| HI

Enn stelur VAR umræðunni frá fótboltanum

Umræðan um enska boltann eftir þessa helgi hefur enn og aftur farið að snúast um VAR í staðinn fyrir fótboltann sjálfan. Stuðningsmenn Liverpool eru margir hverjir svekktir, enda lék VAR liðið grátt um helgina.

Eins og menn muna alltof vel sem horfðu á leikinn tók VAR þrjár ákvarðanir í leiknum gegn Brighton sem allar gengu gegn Liverpool. Mark Mo Salah í fyrri hálfleik var dæmt af vegna rangstöðu sem enginn hefði séð með berum augum, en mælitækin sýndu að stóra táin var millimeter fyrir innan. Í seinni hálfleik var mark dæmt af Sadio Mane, sem var réttur dómur. Í lokin var svo dæmd vítaspyrna á Andrew Robertson sem enginn leikmaður Brighton hafði séð ástæðu til að biðja um og Danny Welbeck, sem brotið var á, sagði sjálfur eftir leikinn að þetta hefði verið strangur dómur og Graham Potter framkvæmdastjóri Brighton tók undir það.

Liverpool er langt í frá eina liðið í deildinni sem telur sig órétti beitt af VAR. En Liverpool hefur tölurnar sínu máli til stuðnings. ESPN tók allar ákvarðanir sem VAR hafði breytt á þessu tímabili saman og gaf liðunum stig ef þau græddu á ákvörðuninni, og mínus stig ef þau töpuðu á henni. Niðurstaðan var að Liverpool var neðst með -7 stig - hafði semsagt tapað mest á VAR af liðum deildarinnar. VAR hefur snúið tvöfalt fleiri ákvörðunum Liverpool í óhag en gegn nokkru öðru liðið í ensku úrvalsdeildinni - eða átta talsins. Sú eina sem var Liverpool í hag var rauða spjaldið á Andreas Christensen í leiknum gegn Chelsea, þegar hann kom í veg fyrir að Sadio Mane slapp einn í gegn. Þá var staðan 0-0 og Liverpool vann leikinn á endanum 2-0.

Afdrifaríkasta ákvörðunin er líklega þegar Sadio Mane var dæmdur rangstæður í aðdraganda þriðja marks Liverpool gegn Everton, sem Jordan Henderson skoraði. Það var, líkt og rangstaðan á Mo Salah gegn Brighton, eitthvað sem aldrei hefði sést með berum augum. Þetta eru ákvarðanir sem hafa kostað Liverpool fjögur stig - hinar ákvarðanirnar gerðu það ekki á endanum. 

Eins og sést á þessum langa texta er umræðan mikið til farin að snúast um framkvæmd ensku úrvalsdeildarinnar á VAR og minna um fótboltann sjálfan, sem er auðvitað sorglegt. En umræðan þarf að fara fram, og Peter Walton, fyrrverandi dómari tók hana í útsendingu BT-sport eftir leikinn á laugardag. Hann skoðaði þá sérstaklega vítaspyrnudóminn undir lokin, sem hann gagnrýndi. "Hann tekur samhengi brotsins út fyrir sviga og horfir í staðinn á þetta í hægri endursýningu. Hann sér að það er snerting - sem við getum öll séð - og tekur ákvörðunina út frá því. Mér finnst mörkin á því hvenær VAR grípur inn í hafa lækkað - þannig virkar það allaveganna á mig. Þið munið að VAR átti aðeins að taka fyrir augljós brot. Þó að það sé snerting þýðir það ekki að brot hafi verið framið. Þetta er íþrótt sem krefst líkamlegrar snertingar. Það sem ég vil velta upp er: Átti VAR að skipta sér af þessu broti eða átti að láta dómara leiksins um að ákveða þetta? Sumir segja að þetta sé víti, aðrir ekki, svo að þetta er ekki augljóst."

Þetta er stóra málið í framkvæmdinni á VAR og sífellt fleiri eru að tala um að þetta sé að draga allt skemmanagildi úr fótboltanum. En hvort það verður einhver breyting á framkvæmdinni verður að koma í ljós. 
TIL BAKA
Nýlegar fréttir
Fleiri fréttir
Fréttageymslan