| Sf. Gutt

Spáð í spilin



Manchester City vs Liverpool

Heimsmeistarakeppnin er að baki. Liverpool og Manchester City leiða saman hesta sína í Manchester annað kvöld. Þessi lið hafa unnið Deildarbikarinn síðustu fimm árin sem keppnin hefur farið fram og því getur ekki verið annað en um stórleik að ræða.


Sem fyrr segir er HM að baki. Argentínumenn unnu þar sanngjarnan sigur. Keppnin var auðvitað löng og ströng. Samkvæmt útgefnum útreikningum léku leikmenn Manchester City flestar mínútur ef mið er tekið af þátttöku leikmanna einstakra félagsliða á HM. Sú staðreynd hefur örugglega áhrif á val liðs City á morgun. Á móti kemur að Liverpool getur líklega notað þá leikmenn sem vill nema þá Ibrahima Konaté sem lék úrslitaleikinn með Frökkum á sunnudaginn. Hann fær að sjálfsögðu eitthvað frí eftir öll átökin. 

Segja má að Liverpool hafi ekki getað fengið erfiðari mótherja en Manchester City á þeirra eigin heimavelli. Liverpool hefur titil að verja og vonandi verður sterkt lið sent til leiks. Liverpool hefur mikið notað unga leikmenn í Deilarbikarnum síðustu leiktíðir. Það gafst vel á síðustu leiktíð að gera það en reyndar komu reyndir leikmenn líka við sögu. 


Liverpool og Manchester City hafa leikið tvívegis á leiktíðinni. Liverpool hefur unnið báða leikina. Fyrst Skjaldarleikinn og svo á Anfield í deildinni. Það verður ekkert áhlaupaverk að vinna City þriðja leikinn í röð. En ég spái því að það takist. Liverpool vinnur 0:2. Darwin Núñez skorar bæði mörkin!

YNWA!


TIL BAKA
Nýlegar fréttir
Fleiri fréttir
Fréttageymslan