| Grétar Magnússon

Spáð í spilin

Stórleikur umferðarinnar er á Stamford Bridge í London þegar Liverpool heimsækir Chelsea. Leikurinn hefst klukkan 16:30 sunnudaginn 2. janúar.

Kórónuveiran hefur heldur betur sett strik í reikninginn hjá mörgum liðum á Englandi undanfarið og þar eru okkar menn ekki undanskildir. Jürgen Klopp er smitaður og Pep Lijnders stýrir liðinu frá hliðarlínunni. Þá staðfesti Klopp það á blaðamannafundi á gamlársdag að þrír leikmenn eru einnig smitaðir og sagði að þegar byrjunarliðið verður tilkynnt mun öllum vera ljóst hvaða þrír leikmenn þetta eru. Þeir Alisson og Roberto Firmino voru víst ekki sjáanlegir á æfingu á fimmtudaginn og því vilja margir meina að þeir séu tveir af þessum þremur ný smituðu og svo hefur nafn Naby Keita einnig verið nefnt og því gæti verið að þessir þrír verði ekki tiltækir. Liverpool hafa enn sem komið er ekki óskað eftir frestun á leiknum en það er alveg hugsandi að fleiri smit hafi greinst og við sjáum til hvað gerist þegar líður á leikdag. Klopp nefndi einnig að Thiago og Minamino verði ekki með vegna meiðsla en sá síðarnefndi er þó byrjaður að hlaupa en eitthvað lengra er í Spánverjann. Andy Robertson tekur út sinn síðasta leik í leikbanni og aðrir á meiðslalistanum eru Phillips, Origi, Adrián og Elliott. Hjá Chelsea eru þeir James, Christensen, Werner, Loftus-Cheek og Chilwell allir frá vegna meiðsla og Thiago Silva er tæpur.

Ef við reynum að setja saman byrjunarlið gestanna í þessum leik með tilliti til alls þá verður Kelleher líklega í markinu. Tsimikas og Alexander-Arnold bakverðir og van Dijk og Matip með þeim í vörninni. Á miðjunni tippa ég á að þeir Henderson, Fabinho og Oxlade-Chamberlain byrji, fremstu þrír eru eins og áður sjálfvaldir með þá Jota, Mané og Salah en eins og flestir vita verður þetta síðasti leikur Mané og Salah í bili þar sem Afríkukeppnin bíður þeirra eftir leikinn. Bekkurinn verður eitthvað þunnskipaður og við munum sjá einhverja ungliða sitja þar.

Liverpool hefur gengið alveg ágætlega í síðustu leikjum sínum á Stamford Bridge en fjórir af síðustu sex deildarleikjum þar hafa unnist, einn endað jafn og einn tapast. Við höfum það þó í huga að þetta verður í fyrsta skipti sem Thomas Tuchel stýrir Chelsea á heimavelli gegn Liverpool. Á síðasta tímabili mættust liðin snemma og Frank Lampard var þá stjóri bláliða í leik sem Liverpool vann 0-2 með mörkum í seinni hálfleik frá Mané. Liðin hafa mæst áður á þessu tímabili, nánar tiltekið þann 28. ágúst síðastliðinn og þá enduðu leikar 1-1.

Okkur stuðningsmönnum finnst eins og titilbaráttan sé að renna okkur úr greipum eftir tap í síðasta leik gegn Leicester. Chelsea hafa hikstað líka en topplið Manchester City heldur sínu striki og gerir lítið annað en að vinna leiki. Liverpool geta lítið annað gert en einblína á næsta leik og reyna að vinna hann. Ég neita að trúa því að liðið spili jafn illa og það gerði gegn Leicester og leikmenn vilja ábyggilega bæta upp fyrir slaka frammistöðu þar.

Spáin er erfið núna en eitthvað segir mér að það takist að vinna sigur með herkjum. Lokatölur 1-2 í svakalega skemmtilegum leik.

Fróðleikur:

- Mohamed Salah er markahæstur Liverpool manna í deildinni með 15 mörk.

- Hjá Chelsea er Mason Mount markahæstur í deildinni með sjö mörk.

- Trent Alexander-Arnold spilar líklega sinn 200. leik fyrir Liverpool í öllum keppnum.

- Fabinho spilar líklega sinn 100. deildarleik fyrir félagið.




TIL BAKA
Nýlegar fréttir
Fleiri fréttir
Fréttageymslan