| Sf. Gutt

Til hamingju!



Fabinho Tavarez lék sinn 100. leik með Liverpool á móti West Bromwich Albion. Brasilíumaðurinn hefur reynst mjög vel eftir að hann kom til Liverpool frá Monaco sumarið 2018.


Fabinho kostaði 43,7 milljónir sterlingspunda og þótt sumum mikið en Brasilíumaðurinn hefur sýnt að hann er með betri leikmönnum í sinni stöðu aftast á miðjunni. Nú síðustu vikurnar hefur hann líka sýnt að hann er magnaður miðvörður. 


Fabinho hóf ferilinn hjá Fluminese og fór svo til Rio Ave í Portúgal. Hann lék ekki með aðalliðum þessara félaga. Árið 2012 gekk hann til liðs við Real Madrid Castilla og þar hóf hann að spila. Ef rétt er skilið er Castilla nokkurs konar varalið Real Madrid. Fabinho lék sem lánsmaður hjá stórliði Real Madrid 2012/13 og lék einn leik með liðinu vorið 2013. Það sumar var Fabinho lánaður til franska liðsins Monaco og svo seldur þangað tveimur árum seinna. 


Fabinho varð lykilmaður í frábæru liði Monaco sem varð franskur meistari 2016/17. Hann vakti athygli stórliða og Liverpool keypti hann svo sumarið 2018.





Fabinho varð Evrópumeistari með Liverpool 2018/19 og vann svo Stórbikar Evrópu 2019. Hann var lykilmaður í liði Liverpool sem varð Englandsmeistari á síðasta keppnistímabili. Hann hefur nú leikið 100 leiki með Liverpool og skorað þrjú mörk.

Hann hefur af og til verið í landsliði Brasilíu en telst ekki enn fastamaður. Hann hefur leikið 12 landsleiki. 

Til hamingju með áfangann Fabinho!

TIL BAKA
Nýlegar fréttir
Fleiri fréttir
Fréttageymslan