| Sf. Gutt

Spáð í spilin


Liverpool vs Manchester City

Hundraðasti Skjaldarleikurinn! Liverpool og Manchester City leiða saman hesta sína í Leicester. Vonandi er komið að sigri Liverpool eftir tvö töp í Skjaldarleikjum síðustu þrjú árin. Liverpool kemur nú til leiks í Skjaldarleik í fyrsta sinn sem enskur bikarmeistari í fyrsta sinn frá því 2006 og þá vann Liverpool einmitt Skjöldinn síðast!

Liverpool hefur ekki haft heppnina með sér í síðustu tveimur Skjaldarleikjum. Liðið átti að vinna Manchester City 2019 og eins hefði liðið átt að hafa sigur á móti Arsenal ári seinna. Í báðum leikjum tapaði Liverpool í vítaspyrnukeppnum eftir að hafa jafnað leikina og verið sterkari undir lokin. En það tjáir ekki að fást um það. 





Það er alltaf góðs viti að komast í Skjaldarleiki og nú fær Liverpool þátttökurétt eftir að hafa unnið FA bikarinn í vor. Reyndar er Liverpool tvöfaldur bikarmeistari. Það hefði verið talið mikið afrek fyrr á árum en nú hefur vægi ensku bikarkeppnanna minnkað. En þó svo að Liverpool hafi misst af tveimur stærstu titlunum í vor þá voru sigrarnir í Deildarbikarnum og FA bikarnum sætir og vel þegnir eftir langa bið á þeim vettvangi!


Liverpool og Manchester City mætast í Skjaldarleik í annað sinn á fjórum árum. Það segir býsna mikið til um gott gengi liðanna í ensku knattspyrnunni síðustu árin. Liverpool spilaði svo í leiknum 2020 og Manchester City í fyrra. City hefur átt sæti í fjórum af síðustu fimm Skjaldarleikjum. Það segir sína sögu. Liverpool og Manchester City hafa einfaldlega verið yfirburðalið á Englandi síðustu árin!


Það er erfitt að ráða í leikinn á morgun. Þrír lykilmenn Liverpool eru meiddir. Alisson Becker, Alex Oxlade-Chamberlain og Diogo Jota meiddust á undirbúningstímabilinu og það er slæmt að hafa þá ekki til taks. Svo er Caoimhin Kelleher líka meiddur og því mun Adrián San Miguel að öllum líkindum standa í markinu. Nú er Sadio Mané ekki lengur á svæðinu og það er litið til Darwin Nunez sem arftaka hans. Hann er vissulega spennandi leikmaður en á eftir að venjast ensku knattspyrnunni. 



Liverpool og Manchester City mættust þrisvar á síðasta keppnistímabili. Báðir deildarleikirnir enduðu 2:2 en Liverpool vann 3:2 í undanúrslitum FA bikarsins. Ég spái því að Liverpool hafi betur 2:1 á King Power leikvanginum í Leicester. Mohamed Salah og Virgil van Dijk skora. Liverpool vann Samfélagsskjöldinn síðast 2006 sem bikarmeistari. Vonandi endurtekur sagan sig frá því þá. Ensku bikararnir unnust eftir langt hlé fyrr á árinu og vonandi endar biðin eftir Skildinum á morgun!

YNWA!


TIL BAKA
Nýlegar fréttir
Fleiri fréttir
Fréttageymslan