| Sf. Gutt

Góður sigur í Newcastle!


Liverpool vann góðan 0:2 sigur í Newcastle núna í kvöld. Liverpool varð fyrst liða til að vinna á St James' Park í deildinni á þessari leiktíð. 

Liverpool gerði vel á mánudagskvöldið með því að vinna Everton 2:0 á Anfield Road. Ein breyting var gerð á liðinu frá þeim leik. Virgil van Dijk kom inn í liðið eftir að hafa verið frá vegna meiðsla frá því í byrjun ársins. Joe Gomez hélt stöðu sinn. 

Newcastle hóf leikinn af krafti og á 4. mínútu komst Miguel Almirón í færi eftir sendingu Allan Saint-Maximin en Alisson Becker varði vel. Þessi markvarsla lagði grunninn að því að Liverpool komst yfir á 10. mínútu. Trent Alexander-Arnold sendi frábæra sendingu fram á Darwin Núnez sem slapp einn í gegnum miðja vörn heimamanna. Hann lék inn í vítateiginn og hamraði boltann framhjá Nick Pope. Vel gert hjá Darwin. Sjö mínútum seinna bætti Liverpool í. Gott samspil endaði með snjallri sendingu Mohamed Salah inn í vítateiginn á Cody Gakpo. Hollendingurinn tók við boltanum í miðjum vítateignum og smellti honum í markið! Frábær staða!

Á 22. mínútu náði Alisson boltanum eftir horn og spyrnti honum langt frá á Mohamed sem fór í kapphlaup um boltann við Nick markmann Newcastle. Hann henti sér fram og virtist ætla að skalla boltann. Það mistókst og framhaldinu handlék hann boltann. Dómarinn rat ekki annað en rekið Nick af velli og Liverpool nú manni fleiri. 

Heimamenn lögðu ekki árar í bát og á 31. mínútu átti Allan skot sem Alisson varði. Boltinn hafnaði svo í þverslánni. Tíu mínútum seinna munaði aftur litlu að Newcastle minnkaði muninn þegar Dan Burn skallaði í þverslá. Liverpool hélt því forystunni inni í hálfleikshlé. 

Síðari hálfleikur var lengi tíðindalítill. Liverpool skipti á fjórum mönnum á 59. mínútu og var greinilega verið að hugsa til Evrópuleiksins við Real Madrid á þriðjudagskvöldið. Einn af þeim sem fór af velli var Darwin Núnez sem kveinkaði sér vegna óþæginda á öxl. Vonandi er það ekki alvarlegt. 

Heimamenn börðust vel og reyndu hvað þeir gátu manni færri en Liverpool hélt sínu. Callum Wilson komst inn í vítateiginn þegar átta mínútur voru eftir en Alisson varði vel með úthalupi. Þegar tvær mínútur voru eftir sendi Andrew Robertson fyrir á varamanninn Diogo Jota en hann skallaði framhjá úr dauðafæri. Rétt á eftir gaf Trent á Diogo en Portúgalinn skallaði aftur framhjá. Hann átti svo skot framhjá í viðbótartíma. Diogo hefði því getað skorað þrennu á lokamínútunum. Liverpool fagnaði samt sem áður góðum sigri!

Liverpool spilaði vel í leiknum. Það hjálpaði vissulega til að vera manni fleiri en Liverpool var reyndar komið tveimur mörkum yfir þegar að því kom. Leikmenn Liverpool hafa vaxið að sjálfstrausti í tveimur síðustu leikjum og það veitti ekki af að bæta á í því efni! Með sjálfstrausti er allt hægt!

Newcastle United: Pope, Trippier (Murphy 64. mín.), Schär, Botman, Burn, S. Longstaff, Joelinton (Ritchie 71. mín.), Anderson (Dúbravka 24. mín.), Almirón (Gordon 64. mín.), Isak (Wilson 64. mín.) og Saint-Maximin. Ónotaðir varamenn: Dummett, Lascelles, Lewis og Manquillo.

Rautt spjald: Nick Pope.

Gult spjald: Miguel Almirón.

Liverpool: Alisson, Alexander-Arnold, Gomez, van Dijk, Robertson, Henderson (Elliott 59. mín.), Fabinho, Bajcetic (Milner 59. mín.), Salah, Gakpo (Jota 59. mín.) og Núnez (Firmino 59. mín.). Ónotaðir varamenn: Kelleher, Keïta, Tsimikas, Matip og Phillips.

Mörk Liverpool: Darwin Núnez (10. mín.) og Cody Gakpo (17. mín.).

Gult spjald: Fabinho Tavarez. 

Áhorfendur á St James Park: 52.758.

Maður leiksins: Alisson Becker. Brasilíumaðurinn var frábær í markinu. Hann varði þrívegis sórvel og lagði grunninn að sigri Liverpool. 

Jürgen Klopp: ,,Þegar maður er ekki upp á sitt besta verður að berjast fyrir öllu. Það gerðum við og með því náðum við öðrum sigri okkar í röð. Ef satt skal segja þá fylgir því frábær tilfinning. Það er langt frá því við höfum upplifað þessa tilfinningu. Þess vegna er þetta góður dagur."

Fróðleikur

- Darwin Núnez skoraði 11. mark sitt á leiktíðinni. 

- Cody Gakpo skoraði annað mark sitt fyrir Liverpool. 

- Newcastle United hefur bara tapað tveimur leikjum á leiktíðinni. Liverpool ber ábyrgð á þessum tveimur töpum. 

- Roberto Firmino spilaði sinn 350. leik sinn með Liverpool. Hann hefur skorað 107 mörk fyrir Liverpool og lagt upp 71.

- Liverpool hélt hreinu í útileik í deildinni í fyrsta sinn frá því á móti Newcastle á St James Park í apríl í fyrra. 

TIL BAKA
Nýlegar fréttir
Fleiri fréttir
Fréttageymslan