| Sf. Gutt

Spáð í spilin



Eftir metsigur Liverpool um síðustu helgi reikna líklega flestir með að næsti leikur verði líka sigur hjá tvöföldu bikarmeisturunum. En næsti leikur verður mun erfiðari. Margir sögðu að risasigur Liverpool á Bournemouth hafi gefið til kynna að liðið væri komið í gang eftir að hafa verið án sigurs í fyrstu þremur leikjum deildarinnar. En líklega kemur betur í ljós á móti Newcastle United annað kvöld hvort Liverpool sé komið almennilega í gang.

Newcastle United hefur keypt fyrir risaupphæðir í sumar enda eru nýju eigendur félagsins moldríkir svo ekki sé meira sagt. Liðið hefur byrjaði leiktíðina býsna vel en er samt bara stigi á undan Liverpool. Líklega má segja að liðið lofi góðu og verði örugglega mun betra en á síðasta keppnistímabili en þá var það lengi vel í fallbaráttu. Skjórarnir hafa bætt liðsheild sína og það er meiri barátta í liðinu en var. 


Mikið hefur verið rætt og ritað um þörf Liverpool fyrir nýja menn og þá sérstaklega miðjumenn. Ekkert hefur bæst við leikmannahópinn síðustu daga og það er eiginlega ekki útlit fyrir að liðshópurinn stækki fyrir miðnætti á fimmtudagskvöldið. En einn miðjumaður er að nálgast að geta farið að æfa og spila á nýjan leik. Ungliðinn Curtis Jones er sem sagt á batavegi. Eins er Joel Matip að verða leikfær eftir að hafa misst af síðustu þremur leikjum. Ekki er víst að þeir Curtis og Joel verði í aðalliðshópnum annað kvöld en það er gott að vita til þess að útlit sé á fækkun á meiðslalistanum.


Svo verður Darwin Nunez löglegur eftir leikinn annað kvöld. Hann hefur þá setið af sér þriggja leikja bannið. Það verður sannarlega gott að fá Darwin í hópinn fyrir grannaslaginn við Everton á laugardaginn. 


Eins og allir vita rótburstaði Liverpool Bournemouth 9:0 um helgina. Vissulega gekk allt upp hjá Liverpool. Það er ekki hægt að vinna svona stórsigra nema allt gangi upp. En leikmenn Liverpool voru tilbúnir í slaginn frá fyrstu mínútu á laugardaginn og það viðhorf er vonandi komið til að vera. Í það minnsta þarf Liverpool að spila mjög vel til að vinna sigur á Newcastle. Jafnvel ennþá betur en á móti Bournemouth!

Eftir einungis einn sigur í fjórum fyrstu deildarleikjunum er ekkert svigrúm fyrir að dragast frekar aftur úr þeim liðum sem flest stig hafa fengið hingað til. Ég spái því að Liverpool vinni 2:0 sigur á Newcastle. Luis Díaz og Roberto Firmino skora mörk Liverpool. Það verður að halda áfram á sömu braut og í leiknum á móti Bournemouth!

YNWA!


TIL BAKA
Nýlegar fréttir
Fleiri fréttir
Fréttageymslan