| Sf. Gutt

Liverpool endaði í öðru sæti

Liverpool endaði í öðru sæti í Ensku Úrvalsdeildinni. Síðasta umferðin í deildinni fór fram í dag. Liverpool vann Wolverhampton Wanderes 2:0 á Anfield Road. Það dugði ekki til því Manchester City vann á sama tíma 1:4 sigur á Brighton and Hove Albion. Stigafjöldi Liverpool er sá þriðji hæsti frá því Úrvalsdeildin var stofnuð og það er í raun grátlegt að það hafi ekki dugað til að vinna deildina. 

Það var auðvitað spenna í loftinu fyrir leik Liverpool og Wolves á Anfield. Hvernig mátti annað vera? Liverpool gat orðið Englandsmeistari með því að vinna og Manchester City myndi á sama tíma missa stig í Brighton. Stuðningsmenn Liverpool hópuðust líka að Musterinu með bros á vör eftir hinn mangaða sigur á Barcelona!

Mohamed Salah kom inn í liðið eftir að hafa fengið grænt ljós frá læknaliði Liverpool eftir heilahristinginn sem hann fékk á móti Newcastle. Georginio Wijnaldum kom líka inn í byrjunarliðið eftir frábæra innkomu á móti Barcelona. 

Liverpool hóf leikinn af krafti og á 17. mínútu var ísinn brotinn í vorsólinni. Trent Alexander-Arnold og Jordan Henderson léku saman hægra megin. Trent tók við boltanum frá fyrirliðanum og sendi fyrir á Sadio Mané. Senegalinn skoraði af öryggi við markteiginn fyrir miðju marki fyrir framan The Kop. Um miðjan hálfleikinn átti Andrew Robertson bylmingsskot utan vítateigs sem Rui Patricio gerði vel í að verja. 

Nokkrum mínútum seinna breiddist út fögnuður hjá stuðningsmönnum Liverpool því fréttir bárust um að Brighton hefði náð forystu á móti City. Sá fögnuður stóð þó ekki lengi því meistararnir jöfnuðu mínútu síðar. Samt dugði þessi staða til að vinna titilinn en tíu mínútum seinna komust meistararnir yfir í Brighton. 

Leikmenn Liverpool misstu taktinn eftir góða byrjun og Úlfarnir fóru að bíta frá sér. Rétt fyrir hálfleik átti Matt Doherty langskot sem fór í þverslána og yfir. Liverpool leiddi í hálfleik og nú var að vona að Brighton næði að jafna eða gera enn betur. 

Liverpool lék ekkert betur eftir hlé og gestirnir urðu æ hættulegri. Alisson Becker varði vel frá Diego Jota á 69. mínútu og aftur frá sama manni fimm mínútum seinna. Um svipað leyti gekk City frá því að titillinn yrði þeirra annað árið í röð með tveimur mörkum. 

Liverpool tók af skarið þegar níu mínútur voru eftir. Trent fékk boltann eftir að boltinn vannst og sendi frábæra sendingu fyrir markið á Sadio sem skallaði í markið af stuttu færi. Glæsilega gert. Rétt á eftir var Trent aftur á ferðinni með góða fyrirgjöf sem hitti á Virgil van Dijk en skalli hans fór í þverslá og skoppaði aftur fyrir. Sigurinn var Liverpool en ekki titillinn! Því miður! 

Stuðningsmenn Liverpool fögnuðu sigrinum og hylltu svo leikmenn sína þegar þeir gengu heiðurshring samkvæmt hefð. Í raun gat leiktíðin varla gengið betur. Stigafjöldin segir sitt. Lið hefur aldrei fengið fleiri stig án þess að vinna ekki titilinn. Keppnistímabilið hefur verið frábært. Það verður þó ekki fullkomlega frábært nema að Liverpool vinni síðasta leikinn. Ef Liverpool spilar álíka vel á móti Tottenham Hotspur í úrslitaleiknum um Evrópubikarinn og það hefur gert á leiktíðinni þá vinnur það bikarinn. En það þarf að snúa við blöðum frá síðustu fjórum úrslitaleikjum sem Liverpool hefur tapað. Liverpool verður að vinna Evrópubikarinn! Það má ekki bregðast! Liðið á einfaldlega skilið titil á þessari mögnuðu leiktíð!

Liverpool: Alisson, Alexander-Arnold, Matip, Van Dijk, Robertson (Gomez 84. mín.), Fabinho, Wijnaldum (Oxlade-Chamberlain 88. mín.), Henderson, Mané, Salah og Origi (Milner 64. mín.). Ónotaðir varamenn: Mignolet, Lovren, Sturridge og Shaqiri.

Mörk Liverpool: Sadio Mané (17. og 81. mín.).

Wolverhampton Wanderes: Patricio, Bennett, Coady, Boly, Doherty (Traore 80. mín.), Dendoncker, Neves, Moutinho (Gibbs-White 84. mín.), Jonny (Vinagre 84. mín.), Jota og Jimenez. Ónotaðir varamenn: Ruddy, Cavaleiro, Costa og Kilman.

Gul spjöld: Ryan Bennett og Diego Jota.

Áhorfendur á Anfield Road: 53.331.

Maður leiksins: Trent Alexander-Arnold. Unglingurinn var frábær eins og svo oft áður á leiktíðinni. Það var kraftur í honum allan leikinn og hann lagði upp bæði mörk leiksins. 

Jürgen Klopp: Fyrst og síðast verð ég að óska City til hamingju. Ég er búinn að segja það nokkrum sinnum og ég vil að allir fréttamenn nái því, þar sem það er mikilvægt að halda því til haga, að þeir áttu ótrúlegt keppnistímabil. Við áttum það líka en þegar upp var staðið þá voru það þeir sem unnu og ég óska Pep og öllum hjá Manchester City til hamingju.

Fróðleikur.  

- Liverpool endaði í öðru sæti Úrvalsdeildarinnar. Liðið fékk 97 stig. 

- Það er þriðji hæsti stigafjöldi í deildinni eftir að efsta deild varð 38 leikja deild. Manchester City náði núna 98 stigum og 100 á síðustu leiktíð.

- Liverpool vann 30 leiki, gerði sjö jafntefli og tapaði aðeins einum leik.

- Liverpool tapaði ekki deildarleik á Anfield Road aðra leikíðina í röð. 

- Sadio Mané er kominn með 26 mörk á leiktíðinni. 

- Mohamed Salah hefur skorað jafn mörg mörk. 

- Þeir skoruðu báðir 22 mörk í deildinni og deila Gullskónum í Úrvalsdeildinni með Pierre-Emerick Aubameyang sóknarmanni Arsenal.  

- Alisson Becker lék sinn 50. leik með Liverpool.

- Hann hélt marki sínu hreinu í 21 leik í deildinni og fékk Gullhanskann í verðlaun fyrir að halda oftast hreinu af öllum markmönnum í deildinni.  

- Fabinho Tavarez lék í 40. sinn fyrir hönd Liverpool. Hann hefur skorað eitt mark. 

Hér er viðtal
við Jürgen Klopp sem tekið var eftir leikinn. 




 
TIL BAKA
Nýlegar fréttir
Fleiri fréttir
Fréttageymslan