| Sf. Gutt

Alex gerir nýjan samning


Tilkynnt var í dag að Alex Oxlade-Chamberlain hafi gert nýjan samning við Liverpool. Eins og nú tíðkast er ekki greint frá því hversu langur samningurinn er heldur bara að um langtímasamning sé að ræða. 


Alex er nú að komast í gang eftir erfið hnjámeiðsli. Hann meiddist illa á hné í Evrópuleik á móti Roma í lok apríl  2018 og var 366 daga frá keppni. Hann lék tvo leiki á síðustu leiktíð eftir að hann kom aftur til leiks. Alex var á varamannabekknum í úrslitaleik Meistaradeildarinnar á móti Tottenham. Hann er búinn að spila þrjá leiki á nýju leiktíðinni og varð Stórbikarmeistari í síðustu viku. 



,,Ég er virkilega spenntur. Þetta hefur verið í bígerð í nokkurn tíma og þess vegna er fínt að allt sé núna frágengið um að dvöl mín hér hefur verið framlengd. Ég verð áfram hérna og hlakka mikið til. Mér finnst að ég hafi misst ár úr ferli mínum og sú var auðvitað raunin. Þess vegna er ég auðvitað mjög spenntur yfir því að geta gert nýjan samning. Núna finnst mér að ég hafi fengið tækifæri til að gefa af mér og vinna upp tímann sem ég tapaði. Vonandi næ ég að spila vel og bæta upp fyrir árið sem ég var frá. Maður á að vera þakklátur í hvert skipti sem maður fær svona tækifæri. Það er ekki á hverjum degi sem maður á þess kost að spila fyrir hönd Liverpool Football Club."


Alex var búinn að spila frábærlega frá áramótum og þar til hann meiddist á móti Roma. Vonandi nær hann að komast aftur í sama form en það á eftir að taka tíma fyrir hann. Alex er búinn að spila 47 leiki fyrir Liverpool og skora fimm mörk.
TIL BAKA
Nýlegar fréttir
Fleiri fréttir
Fréttageymslan