| Grétar Magnússon

Spáð í spilin

Síðasti leikur ársins er gegn Newcastle á útivelli. Leikurinn hefst klukkan 20:00 miðvikudaginn 30. desember.

Árið hefur svo sannarlega verið gott og nú þarf að klára það á sem bestan hátt. Tímabilið, það sem af er, hefur kannski ekki verið alveg eins gott en það er varla hægt að kvarta þegar liðið situr í efsta sæti deildarinnar. Það sem hefur hinsvegar verið afskaplega pirrandi eru öll þessi meiðsli sem hrjáð hafa lykilmenn og í síðasta leik bættist Joel Matip í hópinn, eitthvað sem kemur kannski ekki á óvart hjá honum kallgreyinu. Naby Keita er svo enn og aftur einnig að glíma við einhver vöðvameiðsli og ekki er vitað hvað það tekur langan tíma að jafna sig á því. Góðar fréttir berast þó öðru hverju og fréttir segja að Thiago gæti mögulega verið í leikmannahópnum þó svo að Jürgen Klopp hafi reyndar sagt á blaðamannafundi að þessi leikur væri kannski ekki alveg raunhæfur möguleiki. Sem fyrr er meiðslalistinn svo skipaður þeim Tsimikas, Jota, Gomez og van Dijk auk þeirra tveggja áðurnefndu.

Ljóst er að annaðhvort Rhys Williams eða Nathaniel Phillips verði með Fabinho í miðvarðastöðunni í kvöld, ég hallast frekar að því að Williams byrji enda virðist hann vera aðeins ofar í goggunarröðinni, vörnin verður svo skipuð þeim leikmönnum sem við eigum að venjast. Sem fyrr er alltaf smá erfitt að spá í hverjir byrja á miðjunni en ég vona að Henderson og Wijnaldum byrji þá má Oxlade-Chamberlain alveg fylla síðasta plássið mín vegna. Það gæti þó alveg eins verið að Milner verði með eftir langa fjarveru, nú eða Shaqiri sem einnig hefur verið töluvert frá keppni. Fremstu þrír hljóta svo að vera þeir sömu og vanalega. Hvað heimamenn varðar eru þeir einnig í meiðslavandræðum sem tengjast að einhverju leyti kórónóveirusmitum í leikmannahópnum fyrr í mánuðinum. Alls eru sjö leikmenn skráðir fjarverandi, Saint-Maximin, Lascelles, Fraser, Dubravka, Dummett, Hendrick og Shelvey en þeir þrír síðastnefndu eiga einhvern smá séns á því að geta spilað.

Leikir okkar manna á St. James Park hafa verið farsælir í síðustu tveim heimsóknum þangað en þar á undan voru úrslitin meira í hag heimamanna, síðustu sex leikir á þessum velli hafa semsagt endað með tveim sigrum Liverpool, tveim jafnteflum og tveim sigrum Newcastle. Síðasta viðureign liðanna var í sumar þegar okkar menn unnu 1-3 sigur eftir að hafa lent undir mjög snemma leiks, en dæminu var snúið við með mörkum frá van Dijk, Origi og Mané.

Spáin að þessu sinni er á þá leið að árinu verður lokað með stæl og 0-3 sigur verður niðurstaðan. Tvö mörk koma í fyrri hálfleik og sigurinn tryggður með þriðja markinu um miðjan seinni hálfleikinn. Það er kannski óskhyggja að okkar menn haldi hreinu en við vonum það besta.

Fróðleikur:

- Liverpool eru í efsta sæti úrvalsdeildar með 32 stig eftir 15 leiki.

- Newcastle eru í því 15. með 18 stig eftir 14 leiki.

- Mohamed Salah er sem fyrr markahæstur Liverpool manna á tímabilinu í deildinni með 13 mörk.

- Callum Wilson er markahæstur Newcastle manna með 8 mörk í deildinni.

- Andy Robertson spilar líklega leik númer 150 fyrir félagið í öllum keppnum.




TIL BAKA
Nýlegar fréttir
Fleiri fréttir
Fréttageymslan