| Grétar Magnússon

Spáð í spilin

Næsti leikur okkar manna er í Meistaradeildinni en þá verður belgíska liðið Genk heimsótt. Leikurinn hefst klukkan 19:00 miðvikudaginn 23. október.

Í dag var tilkynnt hvaða 19 leikmenn eru í hópnum sem ferðast til Belgíu og þar var eftirtektarvert að þeir Trent Alexander-Arnold og Joel Matip fóru ekki með. Alexand-Arnold á við einhver veikindi að stríða og Matip er meiddur í hné. Mohamed Salah er hinsvegar í hópnum og vonandi nær hann að taka þátt í þessum leik, annars er hópurinn skipaður eftirfarandi leikmönnum: Alisson, Fabinho, Van Dijk, Wijnaldum, Lovren, Milner, Keita, Firmino, Mane, Salah, Gomez, Adrian, Henderson, Oxlade-Chamberlain, Lallana, Brewster, Robertson, Origi, Kelleher.

Þá bárust fréttir af því í dag að Xerdan Shaqiri er staddur í Sviss til að ná sér góðum af meiðslum í kálfa og óvíst er hvenær hann snýr aftur.

Það ætti að vera ágætt tækifæri fyrir Jürgen Klopp að breyta aðeins liðinu í þessum leik en það má þó ekki vera of mikið þar sem Genk geta verið erfiðir heim að sækja. Þeir gerðu t.d. markalaust jafntefli í síðasta leik sínum í riðlakeppninni gegn Napoli heima og þeir verða auðvitað 100% klárir að mæta Evrópumeisturunum. Tímabilið heima fyrir hefur kannski ekki byrjað eins og þeir vildu en eftir að hafa spilað 10 leiki situr liðið í 6. sæti með 16 stig, 10 stigum á eftir toppliði Club Brugge. Genk hefur aðeins unnið tvo af síðustu fimm leikjum sínum í deildinni, um helgina mættu þeir Standard Liege á útivelli og niðurstaðan var 1-0 tap.

Líklegt er að þeir stilli upp í kerfinu 4-2-3-1 með sinn helsta markaskorara á tímabilinu Mbwana Ally Samatta fremstan. Samatta kemur frá Tanzaníu og hefur til þessa skorað fimm mörk á tímabilinu. Sé rennt yfir leikmenn Genk er ekki hægt að segja að mörg þekkt nöfn séu þar á meðal en eitt nafn stendur þó uppúr en það er rúmenski miðjumaðurinn Ianis Hagi. Hann er einmitt sonur besta leikmanns í sögu Rúmeníu Gheorghe Hagi sem meðal annars spilaði með Real Madrid og Barcelona á sínum ferli. Hagi yngri er aðeins 21 árs að aldri (á einmitt afmæli daginn sem þetta er skrifað, 22. október) og þykir mjög áþekkur knattspyrnumaður og faðir hans var. Mjög teknískur, jafnvígur á báða fætur og gerir mikið af því að leggja upp mörk eða hreinlega skora þau sjálfur. Til þessa hefur Hagi skorað þrjú mörk og lagt upp önnur tvö og ljóst er að hann má ekki fá mikið pláss í leiknum á morgun.


Hvað liðsuppstillingu okkar manna varðar er ljóst að Joe Gomez eða James Milner muni spila í hægri bakverði á morgun og líklega tekur Dejan Lovren sæti Joel Matip við hliðina á van Dijk. Miðjan er alltaf jafn mikið spurningamerki en miðjumennirnir sem komu inná gegn Manchester United á sunnudaginn (Alex Oxlade-Chamberlain, Naby Keita og Adam Lallana) mættu allir fá tækifæri mín vegna þó það sé kannski full sókndjörf miðja. Einnig er kannski kominn tími á að hvíla Fabinho aðeins og gæti Jordan Henderson leyst stöðu hans hefði ég haldið. Fremstu þrír er svo einnig ákveðið spurningamerki nú þegar Mohamed Salah er ekki alveg 100% klár miðað við fréttir. Ég tel líklegt að Salah byrji ekki þennan leik og þar hefur Klopp sennilega leikinn við Tottenham á sunnudaginn í huga. Líklega byrja þeir Roberto Firmino og Sadio Mané ásamt Divock Origi.

Þetta verður í fyrsta sinn sem Genk og Liverpool mætast og heilt yfir fjórða belgíska liðið sem Liverpool mætir í Evrópukeppni. Hin þrjú liðin eru Anderlecht, Standard Liege og Club Brugge en síðasti leikur Liverpool gegn belgísku liði var árið 2008. Þá var mótherjinn Standard Liege í 3. umferð undankeppni Meistaradeildar þar sem okkar menn stóðu uppi sem sigurvegarar eftir tvo leiki 1-0 samanlagt. Standard reyndust vera mjög erfiðir mótherjar en það skal reyndar tekið fram að var þetta tímabil upphafið að endalokum Rafa Benítez sem stjóra Liverpool.

En hvað sem því líður er ljóst að okkar menn þurfa helst að vinna Genk á útivelli til að styrkja stöðu sína í riðlinum betur. Salzburg og Napoli mætast í Austurríki og því verður að nýta sér það að annaðhvort liðið eða bæði tapa stigum þar.

Spáin að þessu sinni er sú að það tekst nú að kreista fram sigur á Belgunum og lokatölur verða 0-2 fyrir gestina. Það mun taka einhvern tíma að brjóta ísinn og bæði mörkin koma í seinni hálfleik.

Fróðleikur:

- Alisson mun að öllum líkindum spila sinn fyrsta Evrópuleik á tímabilinu.

- James Milner gæti spilað sinn 40. Evrópuleik fyrir félagið.

- Til þessa hefur Milner skorað fjögur mörk í Evrópukeppnum og öll hafa þau komið úr vítaspyrnum.

- Mohamed Salah er markahæstur leikmanna félagsins í Meistaradeildinni með tvö mörk.

- Dómari leiksins kemur frá Slóveníu og heitir Slavko Vincic, hann hefur dæmt einn leik hjá Liverpool áður en það var árið 2015 í leik gegn FC Sion í Evrópudeildinni. Lokatölur á Anfield voru 1-1.


TIL BAKA
Nýlegar fréttir
Fleiri fréttir
Fréttageymslan