| Sf. Gutt

Áfram í úrslit á Wembley!


Loksins Loksins! Liverpool er komið í úrslitaleik í bikarkeppni á Wembley. Liverpool vann Arsenal 0:2 í London í seinni undanúrslitaleik liðanna í Deildarbikarnum og er komið í úrslit! Frábærar fréttir!

Eins og við var að búast voru flestir sterkustu leikmenn Liverpool sendir til leiks. Tveir ungliðar voru þó í liðinu. Caoimhin Kelleher stóð í markinu og Kaide Gordon fékk sæti í framlínunni. 

Andrúmsloftið var rafmagnað fyrir leikinn og stuðningsmenn Arsenal hvöttu liðið af krafti. Heimamenn byrjuðu leikinn af gríðarlegum krafti og hver sóknin rak aðra. Á 5. mínútu fékk Arsenal aukaspyrnu rétt utan vítateigs Liverpool. Alexandre Lacazette tók spyrnuna. Boltinn stefndi upp í hægra hornið en Caoimhin var vandanum vaxinn skutlaði sér og náði að verja boltann í slána og yfir. Frábær markvarsla hjá Íranum unga sem er sannarlega búinn að standa sig vel í þeim leikjum sem hann hefur spilað!

Eftir orrahríð Arsenal á fyrstu mínútunum náði Liverpool tökum á leiknum og á 19. mínútu breyttist gangur mála heldur betur. Trent Alexander-Arnold sendi fram á Diogo Jota. Portúgalinn tók á sprett fram að vítateig Arsenal þaðan sem hann skaut boltanum framhjá tveimur varnarmönnum. Skotið virtist ekki fullkomlega heppnað en boltinn hafnaði neðst í vinstri horninu óverjandi fyrir Aaron Ramsdale. Heimamenn voru slegnir út af laginu við markið og Liverpool hélt sínu fram að leikhléi.

Joël Matip fór af velli í hálfleik og er hann sennilega meiddur. Snemma í síðari hálfleik komst Alexandre í skotfæri við vítateiginn en skaut hátt yfir. Á 51. mínútu tók Diogo mikinn sprett fram vinstri kantinn, lék að endamörkum og sendi til baka út í teiginn á Kaide en unglingurinn mokaði boltanum yfir úr opnu færi. Á 59. mínútu fékk Liverpool horn. Upp úr horninu sendi Trent fyrir á Ibrahima Konaté, sem kom inn fyrir Joël, en skalli hans fór í stöng. Jordan Henderson náði frákastinu en var dæmdur rangstæður.

Liverpool hafði undirtökin og það kom í sjálfu sér ekki á óvart að liðið kæmist tveimur mörkum yfir á 77. mínútu. Leikmaður Arsenal lék fram völlinn en rann til og missti boltann. Fabinho Tavarez tók við boltanum og kom honum á Trent. Hann var fljótur að átta sig og sendi háa sensingu fram á Diogo sem stakk sér inn fyrir vörnina. Hann, lagði boltann fyrir sig með brjóstkassanum og lék að vítateignum. Hann lyfti svo boltanum meistaralega yfir Aaron sem kom út á móti honum. Boltinn hafnaði í markinu en línuvörðurinn dæmdi rangstæðu. Allt var skoðað fram og aftur í sjónvarpinu og niðurstaðan var sú að Diogo var réttstæður. Það kemur fyrir að sjónvarpið dæmir rétt! Gríðarlegur fögnuður leikmanna og stuðningsmanna Liverpool uppphófst í annað sinn!

Sigur Liverpool var í höfn. Viðspyrna Arsenal var löngu brotinn þegar varamaðurinn Thomas Partey lét reka sig út af í lokin. Stuðningsmenn Liverpool sungu sigursöngva og loksins var Liverpool komið í úrslit í enskri bikarkeppni! Mál til komið!

Arsenal: Ramsdale, Tomiyasu, White, Gabriel, Tierney, Sambi Lokonga, Saka, Ødegaard, Smith Rowe (Partey 74. mín.), Martinelli og Lacazette (Nketiah 74. mín.). Ónotaðir varamenn: Holding, Tavares, Alebiousu, Hein, Biereth, Oulad M'hand og Patino.

Gul spjöld: Alexandre Lacazette, Takehiro Tomiyasu og Thomas Partey.

Rautt spjald: Thomas Partey.

Liverpool: Kelleher, Alexander-Arnold, Matip (Konaté 45. mín.), van Dijk, Robertson, Henderson (Milner 75. mín.), Fabinho, Jones, Gordon (Minamino 63. mín.), Firmino (N. Williams 84. mín.) og Jota. Ónotaðir varamenn: Alisson, Adrián, Gomez, Tsimikas og Morton.

Mörk Liverpool: Diogo Jota (19. og 77. mín.).

Gul spjöld: Ibrahima Konaté, Curtis Jones og Takumi Minamino.

Áhorfendur á Emirates leikvanginum: 59.360.


Maður leiksins: Diogo Jota. Kannski voru einhverjir betri en Portúgalinn skoraði mörkin sem komu Liverpool alla leið til Wembley. Bæði mörkin glæsileg!

Jürgen Klopp: Stemmningin í búningsherberginu er alveg stórfengleg. Strákarnir voru alveg magnaðir. Arsenal voru líflegir í byrjun leiksins. En svo náðum við að róa leikinn og spila góða knattspyrnu. Við höfum lagt mikið á okkur í keppninni og okkur langaði virkilega að komast áfram!"

Fróðleikur

- Liverpool leikur til úrslita um Deildarbikarinn við Chelsea 27. febrúar.

- Liverpool hefur unnið Deildarbikarinn átta sinnum.  

- Diogo Jota er nú búinn að skora 14 mörk á leiktíðinni. 

- Andrew Robertson lék sinn 200. leik með Liverpool. Hann hefur skorað sex mörk og lagt upp 44.

- Liverpool hefur haldið hreinu í síðustu fimm leikjum á móti Arsenal. 

TIL BAKA
Nýlegar fréttir
Fleiri fréttir
Fréttageymslan