| Grétar Magnússon

Tap í Madrid

Liverpool mátti sætta sig við 3-1 tap gegn Real Madrid í fyrri leik liðanna í 8-liða úrslitum Meistaradeildar.

Jürgen Klopp gerði nokkrar breytingar á byrjunarliðinu frá síðasta leik. Eins og flestir bjuggust við kom Diogo Jota inn í framlínuna á kostnað Roberto Firmino. Á miðjunni komu þeir Naby Keita og Gini Wijnaldum inn fyrir James Milner og Thiago.

Snemma leiks má kannski segja að ljóst var í hvað stefndi. Okkar menn byrjuðu á hælunum, margar sendingar slakar og pressan léleg. Real menn gengu á lagið og voru mun beittari í sínum aðgerðum. Fyrsta markverða færið kom eftir góða rispu Mendy upp vinstri kantinn, hann sendi fyrir og Vinicius Junior átti skalla sem fór rétt framhjá markinu. Á 25. mínútu var svo Benzema nálægt því að sleppa í gegn en Kabak gerði vel í varnarvinnunni og færið rann út í sandinn. Tveim mínútum síðar voru heimamenn hinsvegar komnir í forystu. Toni Kroos fékk full langan tíma með boltann aftarlega á vellinum og hann sendi frábæra sendingu upp völlinn á Vinicius. Brasilíumaðurinn tók frábærlega við boltanum, tók þar með Nat Phillips algjörlega út úr jöfnunni og renndi svo boltanum framhjá Alisson í markinu. Á 36. mínútu komust heimamenn svo í 2-0 þegar enn ein háa sendingin fram völlinn skapaði vandræði og Alexander-Arnold gaf Asensio boltann á silfurfati með skrýtnum skalla. Asensio lyfti boltanum yfir Alisson og skoraði svo í autt markið. Rétt fyrir þetta mark Real hefði Sadio Mané hinsvegar átt að fá dæmt brot á varnarmann Real þegar hann var að sleppa einn í gegn. Dómarar leiksins sáu ekki ástæðu til að gera neitt í þessu og Mané uppskar gult spjald fyrir mótmæli sín. Skömmu fyrir hálfleik fékk Klopp svo nóg af ruglinu í sínum mönnum inná vellinum og skipti Thiago inn fyrir Keita. Real hefðu svo getað komist í 3-0 rétt fyrir hálfleik þegar Kabak gerði mistök og Asensio komst í fínt færi en Alisson varði. Hörmungar hálfleikur að baki og við stuðningsmenn þeirra rauðu mjög fegnir að heyra flaut dómarans.

Endurskipulagning Klopp í hálfleik virtist hafa gert eitthvað gott því gestirnir mættu sprækari til leiks í seinni hálfleik. Ekki voru nema sex mínútur liðnar af hálfleiknum þegar frábær sókn upp völlinn endaði með því að Salah skoraði flott mark eftir smá klafs í teignum þar sem skot frá Jota endaði fyrir fótunum á Egyptanum sem kláraði vel. Liverpool menn voru mun grimmari í pressunni og spilið var betra. Eftir rétt um klukkutíma leik þurfti svo Mendy að vera á tánum í teignum þegar Robertson sendi fyrir markið og Mané virtist vera kominn í úrvals færi, Mendy náði hinsvegar að hreinsa frá markinu. Skömmu síðar kom svo mikilvægt mark í einvíginu og því miður var það heimamanna. Liverpool átti hornspyrnu og Real komust í skyndisókn þar sem Alexander-Arnold bjargaði því að Benzema slyppi í gegn. Real fengu innkast og varnarmenn Liverpool voru algjörlega sofandi, Modric fékk boltann í teignum, fékk að snúa að marki og senda á Vinicius sem skaut í fyrsta framhjá Alisson. Eftir þetta gerðist fátt markvert og lokatölur því 3-1. Erfitt verkefni bíður því okkar manna í næstu viku.



Real Madrid: Courtois, Vázquez, Militao, Nacho, Mendy, Modric, Casemiro, Kroos, Asensio (Valverde, 70. mín.), Benzema, Vinicius Junior (Rodrygo, 85. mín.). Ónotaðir varamenn: Marcelo, Lunin, Odriozola, Isco, Mariano, Altube, Arribas, Chust.

Mörk Real Madrid: Vinicius Junior (27. og 65. mín.) og Asensio (36. mín.).

Gult spjald: Vázquez.

Liverpool: Alisson, Alexander-Arnold, Phillips, Kabak (Firmino, 81. mín.), Robertson, Keita (Thiago, 42. mín.), Fabinho, Wijnaldum, Salah, Jota (Shaqiri, 81. mín.), Mané. Ónotaðir varamenn: Adrián, Milner, Oxlade-Chamberlain, Jones, Tsimikas, Davies, R. Williams, Davies, Cain.

Mark Liverpool: Mohamed Salah (51. mín.).

Gul spjöld: Alexander-Arnold, Thiago og Mané.

Maður leiksins: Ég ætla að tilnefna Alisson enda kom hann í veg fyrir stærra tap með fínum vörslum. Annars var þetta frekar dapurt hjá flestum leikmönnum liðsins.

Jürgen Klopp: ,,Ef maður vill komast í undanúrslitin þá þarf maður að vinna sér inn rétt til þess. Við gerðum það ekki í kvöld, sérstaklega í fyrri hálfleik. Við spiluðum hreinlega ekki nógu góðan fótbolta til að valda Real Madrid vandræðum og gerðum hlutina of auðvelda fyrir þá. Það eina góða sem ég get tekið úr þessum leik, fyrir utan markið sem við skoruðum, er að seinni leikurinn er eftir. Við áttum ekki mikið skilið úr þessum leik en markið sem við skoruðum var fínt og gefur okkur líflínu."

Fróðleikur:

- Mohamed Salah hefur nú skorað 27 mörk á tímabilinu, fjórum mörkum meira en allt síðasta tímabil og jafnmörg mörk og tímabilið 2018-19.

- Salah er kominn með sex mörk í Meistaradeildinni það sem af er.

- Liverpool átti aðeins eitt skot á mark allan leikinn, sem betur fer endaði það í netinu. Liðinu tókst ekki að eiga eina einustu skottilraun allan fyrri hálfleikinn.


TIL BAKA
Nýlegar fréttir
Fleiri fréttir
Fréttageymslan