| Grétar Magnússon

Sigur í London

Liverpool vann frábæran 0-2 sigur á Arsenal í 29. umferð úrvalsdeildarinnar. Eftir jafnan fyrri hálfleik skoruðu okkar menn mörkin tvö með stuttu millibili í seinni hálfleik.

Jürgen Klopp stillti upp liðinu eins og flestir áttu von á en reyndar settist Mohamed Salah á bekkinn enda náði hann bara einni æfingu fyrir leik. Diogo Jota kom inní byrjunarliðið í hans stað og Thiago tók sæti Naby Keita á miðjunni. Byrjun leiksins var algjörlega Liverpool manna sem unnu þrjár hornspyrnur á fyrstu mínútum leiksins. Uppúr einni slíkri skallaði van Dijk að marki úr miðjum teig en Ramsdale í markinu sló boltann til hliðar. Hinumegin var Martinelli í fínni stöðu til að senda fyrir markið en Robertson hreinsaði frá í markteignum. Eins og áður sagði var þetta mjög jafn leikur og bæði lið fengu ekki nein afgerandi færi og ekki höfðu markverðirnir mikið að gera heldur. Liðin skiptust á að vera með boltann og reyna að finna glufur á varnarvegg andstæðinganna. Undir lok hálfleiksins tókst Alexander-Arnold að senda Mané í gegn en hann skaut yfir markið úr teignum og undir pressu frá varnarmanni Arsenal. Strax eftir þetta færi var flautað til hálfleiks.

Mané tókst svo að koma boltanum í netið í upphafi seinni hálfleiks en var greinilega rangstæður þegar sendingin kom. Áfram hélt Martinelli að ógna fyrir Arsenal menn vinstra megin og hann komst inná teiginn með flottum einleik en sending hans fyrir markið hitti ekki á samherja. Á 51. mínútu gerði Thiago svo heiðarlega tilraun til að gefa Arsenal forskot í leiknum þegar hann sendi boltann til baka. Lacazette var fyrir innan og þakkaði pent fyrir sig, renndi boltanum á Ödegaard sem ætlaði að þruma í markið. En Alisson gerði sig breiðan og varði boltann með hendinni, gríðarlega mikilvæg varsla og staðan ennþá markalaus. Það var hún hinsvegar ekki mjög lengi því að Thiago bætti fyrir mistök sín nokkrum mínútum síðar. Hann sendi boltann innfyrir á Jota sem lék inní teiginn, utarlega vinstra megin. Hann þrumaði á nærstöngina, Ramsdale kom engum vörnum við þar og boltinn söng í netinu við gríðarlegan fögnuð. Strax eftir markið komu þeir Salah og Firmino inná fyrir Jota og Díaz. Síðasta snerting Jota var því þetta frábæra mark sem skipti svo miklu máli. Átta mínútum eftir mark Jota var sigurinn nánast gulltryggður. Boltinn barst á milli leikmanna beggja liða í teignum og svo út til Robertson sem skaut en Saka komst fyrir skotið. Boltinn var á leiðinni í innkast og Saka hugðist senda hann fram völlinn en Robertson náði boltanum, lék uppað endamörkum og sendi fyrir þar sem Firmino snerti boltann rétt nógu mikið til að stýra honum í netið. Frábærlega gert hjá þeim báðum og gott ef fagnaðarlætin voru ekki töluvert meiri nú en í fyrsta markinu.



Eftir þetta róaðist leikurinn niður og liðin fengu svosem ekki nein afgerandi færi fyrir utan skot frá Martinelli, seint í leiknum, sem fór hárfínt framhjá. Curtis Jones kom inná fyrir Thiago á lokamínútum leiksins og okkar menn sigldu þessu heim. Lokatölur 0-2 !

Arsenal: Ramsdale, Cédric Soares, White, Gabriel, Tierney, Partey, Xhaka, Saka (Pépé, 74. mín.), Ödegaard (Smith Rowe, 67. mín.), Martinelli, Lacazette (Nketiah, 80. mín.). Ónotaðir varamenn: Leno, Holding, Tavares, Sambi Lokonga, Elneny, Swanson.

Liverpool: Alisson, Alexander-Arnold, Matip, van Dijk, Robertson, Henderson, Fabinho, Thiago (Jones, 90. mín.), Mané, Jota (Firmino, 56. mín.), Díaz, (Salah, 56. mín.). Ónotaðir varamenn: Kelleher, Konaté, Gomez, Keita, Oxlade-Chamberlain, Minamino.

Mörk Liverpool: Diogo Jota (54. mín.) og Roberto Firmino (62. mín.).

Gult spjald: Firmino.

Maður leiksins: Varnarlínan var öll mjög góð í þessum leik en heilt yfir fannst mér Robertson standa sig hvað best. Hann hreinsaði oft frá marki á réttum tíma og var alltaf duglegur að fylgja sínum manni með hlaupi inní teig. Nú svo lagði Skotinn upp seinna mark leiksins líka þannig að hann er vel að þessari útnefningu kominn.

Jürgen Klopp: ,,Að koma hingað og vinna gegn Arsenal er auðvitað mjög sérstakt en alveg sérstaklega núna vegna þess hvernig leikurinn spilaðist. Við byrjuðum mjög vel en svo opnaðist leikurinn. Við vildum gera betur í seinni hálfleik og okkur tókst það."

Fróðleikur:

- Diogo Jota skoraði sitt 13. deildarmark á leiktíðinni og það 18. í öllum keppnum.

- Roberto Firmino skoraði sitt fimmta deildarmark og það níunda í öllum keppnum.

- Sigurinn var útisigur númer 100 hjá Jürgen Klopp með Liverpool, að undanskildum hlutlausum leikvöngum.

- Liverpool hafa nú jafnað heildarstigafjölda frá síðasta tímabili, 69 stig.

- Í fyrsta sinn í sögunni tókst okkar mönnum að vinna þrjá leiki í röð (í öllum keppnum) gegn Arsenal á þeirra eigin heimavelli.

- Roberto Firmino hefur nú skorað níu mörk í 14 leikjum og Diogo Jota sjö mörk í sjö leikjum gegn Skyttunum.

- Liverpool hafa nú unnið Arsenal heima og úti tvö tímabil í röð í aðeins annað skiptið í sögunni.

- Liverpool hefur tekist að halda hreinu gegn Arsenal í síðustu sex leikjum liðanna í öllum keppnum.

- Eftir leikinn sitja okkar menn í 2. sæti með 69 stig.

- Arsenal eru í fjórða sæti með 51 stig.




TIL BAKA
Nýlegar fréttir
Fleiri fréttir
Fréttageymslan