| Sf. Gutt

Munum leggja allt í sölurnar!


Ævintýralegt sigurmark Liverpool á móti Tottenham Hotspur gæti skipt miklu þegar upp er staðið í vor. Mohamed Salah segir að leikmenn Liverpool muni leggja allt í sölurnar til að vinna deildina fyrir stuðningsmenn Liverpool sem hafi hvatt þá til dáða í leiknum. Allt stefndi í jafntefli það til Toby Alderweireld skoraði slysalegt sjálfsmark á síðustu mínútu leiksins. Markið tryggði Liverpool sigur og breytti öllu upp á framhaldið í baráttunni um Englandsmeistaratitilinn. 

,,Allt breyttist og það mátti greinilega sjá á stuðningsmönnunum eftir leikinn. Allt gekk af göflunum. Þeir þrá sigur í Úrvalsdeildinni og við munum leggja allt í sölurnar til að vinna deildina. Þeir hjálpuðu okkur mikið í leiknum, andrúmsloftið var rafmagnað og þeir hvöttu okkur áfram til að skapa marktækifæri og spila betur. Stórlið finna alltaf leiðir til að ná stigum. Kannski spiluðum við ekki eins vel og við getum í síðari hálfleik en við unnum leikinn og það var fyrir öllu. Stórlið þurfa alltaf að geta fundið leiðir til að vinna leiki og það gerðum við."


Mohamed Salah hefur ekki skorað í síðustu átta leikjum en hann átti stóran þátt í hinu ævintýralega sigurmarki. Hann segir það litlu skipta þó hann skori ekki svo framarlega að liðið nái að vinna leikina sem bíða. 

,,Stigin voru fyrir öllu. Mér er alveg sama hvort ég fæ markið skráð. Gott og vel, ég hef ekki skorað í nokkra leiki. Ég spila bara leikina og það mikilvægasta frá mínum bæjardyrum séð er að við náum að vinna Úrvalsdeildina. Núna eru allir leikir erfiðir og álagið eykst. Við þurfum bara að halda okkur inni í baráttunni og vinna leikina."

Næsti leikur Liverpool er við Southampton á útivelli á föstudagskvöldið. Mohamed segir þann leik verða mjög erfiðan enda mikið í húfi fyrir bæði lið. 

,,Southampton vill ná stigum til að halda sér í Úrvalsdeildinni og þess vegna munu þeir líka berjast fyrir lífi sínu. Við verðum að vinna hvern einasta leik."

Baráttan um Englandsmeistaratitilinn heldur áfram!
TIL BAKA
Nýlegar fréttir
Fleiri fréttir
Fréttageymslan