| Grétar Magnússon

Spáð í spilin

Önnur umferð riðlakeppni Meistaradeildar hefst í kvöld. Liverpool mætir Porto á útivelli klukkan 19:00.

Nýjasta nýtt í meiðslamálum eru góðar og slæmar fréttir. Við byrjum á slæmu fréttunum en Trent Alexander-Arnold ferðaðist ekki með liðinu til Portúgals og kom það nokkuð á óvart því hann hafði tekið þátt í æfingu fyrr um daginn. Ekkert hefur spurst út um hvað amar að og við förum að hafa áhyggjur strax af næsta deildarleik sem er gegn Manchester City á sunnudaginn kemur. Félagið hlýtur að gefa eitthvað út í dag um meiðslin en þangað til einbeitum við okkur að næsta leik. Góðu fréttirnar eru þær að Naby Keita hefur hafið æfingar á ný en þessi leikur kemur hinsvegar aðeins of fljótt fyrir hann. Þeir Thiago og Harvey Elliott eru svo sem fyrr á meiðslalistanum. Hjá Porto er varnarmaðurinn léttruglaði Pepe tæpur fyrir leikinn og Chancel Mbemba er í leikbanni.

Eins og venjulega er frekar erfitt að spá fyrir um byrjunarlið okkar manna og ekki verður verkefnið léttara þegar giska þarf á hver leysir Alexander-Arnold af hólmi. Neco Williams ferðaðist með liðinu til Portúgals en hann hefur ekki fengið margar mínútur af leiktíma það sem af er tímabils. James Milner er auðvitað tiltækur og það er líklegasta ágiskunin að hann byrji í hægri bakverði. Hinumegin gæti Kostas Tsimikas alveg fengið sénsinn á kostnað Andy Robertson og Klopp gæti alveg hrist upp í miðvarðaparinu einnig. Hverjir verða á miðjunni er svo sami hausverkurinn að spá fyrir um og fremstu þrír gætu líka breyst frá síðasta leik þar sem Firmino er jú mættur til leiks á ný. Ég læt það bara alveg vera að spá fyrir um byrjunarlið, nema það að Alisson verður í markinu. Hitt kemur bara í ljós og við treystum sem fyrr á þjálfarateymið í þessum efnum.

Bæði lið eru taplaus í deildinni það sem af er. Porto hafa leikið sjö leiki í deild, unnið fimm og gert tvö jafntefli. Þeir gerðu svo fínt jafntefli á Spáni gegn Atletico Madrid í fyrstu umferð riðlakeppninnar. Drekavellir, heimavöllur Porto, hefur reynst Liverpool vel undanfarin ár og síðustu tveir leikir þar hafa endað með markatölunni 9-1 þeim rauðu í vil. Báðir þessir leikir voru í útsláttarkeppni Meistaradeildar en síðast voru liðin saman í riðlakeppninni tímabilið 2007-08. Þá gerðu liðin 1-1 jafntefli í Portúgal og leikurinn á Anfield vannst 4-1. Fyrstu leikir liðanna í Evrópukeppni voru árið 2001 þegar okkar menn stóðu uppi sem sigurvegarar í fimmtu umferð UEFA Cup. Fyrri leikurinn endaði markalaus í Porto og seinni leikurinn vannst 2-0 á Anfield. Eins og mörgum er kunnugt stóð Liverpool svo uppi sem sigurvegari í keppninni um vorið. Á þessu er því ljóst að ekki hefur tapleikur litið dagsins ljós hjá þeim rauðu í Porto og við vonum að það breytist ekki í kvöld.

Spáin að þessu sinni er sú að gestirnir bera sigur úr býtum, lokatölur 1-2 í skemmtilegum leik.

Fróðleikur:

- Jordan Henderson spilar líklega sinn 400. leik fyrir félagið í öllum keppnum.

- Liverpool eru með þrjú stig í fyrsta sæti riðilsins, Porto hafa eitt stig.

- Mohamed Salah er sem fyrr markahæstur okkar manna á tímabilinu með sex mörk alls, þar af eitt í Meistaradeild.

- Markahæstur hjá Porto það sem af er er Íraninn Mehdi Taremi með fjögur mörk.


TIL BAKA
Nýlegar fréttir
Fleiri fréttir
Fréttageymslan