalsdeildarinnar og síðasti sigurinn kom árið 2011. Í síðustu fimm leikjum liðanna í musterinu hafa Liverpool unnið þrjá leiki og tveir endað með jafntefli. Leikur liðanna í fyrra er mörgum minnistæður en hann var fjörugur í meira lagi. Mohamed Salah skoraði strax á þriðju mínútu og menn héldu í sér þangað til á lokamínútunum þegar fjörið byrjaði. Victor Wanyama jafnaði með drauma marki á 80. mínútu, Loris Karius varði vítaspyrnu frá Harry Kane á þeirri 87. og Salah skoraði í uppbótartíma ótrúlegt mark þar sem hann fíflaði a.m.k. fjóra varnarmenn. Gestirnir fengu svo ansi ódýra vítaspyrnu örskömmu síðar og þá brást Harry Kane ekki bogalistin og lokatölur voru 2-2. Við skulum vona að það sama verði ekki uppá teningnum nú en Mohamed Salah má nú reyndar alveg hrökkva í gang á ný og koma sér á blað í markaskorun.

Spáin að þessu sinni er sú að þetta verður auðvitað hörku leikur sem endar með 2-1 sigri Liverpool. Höldum okkur við dramatíkina sem ríkti í fyrra og segjum að sigurmarkið komi á síðustu fimm mínútum leiksins.

Fróðleikur:

- Þeir Mohamed Salah og Sadio Mané eru markahæstir á tímabilinu, báðir með 17 mörk í deildinni og 20 mörk alls.

- Mohamed Salah hefur tekið þátt í flestum leikjum á tímabilinu eða alls 41.

- Harry Kane hefur einnig skorað 17 deildarmörk á tímabilinu og er markahæstur Tottenham manna (24 alls á tímabilinu).

- Liverpool eru í 2. sæti deildarinnar með 76 stig.

- Tottenham sitja í 3. sæti með  61 stig.

- Trent Alexander-Arnold gæti spilað sinn 50. deildarleik fyrir félagið.




TIL BAKA
Nýlegar fréttir
Fleiri fréttir
Fréttageymslan