| Sf. Gutt

Trent Alexander-Arnold gerir nýjan samning!


Tilkynnt var í dag að Trent Alexander-Arnold hafi gert nýjan langtímasamning við Liverpool. Hermt er að samningurinn gildi til ársins 2025. Þetta eru að sjálfsögðu mjög góðar fréttir. 


Trent er alinn upp hjá Liverpool og lék sinn fyrsta leik fyrir hönd félagsins haustið 2016. Fljótlega varð ljóst að þessi strákur ætti framtíðina fyrir sér. Raunin hefur orðið sú að hann er orðinn miklu betri en flestir töldu að hann myndi verða. Hann er búinn að vera lykilmaður í liði Liverpool frá keppnistímabilinu 2017/18. Trent er einfaldlega einn af bestu hægri bakvörðum í heimi. Kannski ekki varnarlega en sóknarlega er hann með þeim allra bestu og hann hefur lagt upp urmul marka.


Trent hefur orðið Englandsmeistari, unnið Evrópubikarinn, Stórbikar Evrópu og Heimsmeistarakeppni félagsliða á stuttum ferli sínum og vonandi á hann eftir að bæta fleiri titlum í safn sitt. Hann hefur leikið 179 leiki með Liverpool og skorað tíu mörk. Stoðsendingar hans í öllum keppnum eru hvorki fleiri né færri en 43 talsins!




Trent hafði meðal annars þetta að segja þegar tilkynnt var um samninginn. ,,Það er mikill heiður að félagið sýni mér svona mikið traust og bjóði mér framlengingu á samningi mínum. Það var enginn spurning að skrifa undir. Ég er mjög stoltur. Það fylgir því alltaf mikið stolt að gera nýjan samning. Í raun er ég að upplifa draum minn á hverjum einasta degi. Mér finnst það vera forréttindi að vera fulltrúi félagsins og umgangast þekkt fólk, liðsfélaga mína og auðvitað þjálfara og starfsfólk. Þetta fólk skilar starfi sem er á heimsmælikvarða á hverjum degi. Ég er mjög lánsamur að vera í þeirri stöðu sem ég er í."
TIL BAKA
Nýlegar fréttir
Fleiri fréttir
Fréttageymslan